20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3434 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Við 2. umr. málsins varð það að ráði að n. dró brtt. sínar til baka til 3. umr. Ég vil áður en lengra er haldið leiðrétta eigin orð við 2. umr. um að breytinga væri þörf á þeim brtt., sem koma fram frá sjútvn á þskj. 392. Svo er ekki, þær eru í einu og öllu réttar eins og þeirra, sem um þær fjalla, var von og vísa að skila þeim. En það kom líka fram ósk um það frá einstök­um þm. að sjútvn. tæki málið til athugunar að nýju.

Ég get aðeins farið örfáum orðum um hvað á undan var gengið. Frv., 15. mál þingsins, var þess efnis, að verið var að leiðrétta villur sem orðið höfðu á síðasta þingi í sambandi við sam­þykkt laganna frá 31. maí 1976 um veiðar í fisk­veiðilandhelgi Íslands. Um þær breyt. var enginn ágreiningur í sjútvn. og mæltu allir nm. með því að þær breyt. yrðu samþ.

Áður en kom að þessari afgreiðslu hafiði bor­ist erindi til n. frá Landssambandi ísl. útvegs­manna um að tilteknar breyt. yrðu gerðar á lög­unum. N. sendi þær till. Landssambands ísl. út­vegsmanna til umsagnar, m. a. til Hafrannsóknastofnunarinnar, sem mælti gegn einni þeirra, lét afskiptalausar tvær, en mælti með öðrum.

Það næsta, sem gerðist í málinu, var að sjútv­rn. sneri sér til n. með beiðni um að n. flytti tilteknar brtt. sem að mestu voru byggðar á áðurnefndum óskum Landssambands ísl. útgerðarmanna, en þó með þeirri breytingu, að ekki var í bréfi rn. farið fram á að brtt. yrðu fluttar við gildandi lagaákvæði um veiðisvæði við Norðurland. Þá komu líka frá rn. till. um breytingar við 8. gr. l., um að lengja þann tíma sem heimilt væri að stöðva veiðar ef sá ótti yrði að veruleika að verulegt magn af smá fiski eða smáhumri yrði í afla eða þá friðaðar fisk­tegundir, eins og segir reyndar í 6. brtt. á þskj. 392. Enn fremur eru þarna ákvæði um að Land­helgisgæslunni skuli tilkynnt um þessar skyndi­lokanir þegar í stað, þegar þær hafa verið ákveðinar, og það er gert að gefnu tilefni. En sem sagt, vald þessarar stöðvunar er flutt í land til Hafrannsóknastofnunarinnar, sem getur, ef þessar till. verða samþykktar, stöðvað veiðar á ákveðn­um svæðum í allt að sjö sólarhringa í stað þriggja eins og er í gildandi lögum.

Í n. sýndist nm. sitt hverjum um hvernig staðið yrði að þessum brtt., en þegar kæmi til atkvgr. væru þó allir sammála um að verða við ósk sjútvrn. og flytja þessar brtt., en eins og segir í nál. sjútvn. á þskj. 387, með leyfi forseta, þá lýkur á þessum orðum:

„Eru nm. sammála um að mæla með þessari breytingu“ — þar er átt við 8. gr. — „svo og frv. sjálfu. Um aðra liði í brtt. þessum hafa nm. óbundnar hendur og áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.“

Þetta endurtók ég við 2. umr. málsins, en þrátt fyrir það kom fram ósk um það frá ein­stökum hv. þm.n. tæki málið aftur til at­hugunar, án þess þó að nokkrar till. væru þá fram komnar hér á þinginu sem gæfu ástæðu til þess að svo væri gert. Þetta var samt sem áður gert, og þótt erfiðlega gengi að ná n. saman vegna fjarveru einstakra hv. þm., þá var haldinn fundur í n. og nm., sem viðstaddir voru, sem voru allir utan einn sem var erlendis í opin­berum erindagerðum, voru sammála um að af­staða þeirra væri óbreytt til málsins í heild og reyndar til annarra brtt. sem fram kynnu að koma.

Það hefur síðan komið fram ein brtt. frá hv. þm. Garðari Sigurðssyni, en hann hreyfði þess­ari brtt. og skýrði frá henni á síðasta fundi sjútvn., hvar nokkrir þm. tjáðu sig. Aðrir vildu það ekki og vísuðu til fyrri afstöðu til annarra brtt., þannig að um hana er að segja það sama og aðrar, að þm. gera grein fyrir afstöðu sinni til hennar eins og annarra brtt. ef þeim þykir svo viðþurfa, en annars kemur að sjálfsögðu afstaða þeirra fram í atkvgr.

Við vorum, að ég tel, þrír eða fjórir sem lýst­um afstöðu okkar til fyrri brtt. við 2. umr. máls­ins. Ég tjáði, sagði þá að ég mundi fylgja þeim brtt., sem við hefðum flutt í n. Og um leið og ég lýk máli mínu nú sem formaður sjútvn. þá get ég sagt fyrir mig persónulega, að ég mun greiða atkv. gegn þessari brtt. hv. þm. Garðars Sigurðssonar, þótt ég skilji mætavel þann ótta hans sem fram kom í hans máli þegar hann reif­aði málið. En þegar við höfum þá staðreynd fyrir framan okkur, að vísindamenn okkar, þ. á m. þeir frá Hafrannsóknastofnuninni, telja flotvörpuna ekki hættulegri en botnvörpuna sjálfa, þá sýnist manni ástæðulaust fyrir okkur leikmenn, sem við hv. þm. erum flestir, að taka afstöðu til þessa, ekki síst þegar þess er gætt, að frá Hafrannsóknastofnuninni hafa komið ítrekaðar till. til hæstv. sjútvrh. og rn. um frek­ari friðanir á hrygningarsvæðum fyrir öðrum veiðarfærum. En hvort tveggja þetta er að sjálf­sögðu í valdi hæstv. ráðh., í samráði þá við Hafrannsóknastofnunina, að gera bæði, eins og þegar hefur verið gert, að banna flotvörpuveiðar á ákveðnum svæðum eða á öllu veiðisvæðinu umhverfis Ísland um tiltekið tímabil, svo og, eins og líka hefur verið gert, að friða hrygningarsvæði okkar og mið, þar sem sem fiskur elst upp eða gengur um, fyrir öðrum veiðarfær­um. Ég tel að það sé ekki rétt á þessu stigi að taka út eitt slíkt veiðarfæri. Persónulega hef ég alltaf verið á móti því að taka út stórvirkustu veiðarfærin, ef þau skila góðum afla, það sé þá betra að stöðva flotann sjálfan um tíma þegar við erum búnir að taka úr sjó þann afla sem stofn okkar þolir.

Sem sagt, afstaða mín gagnvart þessari brtt. er á þessa leið að ég mun greiða atkv. gegn henni, m. a. á þeim röksemdum sem ég hef nú flutt. En afstaða okkar í sjútvn. gagnvart mál­inu í heild er óbreytt frá því sem var.