20.04.1977
Sameinað þing: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3378 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í upp­hafi þakka fyrir ágætt minni, að ég hafi kvatt mér hljóðs strax á eftir framsöguræðu hæstv. forsrh. um þetta mál, og er sannarlega hrósvert þegar þess háttar, sem lýtur að þingsköpum, er munað á milli daga í þessari hv. stofnun.

Ég vil, eins og að líkum lætur, lýsa yfir stuðningi í sjálfu sér við öll þau markmið sem koma fram í þáltill. ríkisstj., við þau sjónarmið sem þar koma fram, samtímis því sem ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við brtt. þá sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir flutti hér áðan, og mun ég gera grein fyrir því hvers vegna.

Ég gæti ekki fengið mig undir nokkrum kringumstæðum til þess að styðja, hvorki í orði né við atkvgr., till. borna fram af Jóhannesi Nordal seðlabankastjóra og formanni Landsvirkjunar um smáfjárveitingar til verndar landi og náttúrufari þessa fríða lands, í sömu andránni og Alþ. er knúið til þess með mjög svo ólýðræðislegum aðferðum að samþykkja inn í landið verksmiðjur í eigu útlendinga að verulegu leyti, sem eru líklegar til þess að valda þess háttar spjöllum á náttúrufari þess, að þúsundfaldar þær upphæðir, sem Alþ. er nú ætlað að samþ. til náttúruverndar hér samkvæmt till. Jóhannesar Nordals, mundu hvergi nærri nægja til þess að bæta það tjón.

Þetta mál, þessi till., er þá helst til þess fallin af auka sæmd Alþ., sem sumir hinna eldri þm. hér gera sér tíðrætt um, sem enn hljómar nú allt að því í eyrum manna, yfirlýsingar for­manns þingflokks Framsfl. um það, að þannig væri virkjunarmálum hér og stóriðjumálum fyrir komið að alþm. væru helst ekki bærir til að fjalla um þau mál, hefðu ekkert með þau að gera, því að aflið og valdið væri í annarra höndum. Þessi till. um smáfjárveitingu gegnum hjarta­lokur Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra og Co. til verndar íslenskri náttúru og til land­verndar á Íslandi er háðungarmál. Síst skal á mér standa að greiða atkvæði með framgangi þeirra mála til verndar íslenskri náttúru og landi gegn spjöllum erlendrar stóriðju. Síst skal á mér standa að greiða atkv. gegn því að leyft verði að koma upp hér í Hvalfirði þeirri verk­smiðju sem nú er verið að þvinga í gegnum Alþ. lagasetningu um, þar sem gengið er þvert á ráðleggingar íslenskra sérfræðinga, þeirra sem bærastir eru um slík mál að fjalla, um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir landsspjöll af völdum þeirrar verksmiðju og náttúruspjöll af hennar völdum. Síst skal standa á mér að greiða atkvæði gegn því að séu verksmiðja verði látin rísa hérna, og mundi samsvara tugmilljarða fjárframlögum til verndar íslenskri náttúru og gæðum þessa lands.

Ég legg sem sagt eindregið til, að seðlabanka­stjóra þeim, sem hér hefur verið nefndur og formanni Landsvirkjunar verði ætlað hið hefðbundna 5 ára tímabil afturbatapíkunnar áður en honum verði falið að semja frv. eða þáltill. um nátttúruvernd á Íslandi, og mun greiða atkvæði í með till. hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur.