20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3465 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Guðlaugur Gíslason:

Virðulegi forseti. Þó að síðasta ræðumanni hafi tekist að tala út veturinn, þá held ég að ég geti lofað því að ég mun ekki tala út sumarið, ég mun aðeins segja hér örfá orð.

Það, sem gaf mér tilefni til þess að fara upp í ræðustól aftur, var ein setning sem hv. 5. þm. Vestf. sagði og vil ekki láta fara óleiðrétta inn í þingtíðindin. Hann sagði berum orðum að ástæðan fyrir því, að ég og hv. 5. þm. Suðurl. styddum þessa till. um bann við flotvörpu, væri öfund í garð sjómanna og þeirra aðila sem með flotvörpu veiða.

Þegar við erum að tala um eitt alvarlegasta málið sem fyrir liggur núna þessa dagana hér hjá okkur, bæði á Alþ. og allri íslensku þjóð­inni, þá finnst mér vera mjög strákslegt og lítið þinglegt að einn hv. þm. skuli leyfa sér að halda fram svona staðhæfingum, að þó að við viljum gera einhverjar friðunarráðstafanir og takmarka veiðina, þá sé það öfund í annarra manna garð. Ég mótmæli þessu alveg og tel þetta mjög stráksleg og óþingleg ummæli.

Ég þarf litlu við það að bæta sem hv. síðasti ræðumaður sagði í sambandi við netaveiðarnar. Ég er því alveg sammála, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði í sambandi við netin og hér hefur komið fram hjá hv. 5. þm. Sunnl. Það þarf að gera ráð­stafanir til að takmarka netaveiðar. Ég hélt því fram þegar þessi lög voru sett á sínum tíma, að þau væru alveg sjálfsögð, en ég sagðist sjá fram á að það væri ákaflega erfitt að framkvæma þau, og það hefur komið í ljós. En ég hygg þó að það sé hægt að koma þeim höftum við sem þarf, og ég vil taka undir það, sem hv. 5. þm. Suðurl. sagði áðan: ég vil skora á hæstv. sjútvrh. að gera ráðstafanir til þess á næstu vertíð að þetta verði framkvæmt. Þetta er engum til góðs, og ég fullyrði að þetta er ekki í þágu sjómanna og þetta er ekki í þágu útgerðarmanna heldur. Það tapa allir á þessu. Það er meiri eyðsla við útgerðina og það er verra hráefni sem kemur og þetta þjónar engum tilgangi, þetta er að­eins orðið kapphlaup á milli skipstjórnarmanna að koma með sem mesta tonnatölu að landi, jafn­vel þó að það sé miklu verra og verðminna hrá­efni heldur en þó að þeir kæmu með færri tonn og þá betri fisk, þannig að það þarf svo sannar­lega að mínum dómi að taka þarna eins föstum tökum og hægt er að koma við til þess að koma í veg fyrir þetta.

Samanburður á togarafiski og netafiski er svo sannarlega fyrir hendi. Ég er alveg sannfærður um að togfiskur á Vestfjörðum er sennilega mun betri en víða annarsstaðar á landinu af þeirri einföldu ástæðu, að þeir eru mjög nálægt fiski­miðum, kalla sín skip inn þegar þeir þurfa á afl­anum að halda og eru þá búnir að vera aðeins stuttan tíma á veiðum. Það hefur verið landað bæði í vetur og áður togfiski í Vestmannaeyjum af Vestfjarðamiðunum, og ég fullyrði að síðasti farmur, sem kom þar í land, var lélegur. Það var það mikill smáfiskur og hann var orðinn 10 daga gamall, þetta var svo lélegt hráefni að fólkið, sem var að vinna fiskinn, hefði neitað hreinlega að vinna hann, hefði verið um nokkurn annan fisk að ræða. Þetta er sú staðreynd sem ég þekki. Og því miður er það svo, að þetta getur komið fyrir bæði með togfisk og netafisk, það getur verið mjög góður fiskur og getur líka verið mjög slæmur fiskur.

Ég skal nú ekki tefja umr. lengur, þó að sannarlega væri hægt að segja ýmislegt um það sem hér hefur verið haldið fram. Ég vil bara benda á það að lokum, að ég held að það verði a. m. k. ekki borið á mig, að ég hafi viljað standa gegn friðunarráðstofunum fyrir Suðurlandi. Ég held að ég sé eini þm., a. m. k. síðan ég kom á Alþ., sem hefur flutt beina till. um að það yrðu frið­uð þar tiltekin netasvæði sem bannaðar yrðu allar netaveiðar á tiltekinn tíma. Þetta svæði er það stórt, að ef slíkt friðunarsvæði væri sett á Vestfjarðamiðum hygg ég að vestfirðingar teldu að það væri nokkuð mikið á þeirra aðstöðu geng­ið og þeirra aðstaða til aflabragða væri mjög skert ef slíkt væri gert, því að eins og ég hef sagt áður, svæðið fyrir Suðausturlandi er 2500 ferkm. að stærð. Þetta er mjög stórt og viða­mikið svæði og það er sett beint á aðalhrygn­ingarsvæðið og þar sem best er að vænta af fiski á netavertíð og hrygningartímanum.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð.