22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3486 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

165. mál, póst- og símamál

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls sagði ég hér nokkur orð og lýsti yfir ánægju minni með heildarstefnu þessa frv., taldi margt þar til bóta. Aðallega minntist ég þó á tvennt: Annars vegar aukið vald í hendur um­dæmisstjóranna, sem ég held að sé ótvírætt, þó ég geti nú kannske dregið eitthvað í land með þann fögnuð út frá upplýsingum þeirra nm., að valdsviðið verður kannske ekki alveg eins mikið og ég hafði gert mér vonir um. En það er þó tvímælalaust bót í máli, að þarna er aukið vald fært á hendur umdæmisstjóranna frá því sem verið hefur. Hitt atriðið var um áætlanagerð, sem ég taldi mjög til bóta og tel enn, þó að vissulega hefði verið ástæða til þess að kveða þar nánar á um þessa áætlanagerð, hvaða aðilar skyldu þar um fjalla, svo sem eins og fjvn. eða þá Alþ. sjálft.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Stefáni Jónssyni, að það hafi vissulega verið ástæða til þess með svona stórt mál að lengri tími hefði unnist til þess fyrir n. og fyrir Alþ. að fjalla um það. Hér er um mjög viðamikið mál að ræða og mörg atriði sem fléttast þar inn í.

Út af till. tveggja hv. þm. hér um yfirstjórn þessarar stofnunar, þá get ég lýst yfir stuðningi við þá till. Ég held, þó það sé rétt hjá hæstv. ráðh. að þarna hafi orðið á breyting til góðs á yfirstjórn þessara mála, þannig að nú heyri póst- ­og símamálastjóraembættið beint undir rn. í stað­inn fyrir beint undir ráðh. áður, þá tel ég engu að síður fulla ástæðu til þess með svo viðamikla stofnun að hún fái þingkjörna stjórn, þrátt fyrir það að ýmislegt í þessu frv. um stjórn og starf­rækslu póst- og símamála sé til bóta, m. a. varðandi umdæmisstjórana og starfsmenn.

Ég held að það sé sem sagt full ástæða fyrir okkur að gefa þessu gaum í fleiri atriðum og minni á frv. frá hv. þm. Albert Guðmundssyni hér um stjórn annarrar ríkisstofnunar, sem ég hlýt einnig að styðja, því það er áreiðanlega full ástæða til þess að fylgjast hér betur með en gert er.

Ég tek undir með hv. 2. þm. Vestf. varðandi stuðning okkar byggðanefndarmanna vissulega við meginsjónarmiðin sem felast í brtt. frá hv. þm. Oddi Ólafssyni. Og það er vissulega rétt, eins og kom fram í máli hans, að þó að þarna hafi verið gerð umtalsverð átök, og við skulum ekki gleyma þeim út af fyrir sig, þá er hér mjög langt í land enn þá að jöfnuður náist. Þegar till. kemur fram sem beinist svo mjög í þá átt sem við höfum um fjallað áður, þá hljótum við að fagna þeirri till. og styðja hana. Ég hins vegar fagna einnig þeim orðum hæstv. ráðh., að á döfinni sé að reyna að framkvæma virkilega breytingu á þessum málum til aukins jafnaðar, m. a. með þessari samstarfsnefnd. Ég held að eina allra brýnustu nauðsynina í sambandi við jöfnuð milli dreifbýlis og þéttbýlis sé einmitt að finna í símamálunum. Varðandi stjórnsýslustofnanirnar er vitanlega eitt aðalatriðið fyrir fjöl­marga aðila að ná sem greiðast og best til þeirra, eins og mjög réttilega er komið inn á í brtt. hv. þm. Odds Ólafssonar.

Því hefur aðeins verið skotið að mér, frá nokkrum stöðum þó í mínu kjördæmi þar sem símgjöld eru verulega þungur baggi á fólki, að innheimta símgjaldanna á ársfjórðungsfresti væri betur komin á mánaðarfresti, fólk væri sem sagt sáttara við það að greiða þessi gjöld mánaðar­lega heldur en ársfjórðungslega, þetta væru það hrikalegar upphæðir og fólk gæti betur fylgst með því einnig ef greiðslurnar færu fram mánaðarlega. Fyrir stofnunina átti þarna ekki að vera um aukakostnað að ræða, síður en svo. Stofn­unin fær þá fyrr inn fé með þessu móti og ætti sennilega að taka þessari till. með fögnuði. Ég kem henni hérna á framfæri, af því að henni hefur verið komið á framfæri við mig af nokkrum málsmetandi aðilum úr mínu kjördæmi sem sýnist það vera mjög til bóta að innheimta þessi gjöld mánaðarlega í stað ársfjórðungslega eins og nú er. Ég legg engan dóm á þetta hins vegar fyrir mitt leyti. Ég hygg að þarna sé um vafasama ráðstöfun gagnvart notandanum að ræða. En bæði hefur verið talað um að þetta væri há upphæð þegar hún kæmi, þó hún jafn­aðist yfir lengri tíma, og eins það, að fólk varaði sig betur á því að tala ekki eins mikið ef mánaðarleg aðvörun kæmi í staðinn fyrir ársfjórðungslega. Það hugsa ég að ráði nú kann­ske mestu.

Að síðustu aðeins um þá brtt. sem hv. þm. Oddur Ólafsson er með um talstöðvar í bifreiðar fatlaðs fólks. Við höfum verið með frv. um það hér í hv. d., við hv. þm. Stefán Jónsson, að reyna að finna hér á lausn. Við okkar frv. var svo flutt á sínum tíma brtt. frá hv. þm. Albert Guðmundssyni, en síðan hefur eiginlega ekkert sest til þessa frv. Það hefur alveg týnst. Þess vegna fagnaði ég þegar ég sá að hv. þm. Oddur Ólafsson var kominn með enn eina till. hér um. En lausn þarf alla vega að fá á þessu máli. E. t. v. er rétt hjá hæstv. ráðh. að þetta þurfi að gerast með öðrum hætti en barna er og e. t. v. eins .og hann túlkaði það áðan, einmitt með þeim hætti sem við hv. þm. Stefán Jónsson lögðum til. Sýnist mér að það sé fullt samræmi í því, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, og í þeirri frumvarpsgerð sem við vorum með.

Ég skal svo ekki segja um það hvaða málsmeðferð verður á þessu áfram. Hæstv. ráðh. hefur haft hér í frammi áköf bænarorð um að þessar till. verði dregnar til baka, og það er þá áreiðanlega hans meining að þau atriði, sem þessa till. snerta, verði tekin, eins og hann benti á, til gaumgæfilegrar athugunar og lagfæringar. Ef svo verður, þá verðum við auðvitað að treysta því. En þessum brtt. óbreyttum get ég fylgt full­komlega, því að ég held að þær séu allar í rétt­lætis- og jafnaðarátt.