20.04.1977
Sameinað þing: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3387 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að leggja fáein orð í þennan belg og þó alveg sérstaklega vegna þess að því máli, sem hér um ræðir, hefur af nokkrum hv. ræðumönnum nánast verið skipt þannig upp, að við komum til með að eiga um það að velja í atkvgr. um brtt., þegar þar að kemur, hvort við séum með eða á móti Þjóðarbókhlöðu.

Ég vil lýsa því, að ég tel mig eins mikinn áhugamann um byggingu Þjóðarbókhlöðu og flesta aðra hv. alþm. Ég tel mig hafa stutt það mál frá upphafi eftir því sem ég hef haft aðstöðu til, og mig langar til að gera það framvegis við hvert það tækifæri sem ég get. Ég tel hins veg­ar að sú ákvörðun Alþ., sem ég hygg að hafi verið gerð annaðhvort samhljóða eða nokkurn veginn samhljóða á sinni tíð á hátíðlegu þjóðhátíðarári við hátíðlegt tækifæri, hún hafi verið í því fólg­in að Alþ. ætlaði að sjá til þess að ríkissjóður legði fram þá fjármuni sem til þess þyrfti að koma upp Þjóðarbókhlöðu og það heldur fyrr en seinna. Þetta átti að vera gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín, ef svo mátti segja, á þessu hátíðar­ári. Og ég lít þannig á, að með því að gera till. um að þessar 300 millj., sem má í rauninni líta á sem dálítið sérstakan hvalreka, ef till. kemur fram um að þessar 300 millj. eigi að renna alfarið til Þjóðarbókhlöðu öðruvísi en þá sem bráðabirgðalán til þess að brúa eitthvað bil, þá sé í rauninni með því verið að létta af Alþ. þeirri kvöð, sem það tók á sig og taldi ljúfa skyldu á sinni tíð, að útvega Þjóðarbókhlöðu það fé sem þyrfti til þess að hún kæmist upp.

Ég held að það hafi engum dottið í hug þá, að það ætti að fjármagna Þjóðarbókhlöðuna með einhverjum hvalreka, eins og ég segi, ágóða nánast af þjóðhátíðinni eða sölu þjóðhátíðarmyntar. Með þessum hætti væri í rauninni að­eins verið að létta af Alþ. að einhverju leyti þeirri skyldukvöð. Ég hélt það væri í rauninni ljúf skylda Alþ. að standa við fyrirheit sitt um að byggja Þjóðarbókhlöðu. Það er svo ekki á hverjum degi sem þess er í rauninni kostur að fá 300 millj. kr., jafnvel verðbólgukróna, til þess að vernda ýmsar mikilsverðar sögulegar minjar og til þess að vernda landið. Því miður er það ekki svo, að þær séu tiltækar til ráðstöfunar hér hjá okkur eða okkur finnist það svona á hverj­um degi.

Ég vil skjóta því til þeirra sem telja að það sé nauðsynlegt fyrir Alþ. að sýna myndarskap í því að breyta þessari skipulagsskrá, að ég er tilbúinn til þess að vera meðflm. að till., ef mér sýnist að hún hefði eitthvert umtalsvert fylgi, að Alþ. sýni, að það er húsbóndi Seðlabankans, á þann hátt að inn í þessa skipulagsskráverði skot­ið ákvæði um, að Seðlabankinn væri skyldur til þess að verðtryggja að fullu þessar 300 millj., þannig að þær komi að þeim bestu notum sem hugsast getur. Slík till. þjónar einnig því mark­miði, sem ég held að fyrir öllum vaki, að þessar 300 millj. komi raunverulega að gagni til þess, eins og segir í þessum drögum að skipulagsskrá sem hér liggja nú fyrir og hægt er, eins og þegar hefur verið tekið fram, að breyta eftir því sem Alþ. vill, að tilgangur þessa sjóðs er nákvæmlega sá sem Alþ. í rauninni mótaði á sínum tíma í sambandi við þjóðhátíðarhaldið, að fé skyldi notað til þess að vinna að og vekja áhuga á því að varðveita og vernda þau verðmæti lands og menningar sem núverandi kynslóð hefur tekið í arf. Ef hv. þm. telja að þetta mál sé alveg sérstak­lega til þess fallið að heyja þá frelsisbaráttu sem hv. 5. þm. Vestf. var að tala um hér áðan, þá held ég að það væri best gert með því að flytja brtt. um þetta, að skylda Seðlabankann til þess að verðtryggja þennan sjóð að fullu.

Ég vil svo aðeins segja það, að ég tel það mjög merkilegt og skynsamlegt, ef einhvern tíma stæði þannig á að Alþ. hefði ekki sinnt þeirri skyldu sinni, sem það var búið fyrir löngu að taka á sínar herðar, að ætla nægilegt fjármagn til byggingar Þjóðarbókhlöðu, að þá væri hægt að brúa eitthvert bil með því að taka einhvern hluta af þessum sjóði að láni sem síðan yrði endur­greitt þegar Alþ. sýndi þann myndarskap, sem ég trúi ekki öðru en það geri, þegar allar teikn­ingar eru tilbúnar og hægt að fara að vinna að þessu. Það hefur tekið óeðlilega langan tíma, að ég hygg, að leggja fram það fé sem það er marg­búið að heita í þessu skyni.

Ég get lýst því yfir, — og ég vil þá vitanlega taka afstöðu til málefnisins, en ekki þess, hverjir hafa undirbúið þetta mál, — ég get lýst því yfir fyrir mitt leyti, að ég tel þessa skipulagsskrá skynsamlega og get fylgt henni, en teldi mjög æskilegt, ef samstaða næðist um það, að þessi sjóður yrði verðtryggður. Þá er ég ekki í neinum vafa um að hann kemur í framtíðinni að mjög miklu gagni í sambandi við þau mörgu og afar mikilvægu verkefni sem honum er ætlað að sinna.