22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3475 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

165. mál, póst- og símamál

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Á þskj. 460 flyt ég brtt. Við frv. til l. um stjórn og starfrækslu Pósts og síma. Till. er svo hljóðandi, hún er við 11. gr., að greinin orðist svo:

„Ráðherra ákveður í gjaldskrá gjöld þau, sem greiða ber póst- og símamálastofnun fyrir þjónustu þá sem hún veitir, þ. á m. fyrir póstgíró og uppsetningu, leigu og viðhald hvers konar fjarskiptatækja. Hann lánar endurgjaldslaust talstöðvar í bifreiðar fatlaðs fólks að fenginni umsögn Öryrkjabandalags Íslands, en þó skulu ekki lánaðar fleiri en 25 á hverjum tíma. Ráðherra ákveður við næstu gjaldskrárbreytingu að sama gjald komi fyrir hvert símtal sem fram fer innan sama númerasvæðis.

Þá er ráðh. heimilt að ákveða, að sama gjald skuli krafið fyrir símtal við helstu þjónustu­- og stjórnsýslustofnanir ríkisins í Reykjavík, hvaðan sem talað er af landinu.

Að því skal stefnt að tekjur samkv. gjaldskrá nægi til þess að rekstrarjöfnuður náist, miðað við að rekstur og fjárfestingar fari eftir megin­stefnu 1. mgr. 3. gr. og fyllsta aðhalds sé gætt.“

Í 11. gr., eins og hún er hér flutt, eru þrjú ný efnisatriði. Hið fyrsta er það, að Póstur og sími láni 25 fötluðum talstöðvar endurgjaldslaust í bifreiðar sínar. Þetta kann að virðast óeðlilegt, að Síminn styðji lítillega við bakið á nokkrum öryrkjum. En það er skylt skeggið hökunni og Síminn er ríkisfyrirtæki sem samkv. lögum um fjarskipti hefur einkaleyfi til rekstrar talstöðva. Þetta yrði því aðeins óverulegt einkaleysfisgjald sem ekki mundi hafa nokkur áhrif á rekstur þessa stærsta fyrirtækis landsins, en það mundi skapa nokkrum öryrkjum aukið öryggi.

Annað efnisatriði till. er það, að ráðh. ákveði við næstu gjaldskrárbreytingu að sama gjald komi fyrir hvert símtal sem fram fer innan sama númerasvæðis. Svo sem kunnugt er krefur Síminn notendur um tvenns konar gjald fyrir símtöl. Innan þéttbýlis greiða menn eitt skrefgjald fyr­ir símtalið, hve langt sem það er. Ef hins vegar talað er á milli byggðarlaga, þá greiðir notandinn eitt skrefgjald fyrir hverja 5–60 sek. sem hann talar. Ef brtt. yrði samþ., þá mundi þetta breyt­ast á þann veg, að sama gjald yrði krafið fyrir öll símtöl sem fara fram innan t. d. svæðis 91 eða 99, en aftur á móti yrði gjaldið áfram mis­munandi eftir lengd símtals ef talað væri á milli 91 og 99. Mér finnst eðlilegt að sama gjald sé krafið innan sama svæðis, því að sameiginleg atvinnuleg og menningarleg samskipti eru að jafnaði miklu meiri og nánari innan svæðanna heldur en verður þegar fjarlægðir gerast meiri. Það er t. d. augljóst, að það eru á flestum sviðum meiri samskipti milli reykvíkinga og íbúa Mosfellssveitar heldur en milli reykvíkinga og hornfirðinga, m. a. vegna þess að fjöldi reykvík­inga vinnur uppi í Mosfellssveit og öfugt. Innan svæðis 92 eru t. d. 7 byggðakjarnar, allt verstöðv­ar. Bátar landa fiski í verstöðvum á víxl, miklu hráefni er ekið á milli byggðakjarna og þess vegna er góð og sanngjörn símaþjónusta mikil nauðsyn á þessu svæði. Þar með er sanngjarnt og eðlilegt að sama gjald sé krafið og gildir í þéttbýlinu. Sama má segja um Ísafjörð — Bol­ungarvík, um Akureyri — Dalvík o. s. frv.

Í sjálfu sér veit ég að forráðamenn Pósts og síma hafa hug á að leiðrétta það misræmi sem hér hefur verið lyst. En þeir munu veigra sér við að framkvæma þá umbót af ótta við það, að álagið á símanum muni stóraukast, en það er, eins og menn vita, nógu mikið fyrir. Þetta þýðir aftur á móti það, að þeir, sem búa við mikið álag og þar af leiðandi lélega þjónustu Pósts og síma, eiga að greiða margfalt gjald fyrir hvert símtal borið saman við þá sem góðu þjón­ustunnar í þéttbýlinu njóta. Venja er nú sú, að góð þjónusta sé dýrari en léleg þjónusta. Hér er þessu hins vegar algjörlega öfugt farið. Fyrir 15 mín. samtal hér innan Reykjavíkur greiði ég 8.70 kr., en ef ég hringi héðan upp í Mosfells­sveit, þá kostar það 8.70 x 15 kr.

Nú skil ég örðugleika Pósts og síma vegna hinnar ört vaxandi notkunar símans og lélegs fjárhags undanfarin ar. En það afsakar ekki þessi óeðlilegu vinnubrögð, að þeir, sem fá lélegustu þjónustuna, greiði hana hæstu verði. Á meðan línur og stöðvar eru ófullnægjandi fyndist mér vel koma til greina að símtal rofnaði eftir ákveð­inn tíma. Flestir ættu að geta lokið erindi sínu á 3–5 mín, Það væri örugglega skemmtilegra og heppilegra fyrirkomulag heldur en það sem nú er.

Þá er þriðja efnisatriði till. Það er að ráðh. sé heimilt að ákveða að sama gjald skuli krafið fyrir símtal við helstu þjónustu — og stjórnsýslustofnanir ríkisins í Reykjavík, hvaðan sem talað er af landinu. Mér finnst þetta vera mikið sanngirnisatriði, t. d. að kjósendur gætu hringt hingað niður í Alþ. í sína þm. fyrir svipað gjald, hvaðan sem þeir hringdu. Tæknilega gæti þetta skeð á ýmsan hátt. Það væri t. d. hægt að gera það þannig, að gegnum 02 yrði símtalið skráð og sama gjald rukkað, hvaðan sem talað væri. Hægt væri að skipta um númer hjá þeim stofn­unum sem þessi tillitssemi ætti að gilda um, t. d. fengi Alþ. 001, stjórnarráðið 002, Vegagerðin 003 o. s. frv. Að sjálfsögðu yrði að ákveða í reglugerð, um hvaða stofnanir yrði að ræða, hvort hvert samtal skyldi standa ákveðinn mínútufjölda og hvert gjald kæmi fyrir. Hér væri að mínu áliti um verulega jöfnun á aðstöðu fólks í landinu að ræða. Stjórnsýslustöðv­arnar eru þjónustufyrirtæki allra landsmanna. Með því að gefa öllum landsmönnum tækifæri til þess að ná símasambandi við þá embættismenn okkar, er þar sitja, án tilfinnanlegra út­gjalda, þá tel ég að nokkuð sé unnið.

Ég vona að hæstv. ráðh. sjái sér fært að láta gera tilraun í þessu efni. Það mætti byrja með því að opna þennan möguleika við eina til tvær stofnanir. Þá mundi fljótt koma í ljós hvort notagildið væri það sem ég tel það vera.

Ég hef nú drepið á þau þrjú efnisatriði sem brtt. inniheldur og þá að sjálfsögðu farið um það flestum orðum, til hverra hagsbóta hún yrði fyrir viðskiptavini Pósts og síma ef hún yrði samþ., en kem þá að því, hvaða áhrif sam­þykkt hennar mundi hafa á rekstur Pósts og síma.

Lokamálsgr. till. hljóðar svo: „Að því skal stefnt að tekjur samkv. gjaldskrá nægi til þess að rekstrarjöfnuður náist, miðað við að rekstur og fjárfestingar fari eftir meginstefnu 1. mgr. 3. gr. og fyllsta aðhalds sé gætt.“

Á þennan hátt er það tryggt að rekstrarafkoma Pósts og síma versnar ekki þrátt fyrir þessa breytingu. Það, sem skeður, er einfaldlega það, að fyrirtækið fær fleiri þakkláta og ánægða viðskiptavini, en hækkunin á 0-taxtanum, þ. e. a. s. þéttbýlistaxtanum, verður svo smávægileg, að hún mun ekki valda neinni óánægju. Breyt­ingin þýðir sem sé það, að það mun kosta örlítið meira fyrir akureyringa að tala innan Ak­ureyrar, en mörgum sinnum minna fyrir þá að hringja til Dalvíkur. Aftur á móti er ekki ljóst fyrir mér annað en að tæknilega sé mjög auð­velt að koma þessu fyrir og að í raun og veru eina ástæðan til að halda þessu fyrirkomulagi eins og það er nú sé óttinn við að ástandið við að ná sambandi muni versna til muna. Ég hef getið um, að ég tel að það mætti lagfæra með því að símtal rofnaði eftir ákveðinn tíma, og ég tel að þessi annmarki gefi ekki ástæðu til þess að mismuna svo mjög í greiðslum fyrir símgjöld.

Ég vona að hv. þdm. geri sér grein fyrir því, að hér er um verulega og þýðingarmikla till. að ræða fyrir nokkurn fjölda landsmanna, — till. sem færir nokkrum miklar hagsbætur og leiðréttir misrétti án þess að það komi hart niður á öðrum.