19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3370 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

183. mál, þjónustustarfsemi í Vestur-Húnavatnssýslu

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pálma Jónssyni fyrir góðar undirtektir við þetta mál, þótt ég hefði að sjálfsögðu helst kosið að hann og samflokksmaður hans, Eyjólfur K. Jónsson, hv. 5. þm. kjördæmisins, hefðu verið meðflm. að þessari till., eins og við höfum löngum leitað eftir. En það er einmitt ástæðan til þess, að flutningur þessarar till. hefur dregist, að leitað var eftir því og óskað var eftir því af hálfu heimamanna að hún yrði flutt af þm. allra flokka eða a. m. k. allra þm. kjördæmisins. Þess vegna einmitt gleður það mig, að undirtektir hv. þm. eru í grófum drátt­um mjög jákvæðar.

Ég vildi hins vegar láta þess getið í sambandi við þá leiðréttingu, sem hv. þm. kom hér með, að þegar till. var lögð fram, þá var þessi breyting ekki orðin sem hann hér skýrði frá. Ég kynnti mér það sérstaklega, hvort aðstæður hefðu í einhverju breyst frá því að till. var flutt í fyrra, en þá var till, svo seint fram komin að það var aldrei mælt fyrir henni, og hún fékk því ekki neina meðferð þá heldur í n., og var auðvitað sjálfsagt að flytja hana aftur. En áður en hún var flutt kynnti ég mér að hvað miklu leyti hefðu orðið breytingar til batnaðar í þessum efnum, og þá var ekki orðin, þegar till. var flutt, nein breyting í þessum efnum, hvað varðar löggæslu á staðnum. En við fögnum því að sjálf­sögðu að loksins hefur verið orðið við þess­um eindregnu óskum. Eftir standa þá sem áður þeir tveir þættir till. sem fyrst eru nefndir.