20.04.1977
Efri deild: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3405 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég veit ekki hvað hljóp svo í skapið á hv. þm. Stefáni Jónssyni. Þolir hann ekki málefnalega skoðun frv. þótt hann sé því mótfallinn. Það kemur undarlega fyrir sjónir, því ég hef oft rætt við þennan hv. þm. um mál sem við höfum verið á tveimur skoðunum um og það hefur gengið vel. Mér þykir þetta enn þá undarlegra þegar hann á eftir eiginlega staðfestir flest af því sem ég sagði til rökstuðnings fyrir því, að ég ætlaði að greiða frv. atkvarði mitt. M. a. staðfesti hann það, sem fram kom á fundi okkar með sjómönnum og útvegsmönnum, að þeir líta á þetta sem samn­ingsígildi eða hvað við viljum kalla það og telja nauðsynlegt að segja samningnum upp. Þetta hefur ekki verið gert sums staðar um landið. Þetta kom greinilega fram.

Hann andmælti ekki heldur, sem ég færði sem rökstuðning og tel ákaflega mikilvægan, að þessir menn eru þegar búnir að leggja í það mikla vinnu að byggja sínar kröfur á þessu samningsígildi. Þessu mótmælti hv. þm. ekki heldur. Er það ekki einhvers virði? Verður ekki að líta á það einnig? Þá vinnu þyrfti þá a. m. k. að vinna upp að nýju. Ég mótmæli því, að ég hafi verið að gera grein fyrir nokkrum misskilningi mínum. Ég færði rök fyrir því sem ég lýsti við 1. umr. Það er óbreytt og ég þarf ekki að endurtaka það hér. En komið hafa fram mikilvægir nýir þættir í þessu máli sem hann væri meiri maður af að skoða málefnalega og endurskoða afstöðu sína.