20.04.1977
Sameinað þing: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3391 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki tala lengi, bæti því við, að ég mun meira að segja gera sérstakar ráðstafanir til þess að reyna að standa við þetta fyrirheit.

Ég hygg að hæstv. forsrh. hafi einfaldað nokk­uð frásögn sína af ræðu hv. þm. Karvels Pálma­sonar áðan, er hann taldi að það væri sjónarmið 5. þm. Vestf. að alþm. gætu aðeins sýnt sjálf­stæði sitt með því að taka óefnislega afstöðu gegn till. ríkisstj. hér sleppir hæstv. forsrh., eins og hæstv. dómsmrh. á undan honum, ósköp ein­faldri frasögn af umr. 10. des. um mál þetta, en tilefnið var frétt í opinberum fjölmiðlum af því að seðlabankastjórnin hefði efnt til samkvæmis — veisla var það nú ekki nefnt — að viðstöddum forseta lýðveldisins, þar sem til­kynnt var stofnun Þjóðhátíðarsjóðs þess sem ríkisstj. leggur nú fram till. hér á Alþ. um að stofnaður verði. Síðan hafa ráðh. gengið fram, maður eftir mann, til þess að rökstyðja það hér á hv. Alþ. að Þjóðhátíðarsjóðurinn, sem til varð í des., hafi alls ekki verið stofnaður enn þá. Hitt vita þó allir hv. alþm. furðuvel, að ástæðan fyrir mótmælum hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur þá og enn nú, sem ég hef að vísu alls ekki þakkað henni enn eins og skyldi frem­ur en ýmislegt annað, hún var sú, ástæðan var sú, að það vissu allir, þm. hérna vissu það, að þessi sjóður hafði þegar verið stofnaður með pompi og prakt, eins og frá var sagt, og frá þeirri staðreynd munu ráðh. alls ekki skrökva sig á síðasta vetrardag 1977.

Við skýrum þetta mál ekki ákaflega mikið til viðbótar. Þetta er allt saman deginum ljósara í vitund okkar alþm. Hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson þarf ekki, — hann gerði það að vísu ekki, eyddi ekki í það mörgum orðum, — þarf ekki að endurtaka neitt það sem hann sagði um það, með hvaða hætti þessi myntsláttusjóður Seðlabankans varð hagleg geit fyrrv. ríkisstj. og hefur reynst það núv. ríkisstj. líka. Það er ekki aðeins stjórn Seðlabankans, sem fór út fyrir valdsvið sitt í sambandi við fjárveitingar á þjóð­hátíðarári. Það gerði ríkisstj. líka. Það var varið fé til Gjábakkavegar, ef mig minnir rétt, fyrir utan allar fjárveitingar. Þjóðin vissi það. Skáldin kváðu um það. Hagyrðingur í hverjum fjórðungi setti saman vísu um það, hvernig hæstv. þáv. forsrh. hefði þvingað fé út úr hv. þáv. fjmrh. í þessu skyni. Ég man eina tiltölulega meinlausa stöku í þá veru og mun fara með hana, með leyfi hæstv. forseta, kveðna norður í landi:

„Fjármála er voðinn vís

vill þó stjórnin tóra,

eins og bústinn auragrís

Ólafur kreistir Dóra.“

Það var því á allra manna vitorði að þessi myntsláttusjóður var notaður til þess að fylla upp í óheppileg göt eftir puttana á fleiri mönn­um en bankastjóra Seðlabankans.

Ég skal taka undir það, að það væri ákaflega æskilegt að við hefðum nú í landinu þess háttar ríkisstj., setta saman úr þess háttar efni, að það þýddi að beina að henni geiri sínum eða skotum, að hún væri það þétt fyrir að það væri naglhald í henni. En ríkisstj. eins og þessi, sem sett er saman eins og einhvers konar rörhlaup, fret­hólkur, eins og þess háttar byssur voru kallaðar vítt um land, fyrir seðlabankastjórnina, hún er bara þess háttar að ef skotið er að henni, eins og hæstv. dómsmrh. mæltist til, var tekið fram af fullkomnum drengskap, — ef skotið er að henni, þá er hún ekki í hættu því hún er opin í báða enda. Það er sá, sem stendur fyrir aftan hana, sem er í hættu. Í þessu tilfelli er það seðlabanka­stjóri.