02.11.1976
Sameinað þing: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ekki skal ég segja um það hvað hefur valdið því að samtök sjómanna hafa valið hv. þm., sem var að ljúka máli sínu, sem sérstakan talsmann sinn. En það getur varla verið nema um tvennt að ræða, að hann er fræg sjónvarpsstjarna, þó einkum á sviði. — Er einhverjum að verða illt þarna uppi? Viljið þið ekki hjálpa manninum út. Ég ætla, herra forseti, ekki að tala ef það eru hér menn uppi sem eru púandi og veinandi, þá geri ég hlé á máli mínu. Ég læt það hér með koma fram, enda á ég síðar eftir að tala við þá pilta. — Þessi þm., sem var að tala áðan, sjónvarpsstjarnan í dómsmálum, er fulltrúi Alþfl. hér á þingi. Það getur vel verið að hann hafi sérstaklega verið valinn af því að hann var fulltrúi Alþfl., því enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur jafnoft gripið inn í kjaramál sjómanna og Alþfl. Jafnvel þó að við legðum saman hve oft aðrir flokkar hafa gripið inn í — (Gripið fram í.) — kjarasamninga, þá hefur Alþfl. vinninginn. Form. Alþfl. er orðinn órór, veslings form. Alþfl. Það er von. Hvar voru mótmæli núv. form. Alþfl. eða form. þingfl. þegar flotinn sigldi í höfn 1965, þegar Alþfl. gaf út lög á sjómenn, þegar allur síldveiðiflotinn sigldi þá í höfn? Hvar var ungi þm. þá með mótmæli sín? Hann var þó kominn úr fermingarbuxunum. (SighB: Hann mótmælti.) Hann mótmælti ekkert. Það heyrðist ekkert í honum. Hann bara klappaði fyrir krötunum af því það voru kratarnir sem gerðu það. Þannig hefur Alþfl. hagað sér á öllum sviðum. (Gripið fram í.) Hver setti 18% ofan á fiskverðið sem ekki kom til skipta til sjómanna? Það var Alþfl. Hann hafði frumkvæði að því. Þannig má lengi halda áfram og sjá svo hræsnina sem lýsir sér í ásjónu þessa manns sem var að tala hér áðan og sjá svo viðkvæmnina sem er núna í form. Alþfl., því hann veit upp á sig skömmina.

Ég vil líka leiðrétta eitt sem þm. sagði. Hann var æfður undir þetta allt í gærkvöldi sem fram kom og þá hefur verið búið að ákveða það að afhenda sjútvrh. þessi mótmæli sem hann m.a. skrifaði undir. En ég hef bara ekki tekið við nokkrum mótmælum og enginn við mig talað. Það hefur því eitthvað breyst hlutverkið sem þm. tók að sér í gærkvöldi og þarna hefur eitthvað skolast til. Það er oft á tíðum þegar æfa á sjónleik, að þá er hann ekki nógu vel æfður, og þannig fór í þetta skipti, að sjónleikurinn var ekki nógu vel æfður og meira að segja sjónvarpsstjarna Alþfl. bilaði í hlutverkinu. Hann náði ekki tökum á hlutverkinu og reyndi hann þó sannarlega, og ekki er hægt að segja að hann sé ekki í æfingu því maðurinn er alltaf að æfa sig hér á Alþ. Mál, sem eru borin upp með þinglegum hætti, komast ekkert áfram fyrir þessum stjörnum.

Hæstv. dómsmrh. lýsti því hér í umr, um dómsmálatill. þessa þm., að þetta væri háttur framagjarnra manna sem vildu komast á skömmum tíma til mikilla áhrifa og þannig hefði McCarthy komist vel áfram í Bandaríkjunum og hefði sennilega komist lengra ef dauðinn hefði ekki sótt hann. Við skulum vona að það eigi ekki eftir að koma fyrir mann á besta aldri, hann geti haldið áfram að leika þetta hlutverk. Það er mikil virðing við Alþ. að hafa þessi vinnubrögð á !

Ég mun ekki frábiðja mér að ræða frv. þegar það kemur til umr. og staðfestingar. Þá mun ég ekki frábiðja mér umr., hvorki frá þessum hv. þm. né öðrum.

En af því að hin svokallaða samstarfsnefnd sjómanna hafði siglt flotanum í höfn í fyrra, þá hafa sumir af þeim forustumönnum trúað því að þeir hafi knúið fram endurskoðun á hinu svokallaða sjóðakerfi. En það er reginmisskilningur. Endurskoðun sjóðakerfisins var í fullum gangi. Það voru samningamenn sjómanna og útvegsmanna sem við lausn kjarasamninga 1975 óskuðu eftir því að þessi endurskoðun færi fram, og ríkisstj. samþ. að þessi endurskoðun færi fram. Mér var falið að skipa þessa n., sem ég gerði, og í þeirri n. áttu sæti fulltrúar sjómanna, bæði undirmanna og yfirmanna, og fulltrúar útgerðarmanna og aðeins einn fulltrúi frá ríkisvaldinu, forstjóri Þjóðhagsstofnunarinnar, sem var form. n. Á bak við starf þessarar n. er mikil vinna sem hvíldi á þessari n. Þetta var vandasamt mál sem væri full ástæða til þess að fara ítarlega út í.

Það fylgdi í kjölfar sjóðabreytingarinnar að samkomulag yrði að nást á milli þessara aðila og það tókst. Allir þessir aðilar eða fulltrúar allra þessara samtaka skrifuðu undir samkomulag til lausnar á sjóðavandamálinu. Forsenda þessa samkomulags var það, að samningar tækjust á milli sjómanna og útvegsmanna og bundnir samningar breyttust einnig í samræmi við það samkomulag sem gert var. Þau brbl., sem nú hafa verið gefin út, eru ekki gefin út til þess að blanda sér í kjara- og samningsrétt sjómanna og útgerðarmanna. Þau eru gefin út til þess að binda enda á þær skuldbindingar sem fulltrúar sjómanna og útvegsmanna gáfu og gerðu með sér við lausn á endurskoðun sjóðakerfisins, og það er það sem á að hafa í huga, en ekki belgja sig hér út eins og þessi hv. þm. gerði áðan. Hér er um að ræða um 4000 millj. kr., sem eru fluttar til í sjávarútvegi og sköpuðu grundvöll að því að það var hægt að hækka fiskverð mjög verulega, svo sem gert var.

Ég vil koma inn á það, hvaða breytingar hafa orðið á fiskverðinu, og fiskverðið hefur fyrst og fremst áhrif á kjör sjómannsins og útgerðarmannsins. Skv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunarinnar var vísitala skiptaverðmætis botnfiskafla 51% hærri í ársbyrjun 1976 en tveimur árum fyrr, humarafla 43% hærri, hörpudiskafla 113% hærri, en hins vegar lækkaði vísitala skiptaverðmætis rækjuafla um 4% og loðnuafla um 16% á þessu tímabili. Ef gert er ráð fyrir því, að veitt hafi verið hlutfallslega jafnmikið að einstökum fisktegundum á tímabilinu frá 1. jan. til 15. febr. 1976 og á sama tíma á árinu 1975, þá hefur vísítala skiptaverðmætis alls afla verið að meðaltali 45% hærri í ársbyrjun 1976 en tveimur árum fyrr. Almennt fiskverð var óbreytt frá janúarbyrjun til ágústloka 1974 þrátt fyrir kjarasamningana í febr., og þá fór enginn af stað með mótmæli og þá var enginn áhugi í Þjóðviljanum fyrir hækkun fiskverðs, þegar það var óbreytt hjá sjómönnum frá jan. til ágústloka, eftir hina almennu og miklu kjarasamninga sem urðu í febr. hjá öðrum aðilum vinnumarkaðarins. Hvar voru þá mótmælin? Hvar var þá hin vakandi sjónvarpsstjarna Alþfl.? Hann sagði ekki orð þá heldur. En síðan hefur fiskverðið hækkað, frá 1. jan., 1. júní og 1. okt. ár hvert.

Við sjóðakerfisbreytinguna 16. febr. 1976 hækkaði fiskverðið verulega. Ef gert er ráð fyrir sömu samsetningu botnfiskafla 1976 og var 1975, þá hefur skiptaverðmæti þess afla hækkað um 33% við sjóðakerfisbreytinguna. Humarverðið hækkaði um 67%, rækjuverð um 38% og verð á hörpudiski um 35%. Eftir sjóðakerfisbreytinguna hefur almennt fiskverð hækkað tvívegis, 1. júlí og 1. okt. Auk þess hækkaði verð á karfa um 46% frá 8. júní á þessu ári og til áramóta. Hafa slíkar verðhækkanir nokkru sinni átt sér stað? Vill einhver benda á það að þær hafi komist nokkuð í námunda við þessar hækkanir? Samtals hefur almennt fiskverð hækkað um 63% frá því fyrir sjóðakerfisbreytingu, miðað við sömu aflasamsetningu 1915 og 1976, og um 146% frá því í ágúst 1974. Humarverðið hefur hækkað á sama tímabili samtals um 87% frá því fyrir sjóðakerfisbreytinguna og um 167% frá því í ágúst 1974. Rækjuverðið hefur hækkað um 90% frá sjóðakerfisbreytingunni, en ekki nema um 82% frá því í ágúst 1974, vegna þess að það lækkaði á einu verðtímabili. Og verð á hörpudiski hefur hækkað um 19% frá því fyrir sjóðakerfisbreytinguna, það hefur lækkað seinni hluta árs, en það hefur hækkað samtals um 154% frá ágúst 1974.

Þetta er þróun mála í fiskverði sjávarútvegsins. Finnst þm. hafa verið gengið á rétt sjómanna og útgerðar á þessu ári? Er þetta það sem sjómenn hafa orð á, sem hafa staðið að þessum undirskriftasöfnunum? Hvað skyldu margir af þeim, sem hata skrifað undir, hafa gert sér grein fyrir þessari þróun mála? Vafalaust ekki ræðumaðurinn sem var að tala hér áðan, hann hefur ekki haft hugmynd um hana.

Eftirfarandi yfirlýsing var gerð og undirrituð af fulltrúum sjómanna og útgerðarmanna: „Aðilar lýsa því hér með yfir að þeir eru samþykkir fram löðum drögum að kjarasamningum aðila. Samningarnir verða undirritaðir þegar ákvörðun um fiskverð frá 15. febr. 1976 liggur fyrir í samræmi við forsendur samningsdraganna.“

Undir þetta rita fyrir hönd Sjómannasambandsins Jón Sigurðsson, Óskar Vigfússon, Guðjón Jónsson, — fyrir hönd Farmanna- og fiskimannasambands Íslands Jónas Þorsteinsson, Ingólfur Ingólfsson, Björn Jónsson, — fyrir hönd Alþýðusambands Austurlands með fyrirvara vegna sérsamninga við viðsemjendur á Austurlandi Sigtryggur Karlsson og fyrir hönd Alþýðusambands Vestfjarða með fyrirvara vegna sérsamninga við Útvegsmannafélag Vestfjarða Pétur Sigurðsson, — og svo fulltrúar Landssambands ísl. útvegsmanna: Kristján Ragnarsson, Ingólfur Arnarson, Einar Kristinsson og fyrir hönd Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda Kristján Ragnarsson.

Þessi yfirlýsing um samningsdrög lá fyrir. Á grundvelli hennar legg í;g fyrir ríkisstj. till. sjóðakerfisnefndar um breytt útflutningsgjald af sjávarafurðum og nýtt frv. til l. um Stofnfjársjóð fiskiskipa. Ríkisstj. samþykkir till sjóðakerfisnefndarinnar efnislega óbreyttar og Alþ. afgreiðir þessi frv. á mettíma, og þau urðu að lögum. Mér var bent á það af allmörgum aðilum: Er ekki vissara að setja inn í þessi lög að þau öðlist ekki gildi nema samkomulag náist um fiskverð og samkomulag náist um nýja kjarasamninga. Sjóðakerfisbreytingin var mikið vandamál og hún var ekki mál sem var leyst með því að berja í borðið. Og ég vissi það, að ef ég setti slík ákvæði inn í frv., þá biðu ákveðnir menn eftir því að losa sig undan samþykktinni og sjóðakerfisbreytingin hefði ekki átt sér stað. Þess vegna gerði ég það ekki. En ég gerði það í trausti þess að aðilar bæði útvegsmanna og sjómanna stæðu við þær skuldbindingar og þá samninga sem þeir höfðu gert og berðust fyrir því í sínum félögum. Því bjóst ég við og trúði. En reynslan hefur orðið allt önnur, og skal ég síðar koma að því.

Ég vil líka nefna hér, til þess að binda þessa aðila eitthvað, að gert var samkomulag svo hljóðandi :

„Sjómannasamband Íslands, Alþýðusamband Vestfjarða, Alþýðusamband Austurlands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands fyrir hönd sjómanna, og Landssamband ísl, útvegsmanna og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda fyrir hönd útvegsmanna gera með sér samkomulag um eftirgreind atriði:

1. Þar sem ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún muni beita sér fyrir setningu laga og reglugerða í samræmi við tillögur og ábendingar tillögunefndar um sjóði sjávarútvegs og hlutaskipti, lýsa aðilar því yfir að þeir muni gera þá samninga sin á milli, sem nú eru lausir, um kjör sjómanna á grundveili tillagna og ábendinga sem fram koma í skýrslu n., dags. 19. jan. 1976.

2. Aðilar lýsa því enn fremur yfir, að þeir muni beita sér fyrir því, að heimildir verði veittar til þess að taka þegar upp samninga á þessum grundvelli um breytingar á þeim kjarasamningum aðila, sem ekki hefur verið sagt upp, með sama hætti og væru þeir lausir.

3. Aðilar þessa samkomulags gera ráð fyrir, að ríkisstj. láti fara fram sérstaka athugun á kjörum áhafna og afkomu útgerðar á stærri togurum (þ.e. 500 brúttólestir og yfir) við þessar breytingar. Athugun þessi verði gerð í samráði við samtök sjómanna og útvegsmanna og fulltrúa þeirra byggðarlaga, sem sérstakra hagsmuna eiga að gæta, með það fyrir augum að tryggja atvinnu sjómanna og rekstur sjávarútvegsfyrirtækja á þessum stöðum, sbr. og bréf sjútvrn. til Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, dags. 3. júlí 1975.“

Undir þessa yfirlýsingu rita f.h. Sjómannasambands Íslands Jón Sigurðsson, f.h. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands Ingólfur Stefánsson, f.h. Alþýðusambands Austurlands Sigfinnur Karlsson, f.h. Alþýðusambands Vestfjarða Pétur Sigurðsson, f.h. Landssambands ísl. útvegsmanna Kristján Ragnarsson og f.h. Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda Ingimar Einarsson.

Fiskverðið er ákveðið og það er ákveðið með fullu samkomulagi á milli allra aðila, alveg eins og var við sjóðakerfisbreytinganna og nýju lögin um útflutningsgjald of Stofnfjársjóð fiskiskipa. En þegar kemur að því að greiða atkv. um þessa samninga, þá eru þeir samþykktir á einum 6 stöðum eða í einum 6 félögum, en viðast hvar eru þeir felldir. á öðrum stöðum koma þeir ekki til atkv., eins og hjá Alþýðusambandi Austurlands. Það gerði þann fyrirvara, að það vildi ná samkomulagi við sína viðsemjendur um sérkröfur, og í þá samninga var ráðist. En á Vestfjörðum hagaði fulltrúi Alþýðusambands Vestfjarða sér nokkuð á aðra lund en fulltrúi Alþýðusambands Austurlands. Hann fór þó í samningsgerð, en þar vestra var aldrei farið í neina samningsgerð, og þar var lengi þrætt fyrir það að vestfirðingar ættu nokkra aðild að þessu samkomulagi. En sjálfur skrifar formaður Alþýðusambands Vestfjarða undir. Svo hef ég heyrt hjá mörgum sjómönnum þar, að hann hafi ekkert umboð haft. En þá hefðu þeir góðu menn og þau félög átt að láta vita að maðurinn, sem er tilnefndur í þessa sjóðanefnd, væri umboðslaus. Þá var ekkert við hann að tala eða með hann að gera.

Hvernig fóru svo þessar atkvgr. fram? Þær fóru fram með þeim hætti, að það voru haldnir fundir í einstökum félögum við mjög litla þátttöku. Það var allt niður í 5 manns sem greiddu atkv. í sumum sjómannafélögum, bæði hjá þeim, sem samþykktu samninga, og eins þeim, sem felldu. Hvað eru svo þrælalög? Eru það þrælalög, er verið að hneppa menn í þrældóm, sem leiðtogar þeirra ganga inn á og telja viðunandi samninga ? Síðan er gert annað samkomulag. Sáttanefndin vann mikið að þessu starfi, og hún þekkir vel til hvernig þetta tókst til. Það er gert annað samkomulag. Það er einnig fellt með líkum hætti. Og sáttanefndin leggur fram till. í júlímánuði í sumar. Sú till. fer undir atkv. í sjómannafélögunum og atkvgr. stendur í heilan mánuð, svo að ekki var nú verið að ýta neitt við mönnum að flýta sér. Og hvernig haldið þið að þátttakan hafi verið í þeirri atkvgr.? Hún var á þann veg, að greidd atkv. reyndust 274 og miðlunartill. sáttanefndarinnar var felld með 140:122 atkv. Munurinn var nú ekki meiri en það. Auðir seðlar voru 7 og 5 ógildir. Ekki voru þeir sjómenn á einu máli sem tóku þátt í þessari atkvgr., að hér væri um þrælasamninga að ræða. En hvernig var svo þátttakan í þessu? Í Sjómannafélagi Reykjavikur greiddu 18 atkv., í Aftureldingu, Hellissandi, 12, í Jökli, Ólafsvík, 9, Stjörnunni í Grundarfirði 25, Verkalýðsfélagi Stykkishólms 26, Fram á Sauðárkróki 17, Ársæl á Hofsósi 4, Vöku á Siglufirði 11, Sjómannafélagi Eyjafjarðar 46, Jökli í Hornafirði 13, Verkalýðsog sjómannafélagi Miðneshrepps, Verkalýðs- og sjómannafélagi Gerðahrepps 5, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur 19, Vélstjórafélagi Suðurnesja 36 og Sjómannafélagi Hafnarfjarðar 21. Þá var ekki verið að ýta við sjómönnum að nota samningsrétt sinn, nota rétt sinn til þess að greiða atkv. Þá fóru engar undirskriftasafnanir í gang sem allir unnu kauplaust að, eins og var sagt áðan, og sennilega líka á hinni opnu skrifstofu sem var sett í gang. Það var ekki meiri áhugi fyrir því hjá sjómönnum, þegar var verið að greiða atkv. um löglegar sáttatill., þá er þetta útkoman eftir mánaðaratkvgr. Það er af einhverju að státa. Það er betur mætt hér nú í dag heldur en var við atkvgr. um alvarlegt málefni. Þetta er veikleikamerki sjómannasamtakanna, og það er þetta veikleikamerki sem þau verða að styrkja, en ekki með þeim hætti sem er verið að gera núna. Með þessum brbl. er fyrst og fremst verið að binda endi á þá samninga sem gerðir voru og við átti að standa.

Þessi brbl. eru þau mildustu lög sem hafa verið gerð í sambandi við lausn kjarasamninga. Þau segja til um það, að samningsaðilum er heimilt að koma sér saman um breytingar á þar greindum samningum. En það má ekki knýja þær breytingar fram með vinnustöðvun, það er rétt.

Í 1. gr. þessara brbl. segir að fyrir þau félög sjómanna, sem ekki áttu neina aðild að samningum þessum, skuli þau einnig ákveða kaup og kjör eftir því sem við getur átt og með þeim hætti sem tíðkast hefur. Þá þýðir það í túlkun, að þar sem samningar voru betri eða hærri skiptaprósenta en það, sem samið var um, þar hélst það bil áfram. Þetta ákvæði ræddi ég við lögfræðinga í sjútvrn., við lögfræðinga sem eru sérstaklega kunnugir vinnumálalöggjöfinni og þ. á m. við einn fyrrv. alþm., Jón Þorsteinsson, sem er mjög hæfur lögfræðingur á þessu sviði, og allir voru sammála um að þetta atriði væri túlkunaratriði og ef ekki væri farið eftir því í framkvæmd, þá væri hægt að koma í veg fyrir að útgerðarmenn notuðu sér það að minnka þetta bil.

Enn þá heldur þessi hv. þm. því fram, eins og þverhausarnir á Þjóðviljanum sem eru „massífir“ fyrir allri skynsemi, að brbl. hafi verið brotin niður með samningunum á Vestfjörðum. Þótt engin brbl. hefðu verið gefin út, þá var deilan um línuna á Vestfjörðum fyrir. Hún var búin að vera löngu, löngu fyrir þann tíma. Hún var allan fyrravetur, þessi deila og þessi mikla óánægja með skiptakjörin þar. Og þeir, sem riðu á vaðið í þeim efnum, voru útgerðarmenn í Súgandafirði sem buðu sjómönnum 29.2%. En til þess að leysa deiluna greiða fiskkaupendur, hraðfrystihúsið á staðnum, 0.8% þannig að línusjómenn fá 30% skiptaverðmæti. Ég fyrir mitt leyti fagnaði þessari lausn. Ég hefði vitaskuld heldur viljað að Útvegsmannafélag Vestfjarða og Alþýðusamband Vestfjarða hefðu mannað sig upp í að gera slíkt samkomulag, en það gerðu þeir ekki og þar ætla ég ekki að kenna öðrum aðilanum og hvítþvo hinn. Það dettur mér ekki í hug að gera. En þetta varð til þess að brjóta ísinn, og ég tel ekkert of mikið fyrir sjómenn á línubátunum að hafa 30%. Það hef ég sagt áður og get endurtekið það nú. Hins vegar ætla ég að bæta því við, að sjómenn almennt á hinum minni skuttogurum þurfa ekkert að kvarta, síður en svo, eftir þær miklu fiskverðshækkanir sem átt hafa sér stað. Það er ósanngirni ef þeir kvarta yfir þeim breytingum sem hafa orðið á þessu ári. En það eru til staðir og það er til víss tegund útgerðar sem má gjarnan hafa það betra en hún hefur, það er rétt.

Ég fullyrði það, að þetta ár hefur fært sjómönnum meiri og stærri tekjuhækkun en mörg árin á undan. Og þar er ólíku saman að jafna eða var eftir hinar almennu launahækkanir sem urðu í ársbyrjun 1974, þegar fiskverðið var svo óbreytt til ágústloka, og þá sagði enginn neitt. En nokkrir menn, sem störfuðu í hinni svokölluðu samstarfsnefnd sjómanna, hafa ekki lagt sig fram um að ná samningum, því að þeir reyndu sannarlega að koma í veg fyrir það samkomulag, sumir hverjir, sem náðist á milli sjómanna og útgerðarmanna, og þeir eiga ekki neinar þakkir skildar fyrir þá breytingu sem orðin er á sjóðakerfinu. Það var þeirra áhugamál að minnka sjóðakerfið, en þeir fóru bara ekki rétt að við þá vinnu og þeir hafa ekki farið rétt að enn þá.

Nú spyr ég lýðræðisjafnaðarmanninn: Telur hann það réttlátt við þessa kerfisbreytingu að þeir, sem hafa skrifað undir samninga og taka á sig hluta af þessari kerfisbreytingu, eigi einir að taka hana á sig, en hinir, sem hafa neitað samningum, eigi að njóta 33% fiskverðshækkunar vegna þessarar sjóðakerfisbreytingar og láta ekkert í staðinn? Er þetta hin sanna jafnaðarmennska sem viðkomandi er að berjast fyrir? Er það ekki líka furðulegt með fólk, sem skrifar sennilega undir þessa lista á stöðum sem hafa gert samninga og eru bundnir fram til 15. maí í vor, að með brbl. er verið að bæta kjör sjómanna á þessum stöðum, því að sáttatill. frá því í júlí er lögfest og bundnir samningar þeirra eru opnaðir á þann hátt að sjómenn fá betri kjör og meiri fríðindi. Það er hlægilegt að lesa svo mótmæli frá þessum stöðum við því að það sé verið að bæta kjörin á þessum stöðum. Ég tel það grátlegt af því fólki sem hefur látið hafa sig til þess að skrifa undir slík mótmæli.

Það var maður einn í New York sem veðjaði við vini sína um það, að hann skyldi klára að fá 2000 undirskriftir á tveimur dögum undir hvað sem væri. Hann setti á hausinn á blaðinu að sá, sem skrifaði undir viðurkenndi að hafa drepíð ömmu sína. Og hann fékk undirskriftirnar á tilteknum tíma. Menn spyrja oft ekki um það hvað þeir eru að skrifa undir, hvað þá heldur að þeir hugsi ítarlega um það hvaða afstöðu þeir taka til mála. Það er helst að menn hika við ef þeir eru beðnir að skrifa á víxla. En undir mótmæli eru íslendingar alltaf reiðubúnir að skrifa og flestar aðrar þjóðir, því að það er orðið móðins að skrifa undir mótmæli. Ef stjórnvöld í landinu, hvort sem það er þessi ríkisstj. eða önnur, ætla ekki að gera nokkurn skapaðan hlut ef einhverju er mótmælt, þá verður að loka öllu, því að ég veit ekki til þess að séu ekki mótmæli út af öllu sem verið er að taka ákvarðanir um. Það er ekki í kjaramálum einum, það er alveg sama hvað er. (MK: Er ráðh. að hugsa um undirskriftir Varins lands?) Nei, nei, — nú er kominn tími fyrir mig að svara, því að nú eru aðdáendurnir, leiksýningin, „prufan“, sem fór fram í gærkvöldi, búin að svara gamla leikstjóranum. Mér var hugsað til allra undirskrifta sem vaðið er með og fólk skrifar undir, hvort sem það hefur meiningu eða ekki. Þó held ég að flestir eða allir þeir, sem skrifuðu undir þessa undirskriftasöfnun Varins lands, hafi vel vitað hvað þeir voru að gera, því að þeir fylgdust vel með þeim málum. En það þori ég að fullyrða, að það eru ekki 10% af því fólki sem skrifar undir þetta sem hefur gert sér grein fyrir því, að þetta er framhald af sjóðakerfisbreytingunni, þetta er framhald af fiskverðshækkuninni sem varð og síðan skuldbindingu að ganga frá kjarasamningum. Því hefur ekki verið sagt, þessu fólki, frá því þegar hefur verið farið með þessa lista.

En hvernig er verið að fara með verkfallsréttinn? Hvað er verið að gera í þeim efnum? Hvað er þessi réttur dýrmætur fólki sem vill ekki nota sér hann? Hvers virði er hann? Af hverju gufar verkfallið upp? Hvenær hefur það þekkst í verkalýðsbaráttunni að þegar samningum er hafnað og menn greiða atkv. á móti samningum í Reykjavík, þá fara þeir í aðra verstöð, þar sem samningarnir eru samþykktir, og ráða sig þar á bát, eins og loðnuskipin. Þetta gerðist í vetur. Sjómenn vita eins og aðrir að þetta var gert. Og af hverju fara þá þessi skip út? Verkfallinu er frestað vegna þess að verkalýðsfélögin og sjómannaleiðtogarnir réðu ekki við neitt. Svo á bara að halda áfram í illindum. Einstaka menn eiga að standa í baráttu við sína útgerðarmenn um það eftir hvaða kaupi á að greiða. Það á að ýta undir úlfúð og illindi innan þessarar atvinnugreinar. Ég tel enga ástæðu til þess. Þeir eiga fyrst og fremst að semja og þeir eiga að standa við orð sín, sem lofuðu og skrifuðu undir yfirlýsingar að bera þessa samninga upp, en það hafa þeir ekki gert, a.m.k, ekki allir, eins og ég hef komið hér áður inn á.

Ég endurtek það, að þessi brbl. eru gefin út af illri nauðsyn, eins og ávallt þegar þarf að gripa inn í kaup- og kjarasamninga. En þau eru með eins mildum hætti og hægt var að hafa þau, og jafnframt er nú ekki gripið til aðgerða stjórnvalda fyrr en 7 mánuðum eftir að samningar voru undirritaðir á öðrum stöðum. Það er nú harðneskjan og það er nú gangurinn sem hefur verið hjá mér. Ef það mætti gagnrýna mig fyrir eitthvað í þessu, þá er það hversu lengi ég beið með að gefa þessi brbl. út. Og ríkisstj. féllst á það og þetta eru auðvitað brbl. hæstv. ríkisstj., því að enginn einn ráðh. gefur þau út á eigin ábyrgð. Það var mat mitt, það var mat ríkisstj., að hjá þessu yrði ekki komist lengur. Og þess vegna voru þau gefin út, til þess að binda endi á það leiðindaástand sem hefur verið í þessum efnum.

Hvaða ríkisstj. er það sem hefur ekki orðið að gripa á einhvern hátt inn í kaup- og kjaramál? Gaf ekki fyrrv. ríkisstj. út lög í þeim efnum á sjómenn, á yfirmenn á fiskiskipaflotanum? Hvað heyrðist þá? Hvað komu þá margir kassar af mótmælum? Nei, þá var ekki vaknað. Það, sem er á bak við þetta, er að hér er verið að fullkomna skrípaleik. Það er ekki reynt að standa við orð sín, við gefin fyrirheit, reynt að vinna að því innan félaganna að afgreiða samninga með eðlilegum hætti, heldur er blásið í lúðra og pólitísku moldviðri þyrlað upp af kommúnistum og fylgifiskum þeirra í krataflokknum sem vilja nota þetta til þess að kynda undir elda óánægju og sundrungar meðal þjóðarinnar.

Það er Alþingis að dæma um þessi lög, og ég skal lofa hv. þm. því að mæla fyrir þessu frv. í Ed. sem allra fyrst, og ég treysti að Ed. reyni þá að afgreiða það á skömmum tíma svo að þm. komist aftur að með álika ræðu og áðan.