01.11.1976
Neðri deild: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

6. mál, þingnefnd til að kanna framkvæmd dómsmála

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég álít þá hugmynd, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildi Helgadóttur, mjög athyglisverða. Ég vil aðeins í því sambandi minna á það, að í því frv. til lögréttulaga, sem lagt var fyrir síðasta Alþ. og verður væntanlega lagt fram hér á næstunni, er gert ráð fyrir því að þessir dómar, lögréttudómarnir, semji árlega skýrslu um starfsemi sína og sendi hana Alþ. Auðvitað geta slíkar skýrslur frá dómstólnum sjálfum, þessum tveim dómstólum sem gert er ráð fyrir eftir því frv. að verði að vissu leyti aðaldómstólar, gefið tilefni til umr. hér á Alþ. Auk þess er í þessu frv. til lögréttulaga gert ráð fyrir því að dómsmrh. hafi heimild til þess að gefa alveg sérstaklega út árbók um starfsemi lögréttudómstólanna.

En eins og allir hv. þm. vita fara dómsmálin ekki fram á bak við neinar lokaðar dyr. Það gildir einmitt um dómsmál hér, að öll dómþing eru háð í heyrandahljóði, nema sé gerð sérstök undantekning þar frá af hálfu dómara. Almenningur og fjölmiðlar eiga þess vegna kost á því, ef þeir hafa áhuga á, — og mér virðist margt benda til að áhugi þessara aðila sé vaxandi. — þá geta þeir fylgst með þessum málum. Það hefur bara ekki til skamms tíma tíðkast hér á landi að sakamálafréttir t.d. að taka væru efni í dagblöðum hér á landi. Það er tiltölulega ungt og nýtt fyrirbæri. En ef það á að vera, þá er ákaflega mikilsvert að dagblöðin og þeir fjölmiðlar, sem um er að tefla, hafi á að skipa sérstaklega hæfum mönnum sem fylgist með þessum málum. Þetta er gamalt fyrirbæri í öðrum löndum, að sakamálafréttir séu birtar og fréttaritarar blaða fylgist með í þeim efnum. En ég hygg að það sé svo, það er a.m.k. þar sem ég þekki til, að það er vandað mjög til þeirra manna sem þessi störf stunda og þeir hafa a.m.k. af reynsluþekkingu mjög mikla kunnáttu í þessum efnum, segja frá þeim að vísu mismunandi eftir því hvaða blöð eiga í hlut, en hin vandaðri blöð munu ekki telja sæmandi að flytja annað en áreiðanlegar fréttir af þeim málum.

Það er ekki aðeins svo, að almenningur og fjölmiðlar eigi þannig kost á að fylgjast með dómsmálunum, af því að þau fara fram fyrir opnum tjöldum, alveg nákvæmlega eins og störf okkar alþm, hér á hv. Alþ. fara þannig fram, að hver og einn hefur rétt til þess að fylgjast með þeim, við skulum bæta við: eftir því sem húsrúm leyfir. Og það á sannarlega líka við um dómstólana, að þeir salir, sem þeir eru hafa yfir að ráða, eru ekki alltaf stórir. En auk þessa er svo auðvitað, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt, að Hæstiréttur gefur út árlega bók um alla þú dóma sem þar eru upp kveðnir yfir árið. Í þeirri bók eru ekki aðeins birtir sjálfir hæstaréttardómarnir, heldur einnig þeir héraðsdómar sem hefur verið fjallað um af Hæstarétti, Ég veit ekki hvað margir hv, alþm. hafa kynnt sér þessar bækur, þær eru nú orðnar allmargar frá upphafi. En það er áreiðanlegt, að ef þeir gerðu það rækilega, þá mundu þeir margir geta talað af meiri kunnáttu um þessi mál heldur en þeir gera. Þá mundu þeir því miður komast að því t.d., að í hverjum einasta árgangi hæstaréttardóma, að ég hygg, er nú fjallað um hörmuleg atvik, hvort sem við viljum kalla það morð eða manndráp, þannig að menn þurfa náttúrlega ekki að láta þannig að þetta sé alveg nýtt og hafi ekki þekkst áður, ef þeir bara vildu lesa hæstaréttardómana yfir.

En tilefnið til þess, að ég stóð upp, var aðeins þetta: að benda á að sú hugsun, sem hv. síðasti ræðumaður setti hér fram, er í raun og veru vakandi og hefur verið vakin í frv. til lögréttulaga. Það er vissulega til athugunar og má taka til athugunar að færa hana út á víðara svið ef menn vildu, t.d. fá jafnframt skýrslu um störf héraðsdóma. Ég hygg að vísu að staðreyndin sé sú, að flestir þeir héraðsdómar, sem almenna þýðingu hafa, fari til æðra dómstóls og menn fái þannig möguleika til þess að fylgjast með þeim og kanna þar. En að sjálfsögðu á þetta við um fleiri svið stjórnsýslunnar, og ég tel það góða byrjun sem byrjað var hér á með skýrslu utanrrh. Og ég hygg að það tíðkist á öðrum þingum, jafnvel um fleiri svið, að það séu fluttar slíkar skýrslur og ráðh. geri skýrslur um þau málefnasvið sem undir hann heyra.

Ég get mjög vel fallist á að sú hugmynd, sem þar kom fram, sé tekin til athugunar, ef mönnum, þegar þeir sjá lögréttufrv., finnst að það sé ekki stigið nægilega stórt skref í þessa átt í því frv.