01.11.1976
Efri deild: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

49. mál, opinberar fjársafnanir

Flm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég hef á þskj. 50 leyft mér að endurflytja enn einu sinni frv. um opinberar fjársafnanir. Það mun nú vera í fjórða skiptið og það þarf vissulega töluverða þrjósku til þess að gera það einu sinni enn. Hefði frv. nú dagað algjörlega uppi í fyrra í þessari d., þá hefði ég talið að það væri borin von að flytja það enn á ný. En svo var ágætri afgreiðslu hv. allshn. þessarar d. að þakka að frv. var samþ. hér úr Ed. í fyrra með þeim breyt. sem n. lagði til og nú eru felldar inn í frv. Nd. tók málið hins vegar aldrei til meðferðar, enda skammt til þingloka þegar frv. kvaddi þessa hv. deild.

Framsögu fyrir málinu og skýringar á því get ég því að mestu sparað mér, en ég treysti á það að hv. allshn. afgr. málið svo rösklega að það nái nú í gegnum nálarauga Nd. fyrir þinglok. Ég held því eðlilega fram enn á ný að hér sé um að ræða töluvert brýnt og þarft mál, og það hefur mjög glatt mig að heyra ýmsa þá aðila er þetta mál snertir, fagna því og óska eftir framgangi þess. Löggjöf af þessu tagi þykir sjálfsögð erlendis, þó að við eigum þar ekki alfarið að apa allt eftir. En þetta mál er þó þess eðlis að um það hljóta að gilda reglur áþekkar þeim sem t.d. eru í gildi á hinum Norðurlöndunum.

Fjársafnanir eru ekki síður miklar hér hjá okkur en öðrum þjóðum, og við íslendingar erum ekki siður örlátir á framlög til góðra verka. En um þessar oft margmilljóna safnanir þurfa og eiga að vera ákveðnar reglur. Þar þarf að veita það eðlilega aðhald og eftirlit sem kveður niður allar gagnrýnis- og tortryggnisraddir sem oft heyrast í kringum þessar safnanir, ekki síst þegar upphæðirnar eru háar og skil óljós öðrum en þeim, sem að söfnun standa, og svo hinum, sem fjármunirnir beinlínis renna til, að því er við skulum ætla. Þó mun þetta ekki einu sinni vera svo í öllum tilfellum. Það er staðreynd, að um þessi atriði vantar okkur algjörlega löggjöf, og hún yrði beinlínis sett til þess að tryggja hag þeirra sem að söfnunum standa, veita þeim eðlilegt aðhald, en gefa ekki síður hinum fjölmörgu gefendum eða framleggjendum möguleika til þess að sjá full skil og sannfæra þá um leið að allt sé með felldu.

Ég hef nefnt það hér áður, að sjálfur hafði ég sem skólastjóri á mínum heimastað staðið með söfnunarfé í höndum upp á tugi þúsunda æ ofan í æ í sambandi við ýmsar meiri háttar safnanir sem fram fóru á landi hér, og það fór nú ævinlega svo, að ég skilaði þessum peningum án þess í raun og veru að ég gæti fyllilega sýnt fram á það að ég væri að gera fullnægjandi skil, hafði ekkert reikningshald þar yfir, var ekki til þess ætlast, og ef ég bauðst til að senda það, þá var það venjulega afþakkað af þeim, sem að söfnuninni stóðu, og sagt einfaldlega að mér væri bara treyst til þess að þetta væri rétt.

Það kom sem sagt fyrir, að oft lá í raun og veru ekkert fyrir nema bara upphæðin sjálf sem send var. Ég hefði þá feginn viljað geta haft fullkomið uppgjör á bak við mig, söfnunin hefði verið þannig skipulögð frá upphafi, og það er einmitt meginhugsunin að baki þessa frv.- flutnings. Vegna þess að ég veit að svo hugsa menn almennt sem fyrir fjársöfnun standa, þeir vilja hafa þessa hluti á hreinu, þá er þetta frv. enn þá flutt og á það treyst, að nú muni það ná fram að ganga. Ég vitna því í framsögu fyrir þessu frv. áður í d. og leyfi mér að óska eftir því að frv. verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.