22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3496 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

165. mál, póst- og símamál

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég skil ekki að öllu leyti til­efni stóryrða hv. 5. þm. Norðurl. e., þar sem ég held að ég hafi ekki hafnað að öllu leyti þeirri hugmynd sem kemur fram í brtt. hans, heldur var að benda á ýmis atriði sem mér finnst að þyrfti að skilgreina langtum betur og athuga ef þetta er sett þarna inn. Hann gerði nú enga tilraun til að svara því hvert valdsvið þessarar stjórnar ætti að verða, nema það er tvímælalaust, að þarna á að koma einhver yfirstjórn. (StJ: Það greinir frá því í till. sjálfri.) Eins og ég gat um, þá leggur n. til að starfsmannaráð fái aðild að þeim hópi eða stjórn sem vinnur að áætlana­gerð og stefnumörkun fyrir stofnunina. Nú ætlast hann til að Alþ. kjósi nýja yfirstjórn, og ég held að sú yfirstjórn hljóti að einhverju leyti að skerða valdsvið þeirra aðila sem að öðrum kosti mundu stjórna. Annars væri hún engin stjórn. Og úr því að starfsmenn eiga aðild að þessari stjórn sem frv. gerir ráð fyrir, sem hlýtur að einhverju leyti að skerðast án þess að starfsmennirnir fái neina aðild að þeirri þing­kjörnu stjórn, þá held ég að það dragi þó held­ur úr áhrifum þeirra. — Það var aðeins þetta, sem ég meinti. Mér finnst að þetta hljóti að vera rökrétt.