20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3414 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Það var af svipuðu tagi og áður, það innlegg sem formaður þingflokks Alþfl. hafði hér fram að færa í sambandi við það stóra mál sem hér er á dagskrá. Hann vék ekki að því einu orði að reyna að rökstyðja afstöðu Alþfl. til málsins, heldur dró hér upp gömul bréf sem er mesti misskilningur að séu nú lesin hér upp í fyrsta skipti. Þau voru m. a. lesin yfir mér á framboðsfundum austur á landi fyrir löngu og hafa oft verið lesin upp, svo að þau eru ekkert ókunn. Hins vegar reyndi hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason að túlka þessi bréf og draga af þeim ýmsar ályktanir sem vitanlega fá ekki staðist, en voru í fullu samræmi við þann málflutning sem Alþfl. hefur iðkað í þessu máli.

Það hefur komið mjög skýrt fram í umr. um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, bæði í fyrra skiptið þegar frv. lá hér fyrir um það mál og eins að þessu sinni, að lengi hafði starfað á vegum iðnrn. sérstök n. um orkufrekan iðnað undir stjórn formanns Landsvirkjunar, Jóhannesar Nordals. Og það hefur ekki farið fram hjá neinum manni, sem hlýtt hefur á þessar umr., að þessi n. hafði átt í samningagerð við fulltrúa auðfyrirtækisins Union Carbide og gert drög að samningum við þennan auðhring um að koma upp járnblendiverksmiðju hér, í meginatriðum á þeim grundvelli sem nú er verið að ræða um að setja lög um. Þetta hefur legið fyrir allan tímann. Ég hef sagt frá því nokkrum sinnum hér í umr. um málið, að ég hafi í ríkisstj. látið bóka andstöðu mína við þetta mál. Hér hefur einn af núv. ráðh., sem þá sat með mér í ríkisstj., staðfest í umr. að þetta sé rétt. Þetta hefur verið staðfest hér margsinnis áður. En auðvitað munar formann þingflokks Alþfl. ekkert um að segja, að margendurtaka að öll ríkisstj. hafi verið á þessari skoðun, þetta hafi verið eindregin skoðun allrar ríkisstj. (GÞG: Þetta er því miður.) Já, þetta er óheiðarlegur málflutn­ingur hjá Gylfa Þ. Gíslasyni, þegar það liggur fyrir að það er margstaðfest hver hafi verið afstaða mín til málsins. Hér er aðeins um það að ræða, að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason vill ekki viðurkenna það sem honum kemur eitthvað að­eins verr. Það skal reyna að halda hinu á lofti, sem hann veit að er ósatt.

Það hefur ekki heldur verið á neinn hátt óljóst fyrir mönnum, að Magnús Kjartansson fylgdist með störfum þessarar n., sem hafði staðið í samningum við Union Carbide, og hann var á þeirri skoðun að rétt væri að gera samning um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði með tilteknum skilyrðum. Þetta hefur legið fyrir allan tímann. En hitt hefur líka verið jafnskýrt, eins og er raunverulega staðfest í þeim bréfum eða uppköstum að bréfum sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason las hér upp, að Magnús Kjartansson tók alltaf fram, að þó að þessi hugmynd um járnblendiverksmiðjuna nyti stuðnings Alþfl. og Framsfl., þá væri ekki um að ræða stuðning Alþb. Það tók hann fram. Ég veitti að vísu athygli, að nú kom upp sá lestur í bréfi því sem Magnús Kjartansson hafði sent 21. maí, að Gylfi Þ. Gíslason orðaði það nú á annan veg í sam­bandi við þetta bréf en öll hin, þar sem hann segir að flokkur minn hafi ekki tekið afstöðu. Ég skal ekkert segja um hvernig þýðingin á þessu er, en eitt veit ég, að þetta er ekki í sam­ræmi við hin uppköstin sem hann las og þetta er ekki í samræmi við sannleika málsins, vegna þess að um það megum við gerst vita sjálfir, það er alveg ljóst, að þetta mál hafði ekki hlotið samþykki, hvorki í þingflokki Alþb. né í stjórn­málaflokknum sem slíkum. Á það er auðvitað auðvelt að færa fullar sönnur. Hinu geta auðvitað óvandaðir málflytjendur haldið áfram að þrástagast á að annað sé upplýst.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að megintilgangur af hálfu Magnúsar Kjartanssonar á þessum tíma, þegar vinstri stjórninni var raunverulega lokið og búið var að ákveða að efna til kosninga, þá var meginsjónarmið hans á grundvelli þeirra draga að samningum, sem fyrir lágu við hið ameríska fyrirtæki, að það lá fyrir að það var tvímælalaus meiri hluti fyrir því hér á landi að gera þennan samning. Það vissu allir um afstöðu Sjálfstfl. Sú andstaða, sem þar kom fram, var eingöngu á þessum tíma byggð á því að hann vildi koma ríkisstj. frá. Allir vissu að Sjálfstfl. var samþykkur efni málsins, og ég efast ekkert um að t. d. formaður í þeirri viðræðunefnd, sem gerði drögin að þessum samn­ingum við Union Carbide á sínum tíma, hefur ekkert dregið undan að túlka það hvert var raunverulegt sjónarmið Sjálfstfl. Og af því að Magnús Kjartansson vissi um þessa afstöðu Sjálfstfl., hafði á borðinu samþykki Alþfl. og vissi einnig um afstöðu Framsfl., þá var honum alveg ljóst að þetta mál hlyti að ganga fram. Hann hafði sína skoðun á málinu, en hann hafði alltaf tekið fram það, sem lá alveg bókfast fyrir, að Alþb. hafði aldrei léð samþykki sitt fyrir málinu og ég sem meðráðh. hans í ríkisstj. hafði látið bóka andstöðu mína við málið.

Í umræðum um þetta mál hef ég einnig greint frá því hér á Alþ. og fleiri sem þátt tóku í þeim fundi, að hér í alþingishúsinu var í marsmánuði fundur með ríkisstj. allri á þeim tíma og full­trúum stjórnmálaflokkanna og fulltrúum í n. um orkufrekan iðnað, þar sem síðustu drög að samningagerð voru lögð fram. Á þeim fundi var ekki tekin nein formleg ákvörðun. Þar lýsti ég einnig andstöðu minni við málið, og ég efast ekkert um að allir, sem þar voru, eru fúsir að votta það, að þetta var afstaða mín. En það er, eins og ég segi, athyglisvert að formaður þing­flokks Alþfl. vill í þessum efnum hafa það sem hann veit að er ósatt. Hann vill reyna að hafa það sem rétt og reyna að klína því bæði á Alþb. og mig, að við höfum á þessum tíma verið búnir að samþykkja að standa með þessu máli. Allt slíkt er rangt.

Ég skil það mætavel, að í þeirri stöðu sem Magnús Kjartansson var á þessum tíma, þá var nokkur vandi fyrir hann, eftir að ríkisstj. var raunverulega fallin, að láta þá samninga alger­lega falla niður sem gerðir höfðu verið óform­lega við hinn erlenda aðila, þar sem fyrir lá að það var stjórnmálalegur meiri hl. á Íslandi fyrir því að þetta mál næði fram að ganga. Og af því m. a. ganga öll þessi bréfaviðskipti á milli, að þegar fulltrúi Union Carbide er með hótanir um að hann gangi þá frá öllu saman, þá er verið að undirstrika það, hver sé afstaða flokk­anna á Alþ. til málsins, og frá því er skýrt og þá alltaf tekið fram það, sem rétt var, að „minn flokkur“, eins og Magnús Kjartansson segir, hafi ekki tekið afstöðu til málsins.

Ég vil því segja það í sambandi við þennan málflutning Gylfa Þ. Gíslasonar, að auðvitað segir þessi málflutningur ekkert nýtt um gang þessa máls, ekkert annað en það sem fyrir lá um störf þessarar n. sem hafði gert drög að samningum við Union Carbide og hafði unnið að störfum sínum í fullu samráði við Magnús Kjartansson, þáv. iðnrh., sem einnig hafði lýst því yfir, eins og hann hafði lýst yfir hér á Alþ., að hann fyrir sitt leyti gæti fallist á þessa samningsgerð. En hitt er jafnljóst, að Alþb. hafði aldrei samþykkt þessa samninga og þar var allan tímann yfirgnæfandi meiri hluti manna gegn samningsgerð á þessum grundvelli.

Þessi atriði um það, hvar upphaf þessa máls hafi legið og hvað hafi verið búið að gera í sambandi við þær viðræður sem áttu sér stað á milli n. um orkufrekan iðnað og hinna erlendu aðila, eru ekki það sem skiptir máli í þessum efnum. Það er hitt sem skiptir máli, að þegar málið kemur fyrir Alþ. til afgreiðslu, hver þá er afstaða einstakra þm. og einstakra stjórnmálaflokka til málsins og hvernig þeir rök­styðja afstöðu sína til málins.

Þegar málið loksins kom fyrir Alþ. kom auð­vitað í ljós að þingflokkur Alþb. var einróma á móti málinu og Magnús Kjartansson greiddi einnig á atkv. á móti málinu þrátt fyrir sinn fyrri hlut að þessu máli, þar sem hann benti m. a. á að aðstæður væru gerbreyttar frá því að þessi drög voru samin á sínum tíma vegna breyttrar aðstöðu. Hann gerði hér grein fyrir þessari afstöðu sinni. Þegar málið svo kemur fyrir Alþ. getur auðvitað enginn stjórnmálaflokkur, sem metur virðingu sína að einhverju, réttlætt afstöðu sína til máls eins og þessa á þeim grundvelli að einhver annar maður úr öðrum flokki hafi staðið í samningsgerð við aðra aðila um málið. En það er engu líkara en að Alþfl. þurfi ekki á neinu slíku að halda. Hann er bara með því að semja við útlendinga um stóriðju, og eina afsökun hans er sú, að Magnus Kjartansson hafi tekið þátt í samnings­gerð um málið.

Við alþb.-menn höfum hins vegar, bæði í fyrra tilfellinu og nú einnig í hinu síðara, gert grein fyrir afstöðu okkar til málsins efnislega séð. Við höfum bent á að raforkusalan er óhagkvæm. Hvað segir Alþfl. um það? Ekki eitt einasta orð. Við höfum bent á að hér sé um rekstur að ræða sem sé mjög áhættusamur og miklar líkur til þess að hér geti verið um hallarekstur að ræða. Hvað segir Alþfl. um það? Alveg sama bara með erlendri stóriðju. Við höfum einnig bent á að þau skilyrði, sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins vildi setja til þess að tryggja okkur gegn mengunarhættunni, það hafi verið vikið frá þeim í veigamiklum atriðum. Hvað segir Alþfl. um þetta atriði? Metur það einskis. Það eina, sem hann styðst við, er það, að Magnús Kjartansson tók á sínum tíma þátt í því að semja við Union Carbide um þetta mál.

Auðvitað er það, að afstaða af þessu tagi sýnir bara hve málstaðurinn hjá þeim, sem standa með þessu máli, er veikur. Þess mun verða minnst lengi, að það hefur komið í ljós í þessu máli að eini stjórnmálaflokkurinn hér á Alþ. nú, sem virðist standa alveg heill og óskiptur í gegnum þykkt og þunnt með erlendri stóriðju, það er Alþfl., og hann þarf engin önnur rök en þau, að Magnús Kjartansson hafi tekið þátt í því að ræða við hina erlendu aðila. Alþfl. verður nú í dag dæmdur mesti stóriðjuflokkur allra flokka á Íslandi, enda segir núv. formaður flokksins, Benedikt Gröndal, í umr. um málið að hann telji það blátt áfram til einstakrar íhaldssemi og afturhaldssemi að standa gegn máli eins og þessu. Hann bætti því einnig við, að þar sem nú væru liðin um 10 ár síðan síðast var gerður samningur við erlendan aðila um stóriðju, þ. e. a. s. um álverksmiðjuna í Straumsvík, þá væri nú kominn tími til að fara að bæta við. Þetta er afstaða Alþfl. Og auðvitað dettur engum manni í hug, að Alþfl. fríi sig eitthvað í sambandi við þessa afstöðu með því aðeins að vitna til þess, að á ákveðnum tíma hafi Magnús Kjartansson tekið þátt í samningsgerð um málið og hann hafi þá verið fylgjandi málinu.

Það kemur sem sagt í ljós að Alþfl., sem reynir að hefja sig nokkuð í vissu tilfelli með því, að hann vilji jafnvel öðrum flokkum fremur stuðla að því að skapa öryggi á vinnustöðum, vernda þá, sem vinna á hinum ýmsu stöðum, gegn ýmiss konar hættu, hann víkur öllum slíkum sjónarmiðum sínum til hliðar og gleypir hvað sem er þegar um það er að ræða að hann eigi kost á að samþykkja erlenda stóriðju á Íslandi. Þetta er það sem liggur fyrir. Og þeir alþfl.-menn, sem nokkuð sperra sig í sambandi við byggðamál, að þeir vilji sérstaklega aðstoða landsbyggðina í sambandi við atvinnuuppbyggingu þar, hika aldrei við að styðja fremur þátt­töku í erlendri stóriðju heldur en að verja fjár­munum ríkisins til atvinnulegrar uppbyggingar úti á landi. Þá stendur ekki á fulltrúum Alþfl. Þetta verður líka munað, vegna þess að jafnt Alþfl. og aðrir flokkar verða vitanlega dregnir til dóms í sambandi við þetta mál út frá því, hver efnisleg afstaða þeirra er til málsins, en ekki til þess, hvort þeir geti bent á, að á ein­hverjum tíma hafi einhver maður í Alþb. stutt tiltekna samninga í sambandi við verksmiðju af því tagi sem hér er verið að ræða um.

Í fyrri umr. um þetta mál eyddi ég nokkrum tíma í að afhjúpa á þennan hátt einmitt þá ómerkilegu afstöðu sem ég tel að hafi komið fram frá talsmönnum Framsfl., einmitt á þessu sama sviði. Þeir hafa mjög reynt að afsaka af­stöðu sína til þessa máls með því að það megi rekja upphaf málsins til ráðh. Alþb. og jafnvel til þess að tekin var ákvörðun um að ráðast í Sigölduvirkjun. Auðvitað eru afsakanir af þessu tagi frá fulltrúum Framsfl. mjög ómerkilegar afsakanir og skýra ekki á nokkurn hátt þeirra raunverulegu afstöðu til þessa máls. Fyrirslátt­urinn varðandi ákvörðunina um Sigölduvirkjun er rangur, eins og auðvelt er að sanna og er búið að gera í þessum umr., og auðvitað verður afstaða framsóknarmanna til járnblendimálsins nú ekki afsökuð með því, að Magnús Kjartans­son hafi verið yfirmaður þeirrar n. sem stóð í samningsgerð við Union Carbide og hann hafi verið hlynntur því að semja á þeim grundvelli sem þar var rætt um.

Ég verð hins vegar að segja það, að mér finnst miklu heiðarlegri málflutningur sem hér hefur komið fram af hálfu sjálfstæðismanna sem tekið hafa þátt í þessum umr., því að þeir reyna þó flestir, a. m. k. þeir sem eru virkilegir talsmenn járnblendisamningsins, að hleypa rökum undir það vegna hvers þeir séu á þessari skoðun. Þeir reyna t. d. að halda því fram að raforkusamn­ingurinn til verksmiðjunnar sé hagstæður. Þeir trúa á rekstur þessarar verksmiðju í félagsskap við útlendinga, við þetta muni styrkja íslenskt atvinnulíf. Þeir hafa verið að reyna að bisa við að rökstyðja þetta. Auðvitað koma hér upp aðrir þm. úr þeirra eigin hópi sem hafa rifið þetta aftur niður og bent á að raforkusölusamningur­inn væri óhagkvæmur, það væri miklu líklegra að hér yrði um taprekstur að ræða, og hér væri um alveg óeðlileg fríðindi frá hálfu íslenska ríkisins að ræða til þessa fyrirtækis. Mér finnst því að málflutningur þeirra sé ekki traustur. En þeir hafa þó á efnislegan hátt reynt að rök­styðja sitt mál. En afstaða Albfl., þegar hann er að finna til þungans af almenningsálitinu fyrir þjónkun hans í sambandi við erlenda stóriðju, þegar hann reynist mesti undirlægjuflokk­urinn af öllum hér á Alþ. í sambandi við er­lenda stóriðju og virðist vera með hverju sem er og hvenær sem er í þeim efnum, — þegar hann er að finna til þunga almenningsálitsins í sambandi við þessa afstöðu, þá er það eina sem hann hefur að segja: Magnús Kjartansson var fylgjandi þessu á sínum tíma, hann skrifaði bréf, og líklega hefur allt Alþb. þá verið með þessu. Og eflaust trúum við því, að Magnús Kjartans­son hafi rétt fyrir sér í þessu og þessu og þessu. — En eins og ég hef hér sagt, þá liggur hitt fyrir svo óumdeilanlega, að það tekur í raun­inni ekki að standa hér í löngum þrætum við hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason um slíka fjarstæðu, — það liggur óumdeilanlega fyrir hver var af­staða mín til þessa máls allan tímann og er viðurkennt af samstarfsmönnum mínum þá í ríkisstj., og það liggur líka fyrir að minn flokkur, Alþb., hafði aldrei samþykkt að vera með því að þessi verksmiðja yrði byggð. Þetta er það sem er óumdeilanlegt. En auðvitað geta menn, sem stunda hér óheiðarlegan málflutning, sagt, og það getur maður jafnvel heyrt úr munni manns eins og hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, sem hefur ekki verið vandur að orðum sínum um Magnús Kjartansson, eins og auðvelt er að sýna í sambandi við umr. sem hafa farið fram á Alþ. þeirra á milli, þá kemur hann auðvitað upp og segir: Ég trúi því aldrei á Magnús Kjartansson að hann hafi verið að skrifa svona bréf eða hugsa svona nema hann hafi verið búinn að fá samþykki í Alþb., nema öll ríkisstj. hafi staðið að þessu máli, — þó að hv. þm. Gylfi h. Gísla­son viti allt annað. Samt skal hann segja það sem hann veit að er rangt í þessu máli. Og svo treystir þessi hv. þm. sér til þess að segja að málflutningur minn og annarra alþb.-manna hér um þetta mál hafi verð óheiðarlegur og siðlaus. En það er ekki siðlaus málflutningur að segja þetta á þennan hátt sem hann gerir, þó að hann viti um staðreyndir málsins, t. d. varðandi af­stöðu mína!

Ég held að það þurfi ekki mörgum orðum um það að fara, það muni allir alþm. viðurkenna að svona málflutnlngur eins og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason viðhafði í þessu máli er siðlaus og óheiðarlegur. En hitt má hann vita, að það er enginn nýr fróðleikur um þessi bréf og upp­kast að bréfum sem hann las hér upp að Magnús Kjartansson hefði samið á sínum tíma og ekki sent eða samið og sent. Það hefur margsinnis komið fram áður í umr. um þetta mál, hver þáttur hans var í sambandi við störf n. um orkufrekan iðnað og hvert álit hans var á þessum tíma á þessum samningum. En það breytir engu um afstöðu okkar alþb.-manna og engu um þann málflutning sem við höfum haft hér, því að hann hefur fullkomlega verið á málefna­legum grundvelli og um það sem skiptir máli í sambandi við þetta mál.

Það eru hvorki slúðursögur né rangtúlkanir sem hér skipta máli. Það, sem máli skiptir, er hver er afstaðan til þess, hvort við eigum að leggja í þessa framkvæmd eða ekki. Það er það sem skiptir máli. Það er vitanlega ekkert smá­ræði sem um er að ræða þegar er verið að taka ákvörðun um að fara í framkvæmd sem gert er ráð fyrir í byrjun að muni kosta 18.4 millj­arða kr. Þar að auki verður að bæta við þann háa stofnkostnað helmingnum af stofnkostnaði Sigölduvirkjunar, því að það á að ráðstafa um 20 ára tímabil helmingnum af orkunni frá þessu nýja orkuveri. Þar má því bæta við í kringum 9 milljörðum til viðbótar við þessa 18. Hér er því verið raunverulega að taka ákvörðun um fjárfestingu sem nemur í kringum 27 milljörðum kr. Það er því ekki of mikið þó að krafa sé gerð um það, það að þeir sem að slíku standa, reyni að frá einhver rök fram fyrir afstöðu sinni til málsins, önnur en þau að iðka málflutning af því tagi sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason viðhafði hér nú á undan.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni, en vil aðeins endurtaka það, að hvernig svo sem Gylfi Þ. Gíslason eða aðrir reyna að lesa þau bréf, sem hann var að lesa hér upp áðan, og snúa út úr þeim orðum Magnúsar Kjart­anssonar, að ríkisstj. hafi viljað gera þennan samning, þá veit hann mætavel að þar er um meiri hl. ríkisstj. að ræða. Slíkar samþykktir hafa iðulega verð gerðar. Afstaða mín lá þarna ljós fyrir. Það er ekkert um það að villast að meiri hl. ríkisstj. var á því að gera þennan samning. Það er enginn vafi á því. En hitt er ekki rétt, að halda því fram að það hafi verið allir í ríkisstj. Það er óheiðarlegt að segja það þegar menn vita um þær staðreyndir í málinu sem ég hef hér greint frá. Og sem sagt, allar getgátur um að Alþb. sem stjórnmálaflokkur eða þingflokkur hafi léð á nokkurn hátt samþykki sitt fyrir þessum samningsdrögum, allt slíkt er út í bláinn og sagt í rauninni gegn betri vitund.