02.11.1976
Sameinað þing: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það er að verða undarlegur flokkur, þessi Alþfl. Hann var nú alltaf dálítið skrýtinn á meðan Gylfi hugsaði einn fyrir hann. En hann er orðinn að algeru viðundri eftir að maður einn kom í flokkinn fyrir nokkrum árum sem núna hugsar í gegnum Gylfa og síðan sprikla aðrir angar eftir því. Það er alveg furðulegt með þennan flokk eða málsvara þessa flokks hérna á þingi, — flokk sem hefur tekið hér hvað eftir annað þátt í aðgerðum í kjaramálum til lausnar kjaradeilum og það á frumstigi, — hvað þeir berja sér hér á brjóst og eru hneykslaðir, hneykslaðir yfir því að það skuli sett brbl. sem banna verkföll, að það sé enginn í verkfalli, þrátt fyrir það að búið sé að margtyggja það hér í þá að verkföllum hefur ekki verið aflýst. Verkföllum var frestað af þessum sjómannafélögum og þau gátu sett verkfall á hvenær sem þeim sýndist. þessi félög sem löglega höfðu boðað verkfall.

Ég er þeirrar skoðunar að það versta, sem ríkisvald getur gert, sé að blanda sér í deilu einmitt þegar búið er að beita verkfallsvopninu og allt er á langviðkvæmasta stigi. Ég er alveg sammála öllum þessum mönnum um að æskilegast er að ríkisvald, hvar sem er í lýðfrjálsu landi, þurfi aldrei að beita sér fyrir lausn kjaradeilu með slíkum hætti. En þegar aðilar vinnumarkaðarins hafa haft 7 mánuði til stefnu að leysa deilu sem á að vera útrunnin ýmist á áramótum, eftir tvo mánuði eða í síðasta lagi 15. maí, þá er ekki verið að binda hendur fólks um alla framtíð með þessum brbl. Þetta hélt ég að menn skildu mætavel og jafnframt hitt, að það er ekki hægt og það er ekki sanngjarnt, eins og allt er í pottinn búið í sambandi við sjóðakerfisbreytinguna, að það eigi sumir aðilar innan sjómannasamtakanna að taka þátt í þessari breytingu, en aðrir eigi hagnaðinn sem leiði af breytingunni, en taki ekkert á sig á annan hátt. Þetta er það sem um er að ræða. Þetta er það sem skiptir máli. Það hefur ekki heldur verið á það minnst, að brbl. rétta enn hlut þeirra sem höfðu samið. Þeir fá lögfesta sáttatillögu sáttanefndar frá því í júlí. Á það er ekki minnst af hendi þeirra manna sem hér hafa verið að tala.

Hvað snertir lýðræði og þingræði, þá er það nú að verða eitt fyrirbrigði hjá Alþfl., túlkun á lýðræði og þingræði. Hann flutti hér till, um daginn, sem var fylgt úr hlaði í ítarlegri ræðu, um að Nd. Alþ. kjósi 5 manna n, sem í eigi sæti einn maður frá hverjum þingflokki. Það þýðir að 12 þm. í d. eiga að skipa þrjá fulltrúa í n., en fulltrúar 28 þm. eiga að skipa tvo. Og svo þegar n. lýkur störfum, þá auðvitað verður sagt, ef hún skiptist í meiri hl og minni hl., að meiri hl. n. hafði þessa skoðun og það var meiri hl. n. sem markaði þessa stefnu, Þetta er það þingræði og lýðræði sem Alþfl. nýi er nú búinn að gera að sínu æðsta hugsjónamáli eftir að sterki aðilinn fór að tala í gegnum Gylfa Þ. Gíslason.