20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3424 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. 2. minni hl. (Sigurður Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég hafði ákveðið að taka ekki þátt í þessari 3. umr. málsins nema sérstakt til­efni gæfist til, og þá sérstaklega ef þeir, sem eru stuðningsmenn þessa frv., sæju ástæðu til þess við 3. umr. málsins að svara eitthvað þeirri gagnrýni sem ég hef fram sett á þann málatil­búnað sem hér er á ferðinni, en svo var ekki við 2. umr. málsins. Ég átti því von á því, þegar for­maður þingflokks Alþfl. kom hér í stólinn og kvaddi sér hljóðs, að hann væri kominn til að reyna að bæta fyrir það sem talsmaður hans og formaður flokksins hafði gert í umr. áður um málið, en það er á allra vitorði, jafnt þm. sem alþjóðar, að þátttaka Alþfl. og fulltrúa hans í umr. um þetta mál hér á Alþ. hefur verið með endemum. Sú von brast nú að formaður þing­flokksins færi hér í efnislegar umr. um málið, sem hefði getað orðið gagnlegt. En ástæða hans var eigi að síður vitaskuld til þess að reyna að bæta fyrir það sem áður var gert og reyna að draga almenningsálitið frá því sem máli skiptir í þessu sambandi. Og hann fór vitaskuld ekki út í efnislegar umr. vegna þess að aðrir talsmenn Alþfl. hefðu verið búnir að gera þá skyldu sína hér í þingsalnum, eins og hann vildi nú meina. Hann hafði ekkert frekar en þeir til málanna að leggja, annað en að reyna að koma hér á deilum um liðna tíð og reyna að koma hér að rangtúlkunum sem hafa komið fram hér áður. Þau bréf og uppköst að bréfum, sem hann dró upp úr pússi sínu og las fyrir hv. þm., hafa áður verið gerð okkur þm. kunnug. M. a. vitnaði hæstv. iðnrh. til þessara bréfa við 1. umr. málsins á kvöldfundi á Alþ. og ég svaraði þá efni þeirra. En eins og fram kom áðan, þá er undir­strikað í þessum bréfum í fyrsta lagi, að Alþb. hafði aldrei tekið afstöðu til málsins og hafði aldrei samþykkt málið. Það kemur fram í öllum þessum bréfum. Og í öðru lagi kemur það fram í þessum bréfum, að að áliti þess, sem þau skrif­ar, er málið ekki fullkannað þó að það sé kann­að í mörgum aðalatriðum.

En ég held að það sé nauðsynlegt, úr því að þessar umr. eru hafnar hér um þennan þátt þessa máls, að ræða málið svolítið í víðu sam­hengi.

Erlend stóriðja og fjárfesting erlendra aðila í íslenskum atvinnuvegum er margslungið mál, hefur margar hliðar. Stærst hefur verið í hug­um okkar íslenskra sósíalista, okkar alþb. manna, sú hætta sem af slíku stafar fyrir sjálfstæði þessarar þjóðar. Við höfum litið svo á að bar­áttan gegn erlendri fjárfestingu og erlendum fyrirtækjum á Íslandi væri liður í þeirri sjálf­stæðisbaráttu sem þessi þjóð hlýtur að heyja. En eins og alþm. og alþjóð er kunnugt hefur Albb. — eða forverar þess — verið eini flokkurinn á Íslandi eftir lýðveldisstofnun sem hefur bar­ist gegn erlendri ásælni, — eini flokkurinn á Íslandi sem hart og ótvírætt hefur barist gegn erlendri ásælni og staðið í fararbroddi okkar sjálfstæðisbaráttu. Og okkur hefur orðið það ljóst og var það ekki síst ljóst á viðreisnarárunum ­á þeim hörmulegu árum, hversu stór þáttur hin erlenda fjárfesting og hin erlenda stóriðja er í sambandi við okkar sjálfstæðismál. Við gerðum okkur kannske betur grein fyrir því þeim árum heldur en oft áður, að sá þáttur var ekki veigaminni en sú herseta sem við höfum orðið að búa við um margra margra ára skeið. Og þjóðin, ef hún ætlaði að halda frelsi sínu til fram­tíðar, varð að spyrna við fótum, það var þess vegna hlutverk Alþb. öll þessi ár að veita barátt­unni gegn erlendri fjárfestingu og erlendum stóriðnaði, erlendum álverum forustu á Íslandi, gegn eindreginni andstöðu Alþfl. og Sjálfstfl., en þeir hafa verið eins og síamstvíburar í þessum máli alla tíð og okkar utanríkismálum. Eini flokkurinn, sem e. t. v. hefur léð okkur lið öðru hvoru, er Framsfl., sem stundum hefur verið tilbúinn til viðræðna um að losa Ísland við þá smán sem hersetan er og barðist við hlið okkar á viðreisnarárunum gegn áliðjuverinu í Straums­vík.

Það voru engir smáskammtar, sem þá stóðu til, og engin smáskref, sem ráðamenn viðreisnarstjórnarinnar höfðu í hyggju að stíga í sam­bandi við erlenda fjárfestingu á þessum árum. Einn hv. þm., sem er hér í salnum, hafði á orði að hann vildi koma á 20 álbræðslum á Íslandi. Já, ég heyri að menn hlæja að þessu. Það er hlegið að þessu í dag, en þetta var stefnumál á sínum tíma hjá forustumönnum Sjálfstfl. sem höfðu enga trú á íslenskri atvinnuþróun. En fyrir harða baráttu tókst að hrinda þessari stefnu Alþfl. og Sjálfstfl., og það var mynduð ný ríkisstjórn sem við höfum oft kallað vinstri stjórn, og í tíð hennar voru stóriðjumálin vissulega rædd. Og ég hef aldrei farið dult með það og aldrei reynt að fara dult með það, að í tíð þeirrar ríkisstj. voru kannaðir þeir möguleikar að koma hér upp stóriðju og stórum orkukaupanda á Íslandi. Til þess var skipuð ákveðin n., viðræðunefnd um orkufrekan iðnað. En sú meginbreyting varð á í sambandi við þetta mál eftir stjórnaskiptin, að nú voru þessari viðræðunefnd og þeim aðil­um, sem áttu að kanna þessa möguleika, sett mjög ströng skilyrði um það, hvernig þeim bæri að ræða við hina erlendu menn, — skilyrði sem áður hafa ekki verið talað um á Íslandi þegar menn töluðu um erlenda fjárfestingu, — skil­yrði sem mönnum þóttu fjarstæða á sinni tíð. Og ég vil af þessu tilefni lesa upp lítinn kafla úr ræðu minni við 1. umr. þessa máls, svo að það komi fram að ég hef aldrei farið dult með þetta. Þar sagði ég og ég segi það enn:

„Það markaði því tímamót í allri umr. um samstarf við erlenda aðila í fjárfestingarmálum þegar fyrir forgöngu fyrrv. iðnrh. voru settar fram ákveðnar lágmarksreglur sem fylgja skyldi í slíkum viðræðum. Að þessum lágmarksskilyrð­um stóð öll vinstri stjórnin á sínum tíma og þá um leið annar stærsti stjórnmálaflokkur þjóðar­innar, Framsfl. Þessi lágmarksskilyrði voru efnis­lega þessi:

1) Að hlutafjármeirihluti væri alltaf í eigu íslenska ríkisins og fyrirtækið væri skrásett sem íslenskt fyrirtæki.

2) Að fyrirtækið þyrfti að lúta íslenskum lögum og lögsögu í einu og öllu.

3) Að raforkuverð yrði að vera þannig að viðunandi væri fyrir rekstur raforkuveranna í landinu.“

Síðar í þessari sömu ræðu segi ég um þetta:

„Með þeirri forskrift, sem hér var ákveðin, var hafnað í raun þeirri stefnu, sem áður hafði verið fylgt undir sömu kringumstæðum, og lagt fram verðugt innlegg í framtíðarstefnumörkun þjóðarinnar í þessum efnum, á grundvelli þess­ara skilyrða heimilaði fyrrv. ríkisstj. viðræðu­nefnd um orkufrekan iðnað að undirbúa drög að samningi um kísiljárnsverksmiðju.“

Þessi lágmarksskilyrði ættu að vera öllum kunn.

Það er svo ekkert launungarmál, að innan ríkisstj. varð mönnum ljóst, sérstaklega eftir að olíuverð hækkaði mjög haustið 1973, að íslendingum bæri fyrst og fremst að snúa sér að annarri nýtingu raforkunnar, að þar var sá stóri orkukaupandi sem menn voru að leita að hann værri í landinu sjálfu ef hafist yrði handa um þær framkvæmdir sem eru forsenda slíkrar innlendrar orkunýtingar. Því var það að ríkisstj. lagði fram þáltill., að ég held í apríl á þinginu 1974, þar sem stefnan er mörkuð mjög skýrt í þessum efnum. Þar er lögð áhersla á innlenda orkunýtingu og það sem meira er: í þeirri stefnumörkun kemur fram, að ríkisstj. hafi í hyggju á næsta hausti að leggja fram fjármögnunar­áætlun til þeirra framkvæmda.

Afdrif járnblendimálsins voru því augljós. Ríkisstj. hafði ákveðið að setja þennan möguleika til hliðar og snúa sér af oddi og egg að innlendri orkunýtingu. Hins vegar gerði Magnús Kjartansson nokkuð með þeim bréfaskiptum sem hér hefur verið vitnað til. Á vissan hátt tókst honum — og ég hugsa að það verði lengi í minn­um haft á Íslandi — honum tókst í raun og veru að binda hendur ýmissa stjórnmálaflokka í afstöðunni til erlendra stóriðju. Hann fékk m. a. Alþfl., sem alltaf hafði verið ræfill í þessum efnum og fylgt þeirri íhaldsstefnu sem ég gat um áðan, — hann fékk hann til að fallast á þá stefnu sem viðræðunefnd um orkufrekan iðn­að hafði mótað, sem var m. a. sú, að meirihluta­eign skyldi ætíð vera í höndum íslendinga. Þess vegna hygg ég, að þegar þetta mál verður rifjað upp í framtíðinni, ekki síst af okkur íslenskum sósíalistum, þá teljum við að sá árangur, sem þarna náðist, hafi á vissan hátt verið mjög stórt skref í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Og mér er engin launung að segja það hér í þingsalnum, að frv. um járnblendiverksmiðju á Grundartanga er vitaskuld allt annað, vegna þess að fyrr­nefndum skilyrðum er fylgt að nokkru leyti, m. a. skilyrðinu um meirihlutaeign íslendinga, þó að reyndar hafi verið dregið úr þeirri meirihluta­eign frá því sem ráðgert var, úr 35% í 45% sem hinn erlendi aðili á að eiga.

Nei, stjórnmálaástandið þennan vetur var þannig, að það var fullkomlega ástæða til þess og það var kænlega gert af þeim, sem stóðu að vinstri stjórninni og sáu fyrir hvað verða vildi, að binda ýmsa stjórnmálamenn og ýmis stjórnmálaöfl í landinu við ákveðin meginatriði í stór­iðjumálum. Það var vitað í þeim könnunarvið­ræðum, sem fram fóru um veturinn um þetta mál, að innan Sjálfstfl. voru miklar deilur um þetta atriði. Það kom hér fram í máli hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar áðan, að Sjálfstfl. hefði verið með fyrirvara. Ég þóttist reyndar vita um hvað þessir fyrirvarar hefðu verið, en til þess að fá úr því skorið og til þess að geta farið örugglega með rétt mál hér á hv. Alþ., þá spurði ég hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson að því fyrir nokkrum mínútum hverjir þessir fyrirvarar hefðu verið. Og hann sagði mér það, staðfesti það sem ég reyndar vissi. Fyrirvarar Sjálfstfl. í tíð vinstri stjórnarinnar í sambandi við verksmiðjuna á Grundartanga voru um eignaraðild íslendinga að verksmiðjunni. Þeir voru við það gamla heygarðshorn að halda áfram stefnunni sem mótaði löggjöfina um álverið í Straumsvík. En þeir — jafnvel þeir hafa orðið að beygja sig í þessum efnum, þrátt fyrir það að nokkrir þeirra hafi slitið af sér böndin hér í atkvgr. í þingsalnum í gær. Jafnvel þeir hafa orðið að beygja sig, og það er ekki víst að þeim reynist unnt síðar, þó þeir vilji, að rétta sig til hins fyrra horfs í þessu máli. Þetta skiptir vitaskuld sköpum í sambandi við stóriðjumál á Íslandi.

Það er út af fyrir sig lítið innlegg í þetta, en ég vil gjarnan að það komi hér fram, að sá hv. þm., sem vitnað var til áðan að hafi skrifað þessi bréf, Magnús Kjartansson, hann flutti ýms­ar brtt. við frv. þegar það var hér á ferðinni 1975. Ég sagði áðan að hann hefði alls ekki talið málið fullkannað á sínum tíma, eins og reyndar kemur fram í bréfunum og eins og kemur fram í þeirri afstöðu sem hann hafði hér 1975 þegar málið var til umr. Í fyrsta lagi flutti hann brtt. við málið og í öðru lagi gerði hann grein fyrir þeirri breyttu afstöðu sem málið allt hefði tekið vegna þeirra aðstæðna sem við stæðum frammi fyrir í sambandi við raforkunýtingu.

Ég gæti haft þessa umr. miklu lengri um þennan þátt málsins, en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Ég vil segja það sem ég sagði við 1. umr. þessa máls, þegar þetta sama bréf var notað hér af hæstv. iðnrh. til þess að forðast að ræða aðalatriði málsins, þá sagði ég við þenn­an hv. þm. og ráðh. að hann vissi það eins vel og ég, að Magnús Kjartansson hefði alla tíð, alla sína stjórnmálatíð verið í forustu þess hóps sem hefði barist gegn erlendri ásælni og m. a. er­lendri stóriðju. Hann var í forustu hér í þing­sölum um árabil í þeim efnum og sem ritstjóri Þóðviljans, og þetta veit íslenska þjóðin. Þó að Gylfi Þ. Gíslason reyni að fá hana til að trúa öðru, veit ég að hún trúir ekki slíkri vitleysu. Hún þekkir sitt fólk og hún þekkir þess mál­flutning. Ég sagði þá og ég segi það enn: Þetta minnir mig svolítið á þegar vissir stjórnmála­menn hafa verið að reyna að rugla fólk í þeirri afstöðu, sem Alþb. hafði á sínum tíma til landhelgismálsins, og reyna að fá fólk til að trúa því, að Alþb. og okkar forustumaður í sjávarútvegsmálum, hv. þm. Lúðvík Jósepsson, hefði verið á móti útfærslu hennar í 200 mílur. Þetta er álíka saga og henni verður ekki trúað af fólkinu í landinu.

En umr. eru hér hafnar aftur, Alþfl. bryddaði upp á þeim umr. án þess að fara út í málefna­lega umr. um þessa verksmiðju. Gylfi Þ. Gíslason, hv. þm., hefur ekki tjáð sig neitt um þær arðsemisáætlanir, sem gerðar hafa verið, og rekstraráætlanir, sem sýna stórfellt tap á þessum rekstri, en þær spár margar eru mjög svartsýnar. Sama gildir um ýmsa aðra þætti þessa máls, svo sem um þær breyt. sem heilbrrn. gerði á till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins og Benedikt Gröndal, hv. þm., kallaði hér við 2. umr. málsins sparðatíning. Ég er viss um að það verður lengi í minnum haft á Íslandi, að sá sami maður og hér hefur verið margsinnis í vetur í ræðustól að prédika að hann vilji bættan aðbúnað fólksins á vinnustöðunum, tryggja réttindi þess, sá hinn sami maður segir að þær breyt., sem heilbrrn. gerir á till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins, séu sparðatíningur, þrátt fyrir það að ég sýndi fram á það hér og hann mótmælti því ekki með nein­um rökum, að í mörgum efnum eru gerðar mjög veigamiklar breytingar á þessum till. sem eru sniðnar eftir reglum í nágrannalöndum okkar.

Tillögum um mengunarmörk er breytt, jafnvel þannig að þær eru helmingi rýmri en þær voru í till. Ýmsum atriðum varðandi hönnun hússins, sem eru grundvallaratriði til þess að hægt sé að halda uppi ryklausum vinnustöðum, er breytt. Þannig gæti ég haldið áfram að tína fram þessi atriði. Engu af þessu var reynt að færa neina málsbót fyrir af hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, og því tel ég ekki ástæðu til að rökræða frekar við hann við þessa umr.