02.11.1976
Sameinað þing: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að láta í ljós mjög eindregna undrun mína yfir viðbrögðum hæstv. sjútvrh. við ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar hér í upphafi þessa fundar. Vægast sagt var allt upphaf ræðu hans strákslegt og ekki sæmandi manni í hans stöðu, og ég vil segja til viðbótar: ræða hans var í raun og veru blettur á Alþ. Þannig á ekki að bregðast við málefnalegri ræðu eins og þeirri sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hóf þennan fund með samkv. beiðni n. sem er forustuaðili í 12 500 manna samtökum. Það var ekkert í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar sem gaf tilefni til hinna ósæmilegu, strákslegu viðbragða hæstv. sjútvrh.

Hann byrjaði ræðu sína með persónulegum skætingi í garð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Hvað eftir annað kallaði hann hann sjónvarpsstjörnu, og var auðsjáanlega meiningin að gera þetta í óvirðingarskyni við hv. þm. Það er ekki mjög langt síðan við sjónvarpsáhorfendur fengum að sjá framan í hæstv. sjútvrh. í sjónvarpinu Hvað skyldi hæstv. ráðh. og hvað skyldi okkar ágæti og hlutlausi forseti hafa sagt, ef daginn eftir hefði einhver þm. komið hér upp og sagt að í gærkvöldi hefði í gervi sjútvrh. birst sjónvarpstungl í sjónvarpinu? Og hvað skyldi hann hafa sagt ef hann hefði bætt við: þetta var hálft tungl, eða hann hefði sagt: þetta var minnkandi tungl? Ég er hræddur um að það hefði ekki þótt sæmandi orðbragð, enda hefði það ekki verið það. Ég mundi aldrei né hef endað nokkra ræðu á slíku tali eins og hæstv. ráðh. leyfði sér í ræðu sinni áðan.

Þá verð ég að segja það, að ég kann ekki heldur við það orðbragð af hálfu ráðh. í íslenskri ríkisstj., að hann kalli blaðamenn við ákveðið stórt dagblað úti í bæ, sem auk þess á stórafmæli um þessar mundir, — kalli þá þverhausa einu nafni. Það vita bæði guð og menn, að ég er ekki skoðanabróðir þeirra sem skrifa í Þjóðviljann. En slíkt mundi ég aldrei láta mér detta í hug að segja úr ræðustól á Alþ. Ég mundi ekki einu sinni láta það fljóta úr penna mínum í stórdeilu við þá í mínu eigin blaði, hvað þá heldur að ég telji sæmandi að tala svona á sjálfu Alþingi.

Nei, því miður var ill hin fyrsta ganga ráðh. upp í þennan ræðustól áðan. Hún var ill. En framhaldið var svo sem ekki betra. Hvað var það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði í hóflegri, rökfastri og stillilegri ræðu sinni hér áðan? Hann gerði það eitt að flytja þingi og þjóð það sem 12 500 launþegar í landinu hafa lýst yfir sem skoðun sinni. Þeir höfðu beðið hann um að koma þessu á framfæri við þing og um leið við þjóð, — og hvað var sjálfsagðara en hann yrði við þessari beiðni, og hvaða ástæða er þá til svo hvatskeytlegra og strákslegra viðbragða sem hæstv. ráðh, sýndi af sér? Mér þykir satt að segja miður að allur sá mikli fjöldi áheyrenda, sem hér er staddur í húsi í dag vegna áhuga síns á þessu máli, skuli verða vitni að slíkum viðbrögðum af hálfu ráðh. í íslenskri ríkisstj. Ég segi þetta ekki af neinni sérstakri samúð með honum, hann á hana ekki skilið, heldur segi ég þetta af umhyggju fyrir virðingu Alþ., og það er mergurinn málsins.

En svo ég geri efni málsins með örfáum orðum að umtalsefni. Vegna þess að hæstv. ráðh ræddi rækilega um efni málsins vil ég minna á hvað stjórnarskráin sjálf segir um útgáfu brbl. Fram hjá því hefur hann hingað til gengið bæði í útvarpi og sjónvarpi og í ræðu sinni hér áðan. Í 28. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar brýna nauðsyn ber til getur forsetinn gefið út brbl. milli þinga Ekki mega þau þó ríða í bága við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir næsta Alþ. á eftir.“

Svo mörg eru þau orð sjálfrar stjórnarskrárinnar. Brbl. eru í fjórum gr. Það, sem hæstv. ráðh hefur jafnan gert að umtalsefni og var efni hinnar löngu ræðu hans áðan, var inntakið í 1. gr. Hann nefndi ekki 2. gr. og hefur, að því er ég best veit. ég hef ekki heyrt hvert einasta orð sem hann hefur um málið sagt og má það eflaust einu gilda. — en ég hef heyrt það sem hann hefur sagt um þetta og mestu máli skiptir, og þar hefur hann aldrei nefnt 2. gr. frv. En með leyfi hæstv. forseta — hvernig hljóðar upphaf hennar?:

„Verkbönn og verkföll. þ. á m. samúðarverkföll, eða aðrar aðgerðir í því skyni að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða eru óheimil.“

M.ö.o.: hér er í 2. gr. lagt blátt bann við verkföllum og verkbönnum. Þetta er gert í formi brbl. Hver voru verkföllin sem verið er að banna með þessari 2 gr.? Hver voru þau? Þan voru engin. Það var ekkert verkfall í gangi og engu verkfalli hafði verið hótað. Það er af þess um sökum sem full ástæða er til þess að spyrja þeirrar spurningar, hvort þessi 2. gr. brbl. sé ekki beint brot á stjórnarskránni. Það er ekki heimilt samkv. skýlausu orðalagi stjórnarskrárinnar að gefa út brbl.; í þessu tilfelli að banna verkföll, nema brýna nauðsyn beri til. Hvernig getur brýna nauðsyn borið til að banna verkföll þegar ekkert verkfall er í gangi? Það þarf ekki nema venjulega skynsemi til þess að sjá að þetta er rétt röksemdafærsla. Ég harma mjög að hæstv. sjútvrh, og hans ráðunautar skuli ekki hafa haft þessa einföldu, venjulegu skynsemi, en hana hefur auðsjáanlega skort.

En þetta er í raun og veru ekkert gamanmál. Þetta er stóralvarlegt mál. Ég man ekki eftir því áður, ég held að mér sé óhætt að fullyrða það, hef raunar borið það undir ýmsa reynda þm. og lögfræðinga hvort þeir muni eftir því að nokkurn tíma áður hafi verið gefin út brbl. eða sett lög um bann gegn verkfalli og verkbanni eða um gerðardóm nema um verkfall eða verkbann hafi verið að ræða og þess vegna verið talin brýn nauðsyn á því að leysa verkfallið eða verkbannið með lögum eða jafnvel með brbl. Enginn þeirra minnist fordæmis. Þetta er í fyrsta skipti sem gefin eru út brbl. um bann gegn verkfalli meðan um ekkert verkfall er að ræða. Þennan stein, þennan minnisvarða hefur hæstv. núv. sjútvrh. reist sér. Það skyldi nú ekki vera að hann ætti eftir að reynast myllusteinn um hálsinn á honum?

Hér er m.ö.o. um það að ræða, að það vaknar sú spurning, - ég dreg ekki í efa að hann hafði heimild til að gefa út 1. gr., 3. gr. og 4. gr., sérstaklega þá gr., að lög þessi skuli falla úr gildi á sínum tíma, — en ég dreg stórlega í efa lögformlega heimild hans til þess að gefa út 2. gr. Ef svo kynni að reynast að sú gr. fengi ekki staðist samkv. stjórnarskránni, þá ber hæstv. forseta Ed. að vísa málinu frá. Í því eina fræðiriti, sem til er um starfshætti Alþingis, riti dr. Bjarna Benediktssonar um deildir Alþingis, túlkar hann atriði stjórnarskrárinnar um þetta og hliðstæð efni þannig, að ef lagt sé fram frv. sem hrjóti í bága við stjórnarskrána, þá beri forseta d. að vísa því frá. Og nú vildi ég að gefnu þessu tilefni beina því til hæstv. forseta Ed., sem er löglærður maður og ágætur lögfræðingur og ég veit mjög samviskusamur sem forseti, beina því til hans að athuga í samráði við aðra löglærða menn hvort þetta sé rétt athugað, skoða þetta mál, hvort 2. gr. geti samrýmst stjórnarskránni og hvort honum beri ekki að vísa því frá vegna þess að hún samrýmist ekki stjórnarskránni. Þetta vænti ég að verði athugað áður en — málið verður tekið á dagskrá í hv. Ed.

Þá skal ég víkja örfáum orðum að samanburði þeim sem hæstv. ráðh. gerði á þessum lögum sínum og brbl. Emils Jónssonar á sínum tíma, sem sett voru vegna hinnar þjóðfrægu síldveiðideilu. Hæstv. ráðh. lét sér sæma sérstakan skæting í garð Alþfl., og það er auðvitað af þeim sökum sem ég e.t.v. er hvassyrtari en ég er vanur að vera þegar ég á orðaskipti við hæstv. ráðh. Það var hann sem hóf leikinn. Þegar þau lög voru sett af viðreisnarstjórninni svonefndu á sínum tíma, brbl., þá voru aðstæður þær að skipstjórar síldveiðiflotans höfðu tekið ákvörðun um að sigla honum í höfn. M.ö.o.: þeir höfðu tekið ákvörðun um veiðibann. Síldveiðar voru stöðvaðar. Það var þetta sem varð tilefni þess að það kom til umr. í ríkisstj. að leysa þessa deilu sem auðvitað var að skapa fullkomið neyðarástand, ekki aðeins í sjávarútveginum, heldur í þjóðarbúskapnum öllum. Þarna var um neyðarástand að ræða. Þarna var um brýna nauðsyn að ræða til einhverra aðgerða, hverjar svo sem þær væru. Þarna var einmitt um það tilvik að ræða sem sú grein í stjórnarskránni, sem ég las áðan, á við. Sú gr. er í stjórnarskránni til þess að gera réttum stjórnvöldum kleift að grípa til ráðstafana þegar brýna nauðsyn ber til, þegar um neyðarástand er að ræða. Það leikur því ekki hinn minnsti vafi á því að Emil Jónsson, sem þá var sjútvrh., hafði stjórnarfarslega heimild til þess að gefa út brbl. Engu að síður er mér það engin launung, og það er alveg ástæðulaust að draga nokkra fjöður yfir það, að um þessi brbl. varð mikill ágreiningur í þingflokki Alþfl., í miðstjórn Alþfl. og meðal alþfl-manna yfir höfuð að tala. Og ég skal gjarnan staðfesta að það er rétt, sem hv, þm. Sighvatur Björgvinsson kallaði fram í ræðu hér áðan, að hann var brbl. andvígur. Það var okkur öllum í þingflokknum kunnugt. Ég var þeim hins vegar fylgjandi . Ég var einn af þremur Alþýðuflokksráðh. í stjórninni og ég studdi minn flokksbróður í útgæfu brbl. Það gerði meiri hl. þingflokksins og það gerði meiri hl. flokkstjórnarinnar. Hann hafði ekki að eins stjórnarfarslegan rétt, hann hafði flokkslegan rétt til þess að gera það. Allir ráðh. ríkisstj. á bak við sig í því efni. En ákvörðun var tekin eftir langar og miklar umr. í þingflokknum og flokkstjórn Alþfl. Þó að meiri hl. félli svona — hann var mjög naumur í flokksstjórninni, stuðningurinn sem brbl. fengu segi ég það enn, að ég studdi þau með góðri samvisku og tel útgáfu þeirra. Þegar öllu er á botninn hvolft, hafa leyst mikinn vanda.

Mergurinn málsins er sá, að það er bókstaflega ekkert sameiginlegt með því neyðarástandi, sem þá hafði skapast, og því ástandi sem ríkir þegar hæstv. núv. sjútvrh. gefur út þessi margfrægu brbl. sín Það var enginn vandi á ferðinni, a.m.k. ekki á því sviði sem 2. gr. fjallar um.Það hlýtur að teljast algjörlega óumdeilanlegt. Það var enginn verkfalls- eða verkbannsvandi á ferðinni, 2. gr er þess vegna algjörlega óviðunandi. Það er hún auðvitað fyrst og fremst sem er bein árás eða beint hnefahögg á samningsrétt verkalýðsfélaganna í landinu. Og ég endurtek, að þetta er einsdæmi. Þetta hafði ég að segja um efni málsins.

Ég held að ég ljúki máli mínu með því að leiðrétta hæstv. ráðh. í því eina sem var skemmtilegt í hans ræðu. Það var því miður ekki rétt með farið. Það var sagan sem hann sagði um að einhver maður í New York hefði sagst geta safnað 2000 undirskriftum undir skjal þess efnis að undirskrifendur hefðu drepið ömmu sína. Við sem erum sæmilega að okkur í aðþjóðlegum skopsögum á vettvangi stjórnmála, við vitum að þessi saga er öðruvísi, hann kann hana ekki. En rétt er sagan þannig, að Roosevelt Bandaríkjaforseti gerði einu sinni að gamni sínu í geysilega fjölmennu hanastélsveislu, þegar menn gengu fram hjá honum í löngum röðum og réttu honum höndina og sögðu eitthvað sem enginn heyrði vegna hávaðans í kringum hann, að þá spurði hann þessarar spurningar þá sem heilsuðu honum: Hefur þú drepið ömmu þína? Og menn sögðu já með mikilli ánægju, svar frá miklum fjölda manna Seinna sagði hann þessa sögu margoft sem dæmi um það hvað hægt væri að láta menn játa mikilli vitleysu í kokkteilboðum, — en auðvitað í stærra kokkteilboði en því sem ráðh. hélt um daginn. Það hefði ekkert þýtt fyrir hann að ætla að fara að nota slíkt við þá örfáu menn sem þangað komu. En það má segja að þetta sé aukaatriði. Sannleiksást mín er svo mikil að ég kann ekki við að láta það standa í þskj. að ráðh. kunni ekki að segja sögu sem ég held að þúsundir manna um allan heim kunni.

En fyrst hann hafði þetta orðalag, fyrst hann valdi heldur ósmekklega dæmisögu, að því er mér finnst, þar sem textinn er um að drepa ömmu sína, með undirskrift, sem er rangt í sögunni, þá verð ég bara að segja: það skyldi nú ekki vera að hann hafi sjálfur kveðið unn dauðadóminn yfir sér sem ráðh. með undirskrift sinni undir brbl.? Það skyldi nú vera.

En síðustu orð mín skulu vera þessi: Ég harma þau viðbrögð sem ráðh. auðsýndi við hóflegri, réttmætri og sanngjarnri ræðu sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti fyrir hönd þúsunda manna í landinu. Það er ekki ráðh. til sóma að bregðast þannig við málefnalegum málflutningi. Ég vil helst fá leyfi til að trúa því þrátt fyrir allt að viðbrögð ráðh. hafi verið svona vegna þess að hann hafi vonda samvisku. Ég vil a.m.k. heldur trúa því, að þau hafi verið svona vegna vondrar samvisku, heldur en hins að hann sé samviskulaus.