19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3363 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

196. mál, þjóðaratkvæði um prestskosningar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra for­seti. Hv. 5. þm. Sunnl. sagði snemma í sinni ræðu, ef það voru ekki hans fyrstu orð, að ég væri sem barn eða barn í málflutningi mínum í þessu máli. (Gripið fram í: Ályktun.) Ályktun gerir ekki mikinn mun. Sjálfur hefur hann svo haldið hér ræðu, og ég verð að gera játningu. Ég hef haft á tilfinningunni undir þessari ræðu að ég væri eiginlega barn, því ég skildi ekki hvað hann var að fara lengi vel. Hann gerði mér upp ýmsar hugsanir og stefnu og ályktanir sjálf­ur, sem í flestum tilfellum gengu þveröfugt við það sem ég hugsa og álykta sjálfur. Og ég fór að hugsa: Hvernig stendur á þessu?

Nú er það upplýst að þegar hann var að hlusta á hv. 5. þm. Vestf., þá var hann hér hvergi ná­lægur. Ég fór að hugsa: Hvar skyldi hann hafa verið í veröldinni þegar hann var að hlusta á mig? En ég komst að því, að hann var alltaf að deila við mig og ræða við mig á þeirri forsendu að ég væri maður sem vildi afnema prestskosn­ingar. Nú er það einmitt svo að allt, sem ég er að gera í þessu efni, mótast af allt öðru sjónarmiði, því ég tel að það eigi ekki að afnema prestskosningar. En með þessum rökum, ef svo mætti segja, hefur hv. 5. þm. Sunnl. sveipað sig hér í ræðustólnum. En fyrst hann nefnir mig sem barn, má ég þá ekki hafa þau forréttindi að segja það sem hvert barn mundi hafa sagt, að þau rök, sem hann sveipar sig með, eru engin rök. Hann gengur allsber í þessu máli.