22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3489 í B-deild Alþingistíðinda. (2441)

165. mál, póst- og símamál

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Enn skal ég reyna að orðlengja ekki aths. mínar. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir skýringar sem hann flutti okkur áðan á ýmsum atriðum og eins og hann sagði: að skilja það er að fyrirgefa: Þar vitnaði hann að vísu í sænskan slagara sem sunginn var hér allmikið fyrir 15 árum og hét á sænskunni: Att förstå, att förlåta, söngur Lundeyjar-Maju þar sem hún var að biðja eiginmann sinn afsökunar á smáfótaskorti sem henni varð á. En eigi að síður er þetta þannig, að skýringar hæstv. ráðh. voru góðar og ákaflega mörg atriði raunverulega í afstöðu hans orðin fyrir bragðið þess háttar, að maður hefur einnig mjög sterka tilhneigingu til þess að aðstoða hann við að koma þessu frv. í gegn, sem ég tel eins og hann að sé til bóta.

Hitt er aftur annað mál, að ég tel að Alþ. hafi ekki haft þetta frv. nógu lengi til um­fjöllunar, enda þótt n., sem ráðh. vitnaði til, hefði verið skipuð 1973. Þetta er ekki mælikvarði á ráð, hversu lengi Alþ. hefur haft þetta mál til umfjöllunar eða umhugsunar. Það er ekki langur tími, og ég er enn þá þeirrar skoð­unar, að æskilegt sé að Alþ. gefist svolítið lengri tími til að fjalla um málið, m.a. í þeirri trú að Alþ. kunni að breyta frv. einmitt á þá lund eingöngu sem hæstv. ráðh. telur í hjarta sínu æskilegast. Það kom fram í máli hans áðan, að hann er því fylgjandi að gerðar verði breyt­ingar á reglugerðum og lagaákvæðum á ýmsan hátt í þá veru, sem þm. leggja til, þótt hann telji að leiðin til þess arna komi til álita. Nú vil ég að við fáum tíma til þess að líta á þetta einmitt, hvernig við náum þeim settu mörkum sem ráðh. gerði grein fyrir. Og ég vil sérstak­lega víkja að atriðunum sem hann nefndi varð­andi hlutskipti gamla fólksins og öryrkjanna og þeirra sem minnst hafa úr að spila, en þurfa e. t. v. mest á síma að halda og þessum tækjum.

Ég held að allmikið sé til í því, sem hæstv. ráðh. sagði, að æskilegt sé að samfélagið geri þetta beinlínis, að ekki séu lagðar kvaðir á einstakar stofnanir í þessu, heldur að við reyndum t. d. að gera slíkt fyrir tilstuðlan Tryggingastofnunarinnar sem mesta möguleika hefur á því að meta þörfina. Þessu trúi ég, að þetta væri æskilegt ef sú leið er fær. En takist það ekki, takist ekki að gera þetta eftir þeirri leið sem best er, þá finnst mér koma til álita að gera það eftir næstbestu leiðinni.

Ráðh. minntist áðan beint í tengslum við viðleitnina, sem er rík í hans huga, viðleitnina til þess að jafna símagjöldin, þá minntist hann á tæki sem nú er verið að panta sérstaklega til Landssímans til nota í Reykjavík til þess að stemma við því stigu að menn liggi í símanum og tali kannske allt að því hálfan daginn í einu skrefi, og þetta tæki kostar um það bil 100 millj. Hér er atriði sem kemur mjög til álita. Ég skil hvað fyrir hæstv. ráðh. vakir, og ég veit, að það er gott, og ég veit, að það er skyn­samlegt. En hér kemur mjög til álita með hvaða hætti þessu marki skuli náð. Sannleikurinn er sá, að einmitt gamla fólkið og einmitt gamla fólkið í Reykjavík, öðru fremur í Reykjavík, reynir að bæta sér upp einangrun, félagslega einangrun, sem er e. t. v. hvergi napurlegri en í Reykjavík með sínum miskunnarlausu umferðargötum, með sínum erfiðu fjarlægðum, sem verða mældar e. t. v. í öðru fremur en km, þetta fólk reynir að bæta sér upp einangrunina með símanum. Og ég hef grun um að við gerum rétt í því að taka tillit til þessarar félagslegu stað­reyndar þegar við erum að fjalla um þetta atriði, um það hversu meta skal til verðs hvert teljara­skref í símtölum á þéttbýlissvæðunum, einmitt þessa stöðu gamla fólksins, þannig að við kunn­um e. t. v. að þurfa að leysa þörf þess um leið á annan hátt, þá kannske eftir öðrum leiðum ef með þarf, — sérstaka þörf þess fyrir síma, sem er í mörgum tilfellum öryggistæki líka þar sem svo er ástatt að gamalmennið býr eitt í íbúð og er farið að heilsu og þarf beinlínis á þessi öryggistæki að halda. Því er ég þeirrar skoðunar, að annaðhvort verðum við, um leið og við kynnum að velja þann kostinn að hækka verð á símanotum í Reykjavík í jöfnunarskyni, þá verðum við jafnframt að gera annað tveggja: Að leggja þá kvöð á símann að taka sérstakt tillit til gamla fólksins og öryrkjanna ellegar þá að koma því jafnframt í gegn að einhver annar aðili — og ég ítreka að ég er hæstv. ráðh. sammála um að æskilegast væri að Trygginga­stofnunin gerði þetta, en sem sagt, aðra hvora leiðina verðum við að velja.

Varðandi sjálfa till. um skipun stjórnar Pósts og síma vil ég enn ítreka það sem ég áður sagði, að tilgangur okkar hv. þm. Eggerts G. Þorsteins­sonar er sá, að hér yrði um 7 manna stjórn að ræða, en ekki 5 manna stjórn. Okkur varð aðeins þarna á í messunni að nefna töluna 5. Ég er þeirrar skoðunar að þess háttar risastofnun á okkar mælikvarða eins og Póstur og sími eigi að lúta þingkjörinni stjórn. Ég skil mjög vel afstöðuna sem óbeint kom fram í orðum hæstv. ráðh. Hann vildi undir engum kringumstæðum misvirða á nokkurn hátt eða láta í ljós van­traust á núv. stjórn Pósts og síma og þá allra síst þeim ágæta manni sem nú gegnir embætti póst- og símamálastjóra. Það viljum við flm. heldur alls ekki, og þess vegna ítreka ég þetta, legg á það mjög þunga áherslu, að hér erum við alls ekki að draga í efa heiðarleika eða ágæta starfskunnáttu núv. póst- og símamálastjóra, síður en svo. En við erum báðir þeirrar skoðunar, að það sé alveg fráleitt að Alþ. hafi ekki hönd í bagga á þennan hátt með yfirstjórn þess háttar stofnana. Það yrði stigið stórt skref í átt til þingræðislegrar útfærslu með þessum hætti, og sannleikurinn er náttúrlega sá, að hér á Alþ. í vök að verjast. Ég vil ekki segja neitt óþarflega ljótt um embættismennina okkar, en við eigum sannarlega í vök að verjast fyrir hönd Alþ. þar sem er ásókn embættismanna í völd sem Alþ. heyra, og ég hygg að það sé meira en tími til kominn að Alþ. taki á sig alla stjórnunarlega ábyrgð sem fylgir skyldum Alþ. út á við, og kynni þá ýmislegt að fara betur.

Ég efast ekki um að hæstv. ráðh. geti tilgreint dæmi um það, að ekki hafi allar stjórnir opin­berra stofnana þingkjörinna setið reynst heppn­ar. En svo er um stjórnir yfirleitt, og einkanlega finnum við fyrir því á þessum missirum, hve ríkisstj. eru óskaplega misjafnar — misjafnar hafa þær alltaf verið, en misjafnlega óskaplega misjafnar.

Ég skil það vel að hæstv. ráðh, vilji hraða afgreiðslu þessa máls. Aftur á móti sé stað­reynd, að þegar er tekið til við ýmiss konar tilraunir utan við ramma núgildandi póst- og símamálalaga um skipulag stjórnar þessarar stofnunar, það finnst mér ekki koma í veg fyrir að við getum ætlað örlítið lengri tíma en nú bara til þingloka á næstu dögum til að fjalla um þetta frv. Og vík ég þá aðeins í lokin að þeirri þjónustu sem hæstv. ráðh. sagði að Póstur og sími vildi gjarnan losa sig við af skiljan­legum ástæðum, eins og hann orðaði það, Póstur og sími hefur ekki löngun til að annast þá þjón­ustu framvegis sem lýtur að talstöðvunum og viðgerðarþjónustunni. Hér komum við að atriði sem við höfum lítils háttar fjallað um hér í þinginu fyrr í vetur og ég hef minnst á í ræðu, þar sem um er að ræða ákveðna viðleitni Pósts og síma til þess að skjóta sér undan því að veita þjónustu, e. t. v. af skiljanlegum ástæðum, en að veita nauðsynlega þjónustu sem aðrar stofnanir geta ekki tekið við, svo sem þjónustu við eigendur lítilla talstöðva á stuttbylgjum, sem munu vera um það bil 8000 í bílum hér innan­lands núna, ákaflega þýðingarmikil öryggistæki fyrir almennt öryggi. Þessi tæki eru keypt til landsins og sett í bíla að, vissu leyti á ábyrgð Pósts og síma sem hefur þessa einkaréttarað­stöðu framvegis, en Landssíminn neitar að láta í té hlustunarþjónustu við þessar stöðvar. Og þar sem hér er nú um að ræða slíkan geysilegan fjölda og mjög þýðingarmikið öryggistæki, sér­staklega úti á landi þar sem símasamband er stopulast og erfiðast að ná til lækna og fá hjálp ef slys ber að höndum, þá kynni við nánari umhugsun að vera ástæða til þess að fella inn í hina nýju löggjöf einhvers konar ákvæði um það, með hvaða hætti Pósti og síma beri skylda til þess að veita þjónustu á þessum sviðum, ellegar þá ljós ákvæði um það, að Pósti og síma beri ekki skylda til þess að veita slíka þjónustu, þannig að við getum þá tekið það upp, hver eigi að veita þjónustuna, því að hennar er þörf. Einnig til þess arna finnst mér að við þyrftum að fá tíma, til þess að athuga þessi atriði. Ég vil svo enn, af því að ég mun ekki kveðja mér hljóðs öðru sinni, ítreka það, að ég hygg að hér hafi verið unnið ágætt starf af hálfu undirbúningsnefndarinnar og póst- og símamálastjóra við undirbúning þessa frv., þótt ég sé eindregið þeirrar skoðunar að enn megi bæta það nokkuð og sé sjálfsagt að Alþ. taki það verk að sér að bæta þetta frv. nokkuð, þannig að það verði verulega gott frv. og það verði góð löggjöf og traust og vönduð sem Alþ. sendir frá sér um yfirstjórn Pósts og síma eftir þessi 42 ár.