02.11.1976
Sameinað þing: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir skemmtunina. Það er ekki á hverjum degi sem maður fær svona skemmtikrafta hér á Alþ. eins og hann. En varðandi söguna, þá heyrir maður ótal útgáfur af gamansögum. Það þarf ekki endilega að kenna þær við einhvern krata. Það eru til margar útgáfur. Ég hef heyrt svipaðar útgáfur og lesið 4–5 útgáfur sem ég gæti sagt, en ég tel það ekki vera neitt höfuðatriði hérna á Alþ. Þetta var sagt í gamni og ekki á neinn annan hátt.

Ég held að það hafi skolast alvarlega til í höfðinu á hv. 9. þm Reykv. þegar hann skýrði frá brbl. sem Emil Jónsson gaf út 24. júní 1965 um verðjöfnunarsjóð síldveiða á því ári. Þessi lög voru gefin út, og þegar þau voru gefin út ákváðu síldveiðiskipstjórar og síldveiðisjómenn að sigla flotanum í höfn, vegna útgáfu laganna. Vegna þess að þeir vildu ekki fá þennan verðjöfnunarflutningssjóð síldveiða. Þetta var út af hættu sem þá var talin á að síldarsöltun fengi ekki nóg hráefni því menn kepptust við að veiða, eins og gert var á þeim árum og oft áður“, svo að þarna hefur sagnfræðinni skolast mjög til og það er miklu alvarlegra heldur en gamansagan.

Hv. þm., sami þm., sagði að ég hefði ekki minnst á 2. gr. Það getur vel verið að hann hafi verið í einhverju uppnámi eftir að ég skensaði flokksbróður hans með því að kalla hann sjónvarpsstjörnu. Það var mikið skens, ég biðst innilega afsökunar á því. Ég ætlaði alls ekki að skensa sjónvarpsstjörnuna. Ég hélt að það væri ekki nein óvirðing í því að vera sjónvarpsstjarna. En maður verður að passa sig. Ef það er orðið svona viðkvæmt mál í Alþfl. að nefna sjónvarpsstjörnu, þá verðum við að hætta því, því við viljum ekki vera að hrella þessa fáu krata, sem enn þá eru hér innan dyra, meira en þörf krefur. Ég skal því hér eftir reyna að sleppa alveg þessu orði og gleðja formann þingflokks Alþfl. með því og hans fósturson.

Ég nefndi 2. gr., ég nefndi hana og las meira að segja upp úr henni: „Þó er samningsaðilum sbr. 1. gr., heimilt að koma sér saman um breytingar á þar greindum samningum, en eigi má knýja þær breytingar fram með vinnustöðvun.“ Þetta las ég upp úr 2. gr.

Það er sá munurinn á stjórnlagafræði hv. 5. þm. Vestf. og síðasta ræðumanns, að sá fyrri taldi að lögin öll, allar greinarnar, væru brot á stjórnarskránni, en sá síðarnefndi, prófessorinn, taldi bara 2. gr. brot á stjórnarskránni, en hinar væri í lagi að setja. Ég læt mér í léttu rúmi liggja þessar lagatúlkanir þeirra, þessara tveggja lögfróðu manna. 5. þm. Vestf. var ekkert að klípa utan af sínum fullyrðingum í lögfræðinni, enda mega sennilega allir lögfræðingar hér inni skammast sín þegar hann talar um lögfræði.

En ég vil nú benda hinum gamansama formanni þingflokks Alþfl. á það, að verkföllum hafði ekki verið aflýst, verkföllin bara gufuðu upp í bili. Það var hægt að fara í verkfall hvenær sem var, því þeim hafði aldrei verið aflýst. Verkföll þessi voru löglega boðuð, það var hlé. Þetta vil ég nú benda honum á áður en hann fer lengra í stjórnlagafræðinni. Þó að ég sé ekki lögfræðingur, þá hygg ég að ég sé alveg óhræddur við lagalega túlkun, og bað voru ekki það fáir lögfræðingar sem málið var borið undir, eins og ég sagði áðan, bæði innan og utan rn.

Hv. 2. þm Austurl. átti nú ekki til orð — og kemur það ekki oft fyrir hann að eiga ekki til orð — til að lýsa því hvað þessi brbl. væru svívirðileg árás á samningsrétt sjómanna. Sjálfur stóð hann, þessi maður, að því að gefa út brbl. um kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum, og þar eru lögfestir samningar sem voru í gildi frá 1971. Þau eru gefin út, þessi lög, á árinu 1973, og verkföll og verkbönn, þ. á m. samúðarverkföll, til að knýja fram aðra skipan mála en lög þessi ákveða eru óheimil í lögum þessa ágæta forsvarsmanns verkalýðshreyfingarinnar. Það eru ekki í þessum lögum hans nein ákvæði um að aðilar megi gera samninga, eins og í þessum svívirðilegu brbl., enda fékk hann mikið klapp fyrir og hann var afskaplega ánægður. Þetta eru lög nr. 6 frá 1973. Hann stóð einnig, ekki að lögum sem voru sett hér á Alþ., heldur að brbl. þar sem segir að almennt fiskverð skuli haldast óbreytt til 31. ágúst 1974 eins og það var ákveðið um áramótin 1973–1974. Það er óhreytt verðlag á fiski frá 1. jan. til ágústloka í þeirri mestu verðbólgu sem riðið hefur yfir — og er þá mikið sagt — á þessum mánuðum og eftir þær gífurlegu kaup- og kjarabætur sem aðrar stéttir fengu í byrjun þess árs. Þar stóð þessi hv. þm. að, og meira að segja stóðu Samtökin, a.m.k. 3. landsk. þm., að þeim lögum. Hins vegar held ég að 5. þm. Vestf. hafi þá verið búinn að svíkja ríkisstj. sem þá sat, því hann skrifaði undir vantraust á hana einn daginn og hefur auðvitað þrætt fyrir það síðan. En hann hefur nú þrætt fyrir fleira sem hann hefur haft á orði við menn.

Hv. 2. þm. Austurl. sagði að fiskverð kæmi þessum málum ekkert við, hækkun á fiskverði skipti engu máli, það er alveg laust við sjómenn, hækkun á fiskverði. Ég er hræddur um að það heyrðist eitthvað í sjómönnum og útgerðarmönnum ef við hefðum sett lög eins og hann, að hafa fiskverðið óbreytt allt árið. Þá hefði það skipt máli hjá honum núna þegar hann talaði, þá hefði mátt klappa fyrir honum. En skiptir það ekki máli í samskiptum manna og stétta, þegar verið er að gera veigamiklar breytingar eins og varðandi sjóðakerfið, að þá taki menn á sig þær breytingar? Ef menn vildu ekki sjóðakerfisbreytinguna sem voru með bundna samninga, þá áttu þeir ekki að fá þessa fiskverðshækkun sem sjóðakerfishreytingin leiddi af sér. Ef vestfirðingar hefðu viljað hafa sjóðakerfið áfram og ekki fengið þessa fiskverðshækkun, þá var enginn að tala um að breyta neinni skiptaprósentu. En nú var þannig málum háttað, að það var reiknað út af mikilli vandvirkni hjá forstjóra Þjóðhagsstofnunarinnar hvernig sjóðakerfisbreytingin kæmi við einstakar tegundir skipa. Stóru togararnir töpuðu verulega á sjóðakerfisbreytingunni, en minni skuttogararnir komu nokkurn veginn jafnir út. Mestur hluti bátaflotans hagnaðist af sjóðakerfisbreytingunni. En minni skuttogararnir, innan þess hóps var mikill munur hverjir töpuðu og hverjir græddu. Þeir, sem best fóru út úr kerfishreytingunni, voru togarar á þeim stöðum sem eiga styst að sækja, með því að leggja niður Olíusjóðinn. Það voru auðvitað þeir sem fyrst og fremst högnuðust. Og ég hygg að það hefði eitthvað verið sagt heima á Vestfjörðum ef þau ákvæði hefðu verið að sjóðakerfishreytingin ætti aðeins að ná til þeirra sjómanna sem gerðu nýja samninga, en hinir ættu að greiða áfram í Olíusjóð og vátryggingasjóð og aðra þá sjóði sem hér var um að ræða. Ég er hræddur um að það hefði orðið allmikil óánægja. Hitt held ég að hefði haft minna að segja fyrir þessa aðila, að gera þessa breytingu og breyta samningunum til samræmis við þetta. Það forskot, sem þeir hafa haft, það hafa þeir eftir sem áður og geta alltaf haft. En það var ekki reynt, a.m.k. ekki af nokkurri alvöru, að ná þar samningum.

Þetta er mergur málsins, að það er ekki hægt að gera þessa breytingu á sjóðakerfinu, hækka fiskverðið í samræmi við þessa kerfisbreytingu, svo eiga ákveðnir meðlimir sjómannafélaganna eða meðlímir í ákveðnum félögum og á ákveðnum stöðum að standa einir við að taka á sig breytinguna, en hinir eiga aðeins að fá hækkun fiskverðsins og annað ekki. Þetta hélt ég að væri mergur málsins, og um þetta sanngirnisatriði snúast þessi brbl. í raun og voru. Það þýðir ekki að loka bæði augum og eyrum fyrir þessari staðreynd og segja að hér sé um þrælalög að ræða. Þessi breyting var samningar sem gerðir voru, en allir aðilar hafa ekki staðið við, og það er þetta sem um er að ræða.