22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3495 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

165. mál, póst- og símamál

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð, fyrst og fremst vegna stuttrar og alveg stórfurðulegrar aths. síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóns Helgasonar, formanns samgn.

Ég kvartaði í framsöguræðu minni á engan hátt undan meðferð þessa máls í n. og fór ekki dult með það, að brtt. sú, sem hér um ræðir, sem við flytjum hér við hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson, kom fram í allra síðasta lagi í n. Aftur á móti gaf ég honum alls ekkert tilefni til þess í framsögu minni áðan eða aths. mínum við frv. að notfæra sér tæknilegan galla á brtt. sem ég sjálfur þríundirstrikaði að væri tæknilegur galli, sem ég leyfði mér að vísu að kalla klaufa­skap, þá gaf ég honum ekkert tilefni til þess að grípa þetta síðan út úr till. og snúa út úr þessu atriði, tilgreina það síðan í ræðu hér áðan sem merki um að tillöguflutningurinn væri óvandað­ur, að nú bærum við hv. þm. Eggert G. Þorsteins­son þegar fram brtt. við brtt., þó að honum væri sjálfum ljóst, því að varla trúi ég að hann hafi ekki heyrt til mín áðan þegar ég talaði, hvernig á þessum galla stóð. Ef þetta er bara eðlis- eða flokkslæg árátta til þess að vera í grundvallar­atriðum annaðhvort ómerkilegur eða kvikindsk­ur, þá hv. þm. um það. Eða stafar þetta af því að maðurinn megi ekki til þess hugsa að andmæla ráðh. sínum, að því er virðist eiðsvörn­um, í einu eða neinu og þá ekki til þess hugsa að bætt verði við gr. í frv?

Nú ætti honum að vera það ljóst, hv. þm., að þegar eru kjörnar stjórnir af hálfu Alþ. yfir stofnanir sem hafa mikið umfang, annaðhvort hvað fjárráð snertir eða þjónustu, dálítið í lík­ingu við það sem Póstur og sími hafa. Og af því að hann nefndi sjálfur tryggingaráð áðan. Þá er Trygginga stofnun ríkisins m. a. ein þessara stofnana sem Alþ. kýs stjórn yfir. Og honum aðeins til upplýsingar, ef hann skyldi haldinn framhaldsaráttu til þess að leiftra á því hinu sama sviði sem hann áðan gerði, skal það tekið fram, að það voru einmitt lagaákvæðin um tryggingaráð sem ollu þessum mistökum okkar hv. hm. Eggerts G. Þorsteinssonar, að kveða á um fimm manna stjórn, en ekki sjö vegna þess að við leituðum fyrirmyndarinnar í að vísu úreltu lagasafni einmitt í tryggingarað ríkisins.

Það liggur síðan í augum uppi, að hvorugur okkar hv. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar hugðist skerða aðild starfsmanna að stjórn fyrirtækisins frá því sem ráð er fyrir gert í sjálfu frv. og þó náttúrlega enn síður í frv. í þeirri mynd sem það kemur frá samgn., þar sem hv. þm. Jón Helgason átti frumkvæðið að því að gera bót á frv. einmitt í þessa átt, að tryggja frekari aðild starfsmanna að stjórn stofnunarinnar. En ég held að hann hljóti að fallast á það, að með brtt. okkar hv. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar er ekki ráðgerð nein skerðing á þessari stjórnunaraðild starfsmanna.