22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3500 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

165. mál, póst- og símamál

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég segi nú eins og hv. síðasti ræðumaður, ég reiknaði ekki með að taka frekar til máls í þessu máli, en fann mig knúinn til þess eftir ummæli hans sem voru skot til mín.

3. gr. þessa frv. segir, með leyfi forseta: „Póst- og símamálastofnun hefur einkarétt á að stofna“ o. s. frv. Í framsögu minni fyrir brtt. segi ég, með leyfi forseta: „Í frv. til l. um stjórn og starfrækslu póst- og símamála er ákvæði um einkaleyfi póst- og símamálastofnunar ofaukið, enda er slíkt ákvæði ekki í gildandi lögum um þessa stofnun.“ Það er ekkert einkaleyfi í lög­um um þessa stofnun. „Núgildandi ákvæði um einkaleyfi Pósts og síma er að finna í póstlögum“ — og svo vitna ég í númerið á þeim og svo ár­tal — „og í fjarskiptalögum“ og svo númer og ártal. En síðan held ég tilvitnuninni áfram: „Eru þá sérstaklega höfð í huga ákvæði kafla fjar­skiptalaga, þar sem ríkinu er m. a. í 2. gr. þeirra laga veitt einokun.“ Og svo enn þá seinna: „Þessi einokun er síðan framseld Pósti og síma.“ Sem sagt, það er verið að bæta inn í lög um Póst og síma ákvæði um einokun. Síðan er ég hér með nál. þar sem er fyrirvari frá tveimur nm., að vísu út af öðrum atriðum, og mælt er með sam­þykkt á þessu frv. Og þá vil ég vitna í orð sam­þm. míns, samflokksmanns, og segja það, að ég er ekki að drótta neinu, ég er ekki að fara með neinar staðlausar staðhæfingar. Ég er að tala um staðreyndir. Undirskrift ykkar er hérna. Það stendur í frv. hvað. um er að ræða og ég tel mig ekki vera að drótta neinu. Þetta er fullyrð­ing, úr því að hv. þm. vill að ég orði það þannig, að þeir hafi staðið illa á verðinum miðað við stefnu Sjálfstfl.