22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3479 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

165. mál, póst- og símamál

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég get verið stuttorður, því að tveir síðustu ræðumenn komu inn á þau atriði er ég hafði fyrst og fremst í huga að fjalla um.

Eins og síðasti ræðumaður benti á hefur það verið vaxandi vandamál hvernig fara skuli með þjónustu varðandi bátaflotann og fjarskiptatæki hans. Póstur og sími hefur einkarétt á þessari þjónustu og hefur stofnunin verið ákaflega treg að viðurkenna hæfa menn, sem eiga heima úti um landið, að taka þessi mál að sér.

Ég vil spyrja hæstv. ráðh. vegna þess, hvernig 3. gr. er orðuð, hvað er fram undan í þessum efnum. Einnig má spyrja formann n. hvort þetta mál hefur borið á góma í umr., því í 3. gr. segir að nánar skuli kveðið á um framkvæmd einka­réttar í reglugerðum sem ráðh. setur. Þetta er mjög laust orðað gagnvart því, hvað við fáum að vita að hverju er stefnt. Viðskiptadeildin, sem er í 6. gr., fær einnig þessa síðustu málsgr. sér til trausts og halds: „Nánar skal kveðið á um starfsemi aðaldeilda í reglugerð sem ráðh. setur.“ En viðskiptadeildin á að taka að sér þetta starfs­svið í hinum nýju umdæmum, og ég verð að segja það, að mikið er til í því sem kom fram hér hjá 5. þm. Norðurl. e., að þetta er svo stórt mál að oft hefur svo stórt mál verði sýnt og um það fjallað rækilega og tekið svo fyrir aftur eftir nokkurt hlé.

Þetta er ein stærsta stofnun ríkisins og veltir gífurlegu fjármagni. Þjónusta við almenning er viðamikil og verður að vera trygg og góð, eins og tök eru á og fjármagn leyfir, því hér er einnig um öryggisatriði að ræða í verulega stór­um stíl og skiptir alla starfsemi í landinu mjög miklu. Á bls. 16 í aths. segir að eigi að flytja ýmislegt út um land og er það jákvætt viðhorf. En mér finnst heldur stuttaralega sagt frá, a. m. k. í tölum talið, hvernig þetta er gert. Það eru sýnd ákveðin skipurit. Það er ekki nefnt neitt mannahald. Það eru ekki nefndar neinar tölur um fyrirframkostnað. Það er sagt að reynsla af valddreifingu sem þessari sé þegar fyrir hendi hjá Vegagerð ríkisins. Ég held að hér gæti verulegs misskilnings. Vegagerð ríkisins er ekki þjónustuaðili sem viðgerðaraðili á margs konar tækjum fyrir almenning, eins og þarna hlýtur að koma fram, a. m. k. varðandi allan bátaflotann, varðandi talstöðvar í bílum og margt, margt fleira. Hér erum við því að fara inn á allt annað valdsvið og það þarf sérþjálfað lið. Á mörgum stöðum úti um land eru mjög hæfir viðgerðarmenn í sjónvarpstækni og ýmsu fleiru og tal­stöðvatækni, en þeir fá ekki að snerta á hlutun­um vegna þess, sem hv. þm., 2. þm. Vestf. kom inn á, vegna þess að einkaréttarvaldið er svo fasttryggt að það leyfir alls ekki hæfum mönnum og hæfum verkstjórum úti um landið að starfa.

Ég tel nauðsynlegt, áður en við höldum áfram með afgreiðslu, að fá að vita hvað hæstv. ráðh. eða rn. hans hugsar sér í þessu efni eða hvað kom fram á fundum n., því hér er um stórt mál að ræða og þó nauðsyn sé að breyta öðrum lögum, þá falla þau inn á starfssvið Pósts og síma þ. e. fjarskiptalögin. Við verðum að vita að hverju er stefnt í þessu efni. Það er mjög vaxandi notkun á talstöðvum á öllum sviðum og þjónustan við þessa aðila hlýtur því að vaxa. Þeir greiða hátt gjald og þessi tæki eru gagns­laus nema góð þjónusta fylgi, og erindi mitt var fyrst og fremst að forvitnast um þessa þætti. Ég tel að í aths. á bls. 16 sé okkur ekki gefið rétt í skyn hvað hér sé á ferðinni, vegna þess að starfssvið Vegagerðar ríkisins og starfssvið Pósts og síma til þjónustu gagnvart almenningi er alls ekki sambærilegt að mínu mati.