20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3429 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

159. mál, siglingalög

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Það mál, sem hér er til umr., er frv. til laga um breyt. á siglingalögunum. Ég skal ekki níðast á vinsemd forseta í því að taka þetta mál fyrir núna síðla kvölds, þegar okkur skilst að flestir þm. þurfi að gegna embættisskyldum í veislum og öðru slíku. En mál þurfa að ná fram og þetta er eitt þeirra að ósk fjölmargra.

Þetta frv. er um breyt. á bráðabirgðaákvæðum siglingalaganna, nr. 66 frá 1963, sbr. breyt. á þeim lögum, nr. 108 frá 1972. Í fáum orðum má segja að þessi breyt. sé fólgin í því, að lögboðnar líf- og örorkutryggingar sjómanna samkv. þessum lögum hækki að sama skapi og samið var um í samningum á milli útgerðarmanna og sjómanna á s. l. ári, þótt þeir samningar næðu ekki fram. En samningarnir ásamt þessum ákvæðum tveim voru hins vegar fest í lög og eru enn í lögum, brbl. þeim sem hafa verið til afgreiðslu í Ed. undanfarna daga. Þó er gengið nokkru lengra í þessu frv. heldur en þar var gert, en það er í þá átt að í þessu frv. eru ákvæði um að ráðh. hafi heimild til þess að breyta upphæðum bóta, ef breyting á vikukaupi verður í almennri verkamannavinnu, og fari þar að þeim lögum sem gilda um almannatryggingar.

Ég skal nú ekki tefja tímann á því að rekja tilorðningu þessara laga, en minni þó á það, að á sínum tíma, þegar till. um þetta efni voru hér til umr., voru þær vegna frv. sem þm. Alþb. höfðu í fyrstu flutt, en síðan hætt við, en við tókum upp með nokkrum breyt., ég og hv. þm. Friðjón Þórðarson, og fluttum, og þar kom að þetta frv. okkar varð að lögum. Með þau lög um þetta, sem samþ. voru vorið 1972, varð mikil ánægja á meðal útgerðarmanna, og svo kom síðla sumars að þeir töldu sig ekki geta hafið róðra um haust­ið a. m. k. eða þá á vetrarvertíð — ég man nú ekki glöggt hvort var — öðruvísi en að tveim skilyrðum yrði fullnægt og það yrði ríkisvaldið sem gerði það: annars vegar að breyta þessum tryggingarákvæðum og hins vegar að tryggja rekstrargrundvöll útgerðarinnar. Það varð úr, að þáv. tryggingaráðh. beitti sér fyrir því að þessi trygging komst á, og var það gert í gegnum Brunabótafélag Íslands, og hét hann útgerðarmönnum að þetta mál yrði tekið til endurskoð­unar á næsta þingi, hvað og var gert. Með þetta mál stóð lengi í stappi og hann dró till. sína til baka, en á síðustu stundu tókst fyrir hjálp góðra manna og skynsamra, bæði úr röðum útgerðarmanna og fulltrúa sjómanna og verkalýðs, að ná samkomulagi sem varð til þess, að inn í siglingalögin komust ákvæði um líf- og örorku­tryggingar sjómanna. Samtök sjómanna undu vel við þessi ákvæði laganna, þar til þau urðu þess vör, eins og allur almenningur í þessu landi, að óðaverðbólgan hafði áhrif á þær upphæðir sem þarna voru bundnar í lögunum, og gerðu ítrekaðar tilraunir til að fá þessar upphæðir leið­réttar í samræmi við verðbólguna. En það tókst ekki fyrr en í þeim samningum sem tókust á milli útgerðarmanna og fulltrúa sjómanna þegar unnið var að því að breyta sjóðakerfinu.

Ég hef nokkuð rakið hvað út úr því kom. Hins vegar hafa allan þennan tíma, allt frá 1972­–1973, verið uppi óskir úr þeirra röðum um að nokkur verðtrygging yrði sett á þessar upphæð­ir, þannig að ekki þyrfti að leita til löggjafans eða fara inn í erfiða samninga út af þessum atrið­um, heldur tækju þessar upphæðir breytingum í samræmi við þá verðbólgu sem væri á hverjum tíma. Það má segja að með þeim samningum, sem tókust á milli fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna á s. l. ári, hafi útgerðarmenn vissulega komið á móti þessum skoðunum sjómanna með því að fallast á að þessar upphæðir yrðu hækkaðar. Ég bið þó þm. að hafa í huga að þetta var aðeins hluti úr heildarsamkomulagi sem þessir aðilar gerðu, og þótt ég teljist einn af þeim sem hafa verið valdir til þess að fara með mál sjómanna oft og tíðum og hafi einmitt átt þátt í því að samkomulag náðist um þetta atriði á sínum tíma í framhaldi af þeirri till., sem ég þá flutti hér á hv. Alþ., þá sé ég ekki ástæðu til annars en þetta sé skýrt dregið fram.

Hins vegar er svo komið, að við í sjútvn. Nd. erum sammála um að mæla með þessu frv. Við töldum, þegar við ákváðum þetta, að ekki mætti við svo búið standa, vegna þess að þá voru engin líkindi til þess að brbl., þar sem voru ákvæði um þessar tryggingar, mundu verða staðfest með löggjöf og þannig gilda áfram, enda eru samn­ingar lausir nú á næstunni. Og ef brbl. verða ekki lögbundin, þá falla þessi ákvæði eins og önn­ur ákvæði þeirra að sjálfsögðu burt og þá hefðu sjómenn staðið frammi fyrir því og fulltrúar þeirra og aðrir aðstandendur, að horfið hefði ver­ið í þessum tryggingaupphæðum til þess sem lög­fest var fyrir allmörgum árum eða haustið 1972. Ég var einn þeirra — og undir það var tekið í sjútvn. — sem töldu að við svo búið mætti ekki standa og þá kannske ekki síst vegna þess, að þegar þetta frv. var hér í bígerð hjá flm., þá var bæði mér og öðrum boðin aðild að flutningi þess, en ég hafnaði því, m. a. á grundvelli þess að þetta væri þegar í lögum og að það, sem á vantaði, ætti vissulega að vera samningsatriði útgerðar­manna og sjómanna. Þar á ég við ákvæðin um, að við hækkun á almenna verkamannakaupinu hafi ráðh. heimild til hækkunar, eins og er um aðrar bætur almannatrygginga, og það ætti að vera samningsatriði, auk þess væri stór hópur sjómanna, sem hefði ekki enn samið um þetta, en mundi sjálfsagt verða tekið upp í væntanlega samninga þeirra. Ég á þar við farmennina og út­gerðir verslunarskipanna sem eru að ganga til samninga nú á næstunni.

Það hefur hins vegar komið umsögn frá við­semjendum farmannanna, frá vinnuveitendasambandi Íslands, í bréfi frá 16. mars nú í ár, þar sem þeir benda á nokkrar minni háttar breyt­ingar, sem efnislega hafa enga þýðingu, en segja samt sem áður að þeir telji breytingar þær, sem lagt er til að gerðar verði á lögunum, eðlilegar og sanngjarnar, en vilja þó benda á minni háttar breytingar. Þótt ég sé mikið fylgjandi því að það sé ekki fyrr en í síðustu lög, sem löggjafinn hafi áhrif á kaup og kjarasamninga, og vissu­lega hafi þetta verið beinn þáttur þeirra um langt árabil, þótt ég hafi hins vegar persónulega haft aðra skoðun þar á í sambandi við líf- og örorkutryggingar þessara manna, sem búa sannarlega við margfalt meiri hættu í starfi heldur en allir aðrir landsmenn, þá tel ég það vel afsakan­legt fyrir Alþ. að breyta þessum upphæðum í það horf, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og bæta við þessu ákvæði, sem ég tel bæði rétt og skylt að komi inn í þessi lög.

Landssamband ísl. útvegsmanna segir í sinni umsögn, að það geti ekki fallist á að þetta verði verðtryggt, en tekur ekki afstöðu til þess eins og er, en leiðréttir síðan misskilning nokkurn sem kemur fram í grg. frv. um aðstöðumun loðnu­veiðisjómanna annars vegar og togarasjómanna hins vegar. Þetta er, eins og þeir benda réttilega á, úr sögunni og búa allir þar við sama borð eftir samninga sem gerðir hafa verið nema, eins og ég gat um, farmennirnir.

Ég sé nú ekki ástæðu til að teygja lopann um þetta lengur. Öllum hv. þm. er kunnugt um efni þessa frv. og hvað í því felst. ég vil aðeins geta þess, að auk þeirra aðila, sem ég hef hér vitnað í, mælir Farmanna- og fiskimannasamband Ís­lands eindregið með að frv. verði samþ., og legg­ur áherslu á að bótafjárhæðirnar hækki í sama hlutfalli og bótagreiðslur úr Tryggingastofnun ríkisins. Sjómannasamband Íslands eða sam­bandsstjórn þess mælir einnig með samþykkt þess. Og þá segir Tryggingastofnun ríkisins, að hún hafi engar athugasemdir að gera við frv. Öðrum aðilum var ekki sent rétta frv. til um­sagnar og hafa allir skilað sinni umsögn.

Niðurstaða okkar í sjútvn. hv. d. er að mæla með samþykkt frv. óbreytts, og undir það álit hafa allir nm. skrifað.