26.04.1977
Sameinað þing: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3754 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

89. mál, fræðsla og þáttur fjölmiðla í þágu áfengisvarna

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 99, 89. mál, er flutt till. af hv. þm. Sigur­laugu Bjarnadóttur, Helga Seljan, Ingvari Gísla­syni, Oddi Ólafssyni, Braga Sigurjónssyni og Karvel Pálmasyni sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að brýn þörf sé markvissra aðgerða í þágu áfengisvarna í landinu. Sérstak­lega ber að leggja rækt við hvers konar fyrir­byggjandi fræðslu- og upplýsingastarf.

Í því skyni skorar Alþ. á ríkisstj. að beita sér fyrir:

1. Að hraðað verði sem kostur er skipulagn­ingu og undirbúningi Skólarannsókna ríkisins á áfengisfræðslu í öllum skólum landsins og endurskoðun á reglugerð um slíka fræðslu.

2. Að fjölmiðlar, og þá einkum sjónvarpið, verði nýttir með skipulegum hætti í þessu skyni. Þannig verði reglulega teknir upp í dagskrá sjónvarpsins fræðslu- og skemmtiþættir í sam­ráði við áfengisvarnaráð og aðra þá aðila sem vinna að bindindisstarfi og áfengisvörnum.“

Það þarf ekki að tíunda hér þýðingu þess, að áfengisvarnir séu öflugar hverju sinni og að lögð sé rækt við hvers konar fyrirbyggjandi fræðslu- og upplýsingastarf varðandi áfengis­mál. Alþ. hefur látið þessi mál til sín taka frá einum tíma til annars. Hér hafa verið lagðar fram margvíslegar till. í þessa átt. Hér er um eina þeirra að ræða.

Hv. allshn. hefur athugað þessa till. og er sammála um að mæla með samþykkt hennar með þeirri breytingu, að 2. tl. till. hljóði svo:

„Að fjölmiðlar, og þá einkum sjónvarpið, verði nýttir með skipulegum hætti í samráði við áfengisvarnaráð og aðra þá aðila sem vinna að bindindisstarfi og áfengisvörnum.“

Þetta mál er svo sjálfsagt og vel skiljanlegt að ég tel óþarft að fara mörgum orðum um tilgang till. og væntanlegan árangur hennar, en legg til að hún verði samþykkt með þeirri breyt­ingu sem allshn. hefur lagt til.