20.04.1977
Efri deild: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3401 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Frsm. minni hl. (Stefán Jónsson):

Herra for­seti. Ég varð raunar höndum seinni að fara þess á leit við forseta, að hann frestaði umr. um þetta mál vegna fjarveru Geirs Gunnars­sonar, sem eins og hv. þm. er kunnugt er fullt eins kunnugur samningunum, sem hér um ræðir, og máli þessu eins og ýmsir aðrir dm. Ég er viss um að hæstv. forseti hefði veitt mér þá bón mína ef ég hefði komið henni á framfæri í tæka tíð, og verður nú að halda áfram sem horfir um þetta mál.

Fremur vil ég nú kalla þetta vorkunnarmál ráðh. heldur en réttlætismál, það sem við fjöll­um um hér í dag, eins og hv. síðasti ræðumaður, Jón G. Sólnes, kallaði það. Okkur var ljóst hér í d., er sjútvrh. hæstv. mælti fyrir frv. varðandi breyt. á sjóðakerfinu í vetur, að hann treysti á fyrirheit er hann hafði fengið ómótmælanlega frá hinum ýmsu samtökum sjómanna, og einnig var það okkur ljóst hér í d., að þau fyrirheit höfðu forsvarsmenn sjómanna gefið hæstv. ráðh. í góðri trú. Ég tel mig hafa ástæðu til þess að ætla að í trausti þess arna hafi þingmálin, sem vörðuðu sjóðakerfið, fengið jafnskjóta af­greiðslu, ekki síst hér í d., en einnig á þinginu yfirleitt, sem raun bar vitni.

Nú höguðu því svo örlög til, að svo fór ekki sem ráðh. treysti á og viðmælendur hans, að samningarnir, sem frv. um breyt. á sjóðakerfinu byggðu á, væru samþ., heldur fór þetta á allt aðra lund.

Ég mun stytta mjög mál mitt um frv. það er hér um ræðir, en leyfi mér að lesa hér sam­eiginlegt minnihlutanál. okkar Jóns Árm. Héð­inssonar, hv. þm., svo hljóðandi:

„Við setningu brbl. var gengið á rétt verkalýðssamtakanna. Rétt er að vekja athygli á því, að þegar lögin voru gefin út ríkti hvorki verkfallsástand né hafði áður verið reynt til þrautar að ná niðurstöðu með eðlilegum samningavið­ræðum, þótt ekki væru nema þessar tvær ástæð­ur sér, þá hlutu verkalýðssamtökin að mótmæla útgáfu brbl. mjög harðlega.

Samningsuppkast það, er löggilt var með brbl., hafði verið samþ. af 1/4 af samtals 26 aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands, en fellt af 22.

Við útgáfu brbl. var bundinn endi á framhald­andi samningaviðræður sem miðuðu að sam­ræmingu sjómannakjara um land allt, bæði varðandi aflahlut og tryggingar. Frá því brbl. voru gefin út hefur verið samið sérstaklega á Vest­fjörðum um hærri aflahlut, og má því til sanns vegar færa að andi brbl. hafi verið brotinn nær tafarlaust.

Gildistími þessara brbl., sem sett voru á mjög svo hæpnum forsendum og mótmælt hefur verið kröftuglega, rennur út 15. n. m. Verði þau nú staðfest á Alþ., mundi slíkt aðeins leiða til harðnandi deilna við samningaborðið og af eðlilegum ástæðum auka á tortryggni sjómanna. Því legg­ur undirritaður minni hl. til að frv. verði fellt.“

Við nál. vil ég aðeins bæta þessu: Ég tel enga ástæðu til þess að við gerum neina tilraun til þess að tefja afgreiðslu málsins sem hér er um að ræða. Ég vil heldur að við flýtum fyrir um­fjöllun þess hér á þingi. Sjálft hefur það runnið sitt gildisskeið á enda að mestu leyti, og hér væri aðeins um það að deila hversu rétt hefði verið að leysa aðkallandi vanda á þeim tíma þegar helst var við hann að glíma af hálfu ráðh. Ég er ekki viss um að þær deilur verði sérlega frjósamar hér í d. og vil rétt í lokin sýna hæstv. ráðh. þá viðleitni til sanngirni að láta uppi þá skoðun mína, að einu hafi setning þessara brbl., sem ég tel að öðru leyti hafa verið ákaflega vafasama, að einu hafi hún komið góðu til leiðar, hún hafi ýtt dálítið hressilega við sjómönnunum um að hressa upp á stéttarsamtök sín og gera þau hæfari bæði til samninga og til þess að standa í deilum, og þá er nokkuð unnið.