01.11.1976
Neðri deild: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

6. mál, þingnefnd til að kanna framkvæmd dómsmála

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Mig langar til að gera örstutta athugasemd í sambandi við þetta mál. sem hér er til umr., Ég varpa fram dálítilli hugmynd sem óhjákvæmilega hlýtur að vakna í tilefni af þessum umr. Ég ætla ekki að bollaleggja af hverju þessi till. sé flutt, hvort þar sé pólitískur tilgangur eða almennur áhugi á fræðslu um dómsmálin fyrir þingmenn, eða hvort um sé að ræða sérstök mál sem flm. hafa í huga. Þetta leiðir hins vegar hugann að því mikilvæga hlutverki Alþ. og raun og veru hvers þings yfirleitt í þingræðisríki að reyna að hafa eftirlit með því, hvaða áhrif þau lög hafa sem þingið setur.

Ég man ekki betur en oft á tíðum þegar dómsmálafrv. eru til meðferðar á Alþ., þá sé það svo að þau fái harla litla umr. Mönnum hættir til að segja sem svo: Þetta mál er þegar athugað af sérfræðingum og annaðhvort látum við það liggja til næsta þings eða við afgreiðum það eins og það er, — Þannig hefur mér oft virst afgreiðslan vera. Segja má að það sé með nokkrum hætti eðlilegt. Yfirleitt er þarna um vel undirbúin mál að ræða og á nokkuð sérhæfðu sviði.

En þá kem ég að þeirri hugmynd sem var að brjótast í mér. Ég veit ekki hvort ástæða er til þess að þetta svið þurfi að vera jafnsérhæft og raun er á. Ástæðan er kannske sú, að þm. vita í raun og veru of lítið þm dómsmálin í landinu almennt. Ég er ekki að segja að það sé af neinni embættisvanrækslu neins staðar, heldur af öðru, sem kann að stafa af vinnubrögðum Alþ. sjálfs. Það, sem mér dettur í hug í þessu sambandi, er að það gæti verið ákaflega vel viðeigandi að því er varðar dómsmálin og raunar mörg fleiri sérsvið í ríkiskerfinu, að ráðh. gæfi Alþingi skýrslu á hverju þingi um gang þessara mála. Þá held ég að með nokkrum hætti væri náð þeim tilgangi sem felst í þessari till. Alþm. væri gerð grein fyrir hvernig þessi mál standa, þeim gefin nokkur heildaryfirsýn yfir dómsmálin í landinu og dómsmrh. gæfist einnig kostur á því að kynna í Alþ. hvernig verkefnin í hans rn. stæðu. Þetta held ég að sé alveg nauðsynlegt til þess að greiða fyrir því að Alþ. geti uppfyllt hina svonefndu eftirlitsskyldu sína. Með þessum hætti yrði fleiri mönnum gert skiljanlegt, hvernig staðan er og gangurinn í dómsmálunum, heldur en ef n. væri sett á laggirnar eins og þessi till. fjallar um. Starf slíkrar n. gæti haft ýmsa vankanta og er ekki vist að hún næði nákvæmlega þeim tilgangi að upplýsa Alþ. um hvernig staða þessara mála er í raun og veru.

Ég ítreka sem sagt þá hugmynd mína, bæði hv. þn. til athugunar og hæstv. ríkisstj., hæstv. dómsmrh., sem hér situr, hvort ekki væri athugandi að hæstv, dómsmrh. gæfi Alþingi skýrslu um dómsmálin einu sinni á hverju þingi, sama gilti um aðra „fag“-ráðh., að sínu leyti eins og hæstv. utanrrh. gefur skýrslu um utanríkismál, og síðan færi fram umr. í þinginu um skýrslu hvers viðkomandi ráðh. Það var ekki fleira sem ég ætlaði að nefna í þessu sambandi, og má segja að þetta hafi ekki verið beinlínis um dagskrármálið, en atriði sem mér finnst mjög vert að athuga í sambandi við úrvinnslu þessarar tillögu.