20.04.1977
Efri deild: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3406 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég sagði við 1. umr. þessa máls í lok umr. að ég vildi upplýsa það, að nokkru fyrir þinglok var mikill þrýstingur á mig og ríkisstj. að flytja á Alþ. frv. til lausnar þessu máli. Þá voru málin rædd í þingflokki Sjálfstfl. og í þingflokki Framsfl., að það þyrfti að grípa til aðgerða til lausnar þessu máli. Í þingflokki Sjálfstfl. var það samþykkt og á þeim grundvelli samþykktum við ráðh. Sjálfstfl., að flytja málið. Formaður Framsfl. lýsti því yfir í ríkisstj., að málið hefði verið rætt í þingflokki Framsfl. og þar hefði einnig verið litið sömu augum á málið. Þetta var það sem fyrir lá í vor. Hins vegar var tímasetning ekki ákveðin. Hún var tekin í ríkisstj. rétt áður en brbl. voru gefin út, og öll ríkisstj. var sammála. Þetta sagði ég við umr. hér í haust og fór þar ekkert á milli mála.

Ég vil aðeins bæta því við, að þrátt fyrir þann þrýsting, sem á mig var lagður á s. l. vori, vildi ég alls ekki leggja fyrir Alþ. frv. til lausnar á þessu kjaramáli. Ég vildi láta reyna frekar á samningsleið. Og ég hafði m. a. samband við sáttanefndarmenn og sáttasemjara sem ráðlögðu eindregið að þeir heldu áfram samningstilraun­um, þessar samningstilraunir stóðu yfir með löngum hvíldum, því að áhugaleysi virtist algjört á báða bóga. Síðan var lögð fram sáttartillaga sem var undirrituð af samninganefndum útgerðar­manna og sjómanna 28. júlí. Atkvgr. um þessa sáttatill. tóku heilan mánuð og með þeim afleið­ingum sem frsm. n. lýsti í ræðu sinni. Allir aðilar töldu að því loknu að það væri ekki grundvöllur til þess að fara af stað aftur, en málaferli voru víða í uppsiglingu. En áður en þegar brbl. lágu á borðinu hjá mér lagði ég á það áherslu, að inn í þau væri tekið að það mætti eftir sem áður gera samninga á milli aðila, en þó ekki knýja þá fram með verkföllum. Og ég hygg að um það verði ekki deilt, að mildari lög í þessum efnum hafi ekki áður verið gefin út.

Ástæðan fyrir því, að ég sá mig til knúinn að leggja til við ríkisstj. að gefa þessi lög út, var það misræmi sem var á hinum ýmsu stöðum á landinu. Breyting sjóðakerfisins skapaði grund­völl fyrir hækkun á fiski. Fiskverðshækkunin var, að mig minnir, 33%. Af því voru um 24% hækkun fiskverðs vegna breytingar á sjóðakerf­inu. Það var því eðlilegt og sjálfsagt að allir sjómenn létu eitthvað af mörkum, en sumir tækju ekki á sig þessar fórnir, en aðrir ekki. Þetta var gert á grundvelli þeirra yfirlýsinga sem sjómannaleiðtogarnir skrifuðu undir ásamt fulltrúum útgerðarinnar og hv. 5. þm. Norðurl. e. gat réttilega um áðan.

Ég vil líka undirstrika það, að með þessum brbl. fá sjómenn, sem höfðu samið, og líka þeir, sem ekkert sömdu og höfðu fellt allt, nokkur réttindi, með hækkun á tryggingum: líftrygging­um og slysatryggingum, á grundvelli þeirrar sáttatill., sem fram var borin 28. júlí, svo að það er ekki allt neikvætt sem hér hefur átt sér stað. Skiptaprósentan var líka hærri til þeirra, sem höfðu samið, allt til 15. maí í vor.

Ég vildi aðeins að þetta kæmi hér fram.