02.11.1976
Sameinað þing: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Nú fyrir nokkrum mínútum gengu forráðamenn hreyfingar, er nefnir sig samtök um frjálsan samningsrétt, á fund hæstv. sjútvrh. og afhentu honum yfirlýsingar er hljóða svo, með leyfi forseta:

„Við undirritaðir mótmælum harðlega setningu brbl. frá 6. sept., þar sem sjómenn eru dæmdir til að þiggja lægri laun en þeir sætta sig við, og skorum á Alþ. að ógilda brbl. nú þegar.“

Undir þessa yfirlýsingu skrifa tæplega 2000 starfandi sjómenn. Jafnframt var hæstv. ráðh. afhent svofelld yfirlýsing:

„Við undirrituð lýsum yfir stuðningi okkar við baráttu sjómanna og skorum á Alþ. að ógilda brbl. frá 6. sept. 1976 nú þegar. Lögin eru aðför að samningsrétti alls vinnandi fólks.“

Undir þessa yfirlýsingu skrifa um 10 000 launþegar úr flestum eða öllum atvinnustéttum þjóðfélagsins.

Þessar tvær yfirlýsingar eru því undirritaðar af rúmlega 12 500 einstaklingum víðs vegar að af landinu, og þegar þess er gætt að engin formleg félagasamtök standa á bak við þessa undirskriftasöfnun, heldur er í hana ráðist að frumkvæði nokkurra einstaklinga sem allir eru í fullu starfi á öðrum vettvangi og hafa orðið að vinna að málinu í takmörkuðum frítímum sínum og fyrir eigið fé, þá gefur hinn mikli fjöldi þeirra, sem undir yfirlýsingarnar rita, ljósan vott um hve ákveðin og eindregin andstaða ríkir meðal fólks, ekki aðeins úr röðum sjómanna, heldur einnig úr öðrum atvinnustéttum, við þá atlögu að frjálsum samningsrétti sem fólst í setningu brbl. um kaup og kjör sjómanna frá 6. sept. s.l.

Þorri launþega í þessu landi gerir sér það fyllilega ljóst, að með setningu þessara brbl. er ekki aðeins verið að ráðast harkalega gegn sjómönnum, heldur jafnframt gegn sjálfsögðum mannréttindum og félagslegum réttindum allra launþega í þessu landi, — þeim rétti að fá að semja um kaup og kjör eftir löglegum og viðurkenndum leiðum. Í dag eru það sjómenn sem brotinn hefur verið réttur á. Á morgun er það e.t.v. einhver önnur launþegastétt eða verkalýðshreyfingin öll sem ætlað er að sæta sömu örlögum, ef marka má þær fregnir sem farið hafa af frv. til nýrrar vinnulöggjafar sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér að setja á þessu Alþingi.

Atlagan að sjómannastéttinni er því nokkurs konar prófmál af hendi hæstv. ríkisstj., tilraun til þess að sjá hve langt henni er óhætt að ganga gegn félagslegum réttindum verkalýðshreyfingarinnar. Þannig er þetta mál í pottinn búið, og að svo sé er öllum ljóst. Vegna þessarar hættu hafa 12 500 manns úr hinum ýmsu launastéttum landsins tekið höndum saman við sjómenn um mótmæli, og fjölmargir aðrir eru sama sinnis þó ekki hafi til þeirra náðst.

Frumkvöðlar hinna óformlegu samtaka um verndun frjáls samningsréttar, þeir sem höfðu frumkvæði að undirskriftasöfnuninni, höfðu samband við mig í gær og óskuðu þess að ég gerði nokkra grein fyrir málstað þeirra hér. Mér er bæði ljúft og skylt að verða við þeirri beiðni og þakka forseta tækifærið sem hann hefur veitt mér til þess, en mun að sjálfsögðu fara að tilmælum hans og takmarka mjög mál mitt.

Mér er ljúft að verða við þessari bón, vegna þess að ég er einn í hópi þeirra, sem hafa ritað nafn sitt undir mótmælin, og styð í einu og öllu þau sjónarmið sem þar koma fram. Mér er málið skylt, vegna þess að ég tel að með setningu þessara brbl. hafi verið brotið gegn ekki aðeins lögmætum réttindum launþega í þessu landi, heldur einnig gegn anda sjálfrar stjórnarskrárinnar, og sérhverjum þm., sem er þeirrar skoðunar um aðgerð stjórnvalda, ber skylda til þess að beita sér gegn henni og reyna að fá hana ónýtta með hverjum þeim hætti sem honum ber réttur til sem alþm.

Ég vil í því sambandi sérstaklega benda á, að hvað svo sem því veldur, þá hefur þingheimi enn ekki gefist tækifæri til þess að fjalla um þessa brbl.-setningu, því að þó hún hafi verið nokkrum sinnum á dagskrá hv. Ed. er mér ekki kunnugt um að umr, um málið þar séu hafnar, og er þó líðið alllangt á starfstíma Alþ. Hæstv. ríkisstj. virðist halda þannig á þessu máli að jafnvel henni sé ljóst, að þar hafi hún óhreint mél í pokahorninu. Hún er á báðum áttum um það í raun og veru hvort hún á að hætta sér út í umr. um þessi mál eða ekki.

Grundvallaratriðið í stjórnarháttum okkar er það sama og hjá öðrum siðuðum þjóðum, að engin lög eru lög nema þau lög sem löggjafarsamkoman setur. Þessu landi á að stjórna á grundvelli lýðræðis og þingræðis, en ekki með tilskipunum. Þó hefur ávallt verið gengið lengra og lengra á þá braut. Í 28. gr. stjórnarskrárinnar er opnaður sá möguleiki að forseti Íslands, en í framkvæmd ríkisstj., geti, þegar brýna nauðsyn ber til, eins og þar stendur, sett brbl. milli þinga. Auðvitað er ljóst að hér er um algert undantekningaratriði að ræða, sem raunar er ekki ætlast til að beitt sé nema til að afstýra hreinum þjóðarvoða, t.d. eins og þegar svo bráðan vanda ber að höndum að ekki er unnt að kalla þing saman. Þannig er einnig með slík ákvæði farið í öllum þeim lýðræðislöndum þar sem slík ákvæði er að finna í stjórnarskrá, og þar er mönnum jafnvel svo ljós hættan á misnotkun slíkra ákvæða að í sumum nágrannalöndum okkar. t.d. Noregi, er engin slík undanþága gefin. Þar er ekki hægt að setja brbl.

En íslensk stjórnvöld virðast því miður ekki hafa til að bera þá virðingu fyrir lýðræði og þingræði sem nauðsynleg er til þess að unnt sé að treysta þeim til að fara af þeirri varfærni og varúð með þetta vald sem til er ætlast. Þvert á móti virðast þau í sívaxandi mæli gripa heimild stjórnarskrárinnar til brbl: setningar og nota þá heimild til þess að stjórna þegnum og þjóð fram hjá Alþ. með tilskipunum. Brbl.-heimildin er af hálfu stjórnvalda ýmist notuð sem varnagli við óvönduðum málatilbúnaði á þingi, til þess að fresta aðgerðum í viðkvæmum málum fram yfir þinglok ellegar, eins og í þessu tilvíki sem hér um ræðir, til þess að setja hrein þrælalög sem stjórnvöld óttast að þau fái ekki í gegnum Alþ. nema Alþ. sé sett upp að vegg og látið standa frammi fyrir gerðum hlut.

En nú kastar þó fyrst tólfunum. Það er ekki aðeins að ríkisstj. misnoti brbl: heimild stjórnarskrárinnar til þess að taka fram fyrir hendurnar á stéttarfélögum sjómanna við frjálsa samningagerð, heldur gerir hún sér jafnframt lítið fyrir og afnemur rétt sjómanna til vinnustöðvunar sjálfan grundvallarrétt frjálsrar verkalýðshreyfingar, undirstöðu mannréttinda verkafólks í þessu landi. Þessa tilskipun gefur hæstv. ríkisstj. út þótt engin verkföll hafi verið boðuð, engin verkfallsboðun hafi verið til umr. og engin merki komið fram um að sjómenn hafi svo mikið sem verið að hugleiða þau mál.

Ýmsar afsakanir hafa verið færðar fram fyrir brbl. sumra annarra ríkisstj., en fyrir slíkri aðgerð er engin afsökun til. Það bar enga nauðsyn, hvað þá heldur brýna nauðsyn til að setja slík lög. Þau eru í andstöðu við allan anda stjórnarskrárinnar, í andstöðu við allt orðalag 28. gr. stjórnarskrárinnar um brbl. og í andstöðu við réttlætiskennd hvers hugsandi manns í þessu landi. Slík lög eru þrælal. og eiga sér hvergi hlíðstæðu nema í þeim löndum nasista, fasista og kommúnista þar sem verkföll eru bönnuð í eitt skipti fyrir öll. Undir slíkum aðgerðum mega menn ekki sitja, enda hefur það ekki verið gert.

Staðreyndin er sú, að þrátt fyrir það að hæstv. ríkisstj. hafi með þessum hætti reynt að svipta samtök sjómanna grundvallarréttindum sínum, hafa sjómenn sjálfir lagt til atlögu við ákvæði laganna og orðið verulega ágengt. Í kjördæmi hæstv. sjútvrh. neituðu línusjómenn að láta skrá sig á haustvertíð skv. ákvæðum þessara brbl., og þótt allt hafi verið reynt að gera af hálfu stjórnvalda til að hefta baráttu þeirra og hneppa þá í fjötra er málum nú svo komið, að á fjölmörgum stöðum þar vestra hefur náðst samkomulag milli sjómannanna sjálfra og útgerðarmanna um mun hagstæðari skiptaprósentu en þau 28.2%, sem hæstv. sjútvrh. af rausn sinni úthlutaði þeim. Á Ísafirði hefur einn útgerðarmaður þannig nú þegar samíð við áhöfn sína um 32% skiptaprósentu. Á Flateyri, Þingeyri og Súgandafirði eru róðrar hafnir upp á 30%. Á Patreksfirði hefur verið gerður sérstakur samningur við landmenn sem gefur þeim allt að tvöfaldri kauptryggingu, en þar er málum þannig varið að þar róa sjómenn frá einni og sömu verstöð út á mismunandi hlutaskipti. Þannig hafa lögin í raun og veru verið gerð ómerk áður en til þess kom að leggja brbl. fram til staðfestingar hér á Alþingi.

Jafnvel sú tylliástæða hæstv. sjútvrh. að með þessari brbl.-setningu væri stefnt að því að allir sjómenn væru settir við sama borð hvað samningamál snertir, með því að afnema með valdboði sérsamninga félag a, jafnvel þessi tylliástæða er fallin um sjálfa sig. Eftir stendur aðeins það að knýja Alþ. til þess að samþ. valdbeitinguna sjálfa, til þess að skrifa upp á þær aðfarir sem hæstv. ríkisstj. hefur talið sér sæma að beita í þessu máli, til þess að veita hæstv. sjútvrh. það siðferðisvottorð, sem hann telur sig svo sárlega skorta. Ef Alþ. gerir það, þá er ekki aðeins verið að útkljá þetta eina mál, heldur jafnframt verið að skapa fordæmi fyrir þær ríkisstj., bæði þá, sem nú situr, og þær, sem á eftir eiga að koma, — fordæmi sem þær gætu hvenær sem er notað til þess að grípa til slíkra og þvílíkra aðgerða sem hér hefur verið gripið til, ekki bara til þess að fyrirskipa launastéttum landsins hvernig þær skuli útkljá sína samninga, heldur jafnframt til þess að svipta launþega réttindum til þess að bera fyrir sig sitt sterkasta varnar- og sóknarvopn, verkfallsréttinn.

Brbl. eru prófmál, — ekki prófmál um anda þessarar ríkisstj. í garð verkalýðshreyfingarinnar, hann liggur ljós fyrir, ekki prófmál um skilning hæstv. ríkisstj. eða Alþ. á kjaramálum þeirrar stéttar sem lagt hefur grundvöll að velferð og efnalegu sjálfstæði þessa ríkis, heldur prófmál á það, hversu langt fram yfir öll skynsamleg takmörk Alþ. ætlar að heimila framkvæmdavaldinu að ganga, hversu verulega og gróflega Alþ. ætlar að heimila ríkisstj. að misnota vald sitt og sniðganga anda stjórnarskrár og ákvæði stjórnarskrár í baráttu gegn verkafólki. Um er að ræða réttindi sem í réttu lagi ættu að vera bundin í stjórnarskránni sjálfri og þar með ósnertanleg af handhöfum framkvæmdavaldsins. Í þessum brbl. birtist ekki aðeins ásýnd íhaldsstjórnar, heldur bregður jafnframt fyrir í þeim svip harðstjórnar sem ég ætla að fáa hafi órað fyrir að þurfa að horfast í augu við hér uppi á Íslandi.