26.04.1977
Sameinað þing: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3756 í B-deild Alþingistíðinda. (2670)

10. mál, votheysverkun

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki eyða miklum tíma hv. alþm. í sambandi við þetta mál. En eins og kom fram hjá frsm. áðan, hv. þm. Sverri Hermannssyni, er auðvitað ekki nóg að samþykkja svona till. Það þarf fyrst og fremst að sjá til þess, að hægt sé að fram­kvæma hana. En eins og ástatt er, t. d. hjá Stofnlánadeildinni, þá er þar ekkert fjármagn eins og sakir standa til þess að gera neitt átak í þessum efnum. Þess vegna verður að knýja jafnhliða á um að það verði fjármagn fyrir hendi.

Eins og nú standa sakir, miðað við þær um­sóknir sem liggja fyrir, þá er langur vegur frá því að hægt sé að verða við þeim umsóknum sem fyrir liggja. T. d. í sambandi við vélageymsl­ur, sem hv. þm. vita að er mjög nauðsynlegt fyrir bændur að koma upp, hefur þrjú ár í röð ekki verið hægt að veita stofnlán til slíkra fram­kvæmda vegna féleysis. Ýmis önnur verkefni hefur ekki verið hægt að styðja vegna féleysis á undanförnum árum. Og þannig horfir málið við enn í dag.

Það má segja að þetta vandamál sé dálítið annað t. d. fyrir norðan og austan heldur en aft­ur á Suður- og Suðvesturlandi. Í Norðurlands­kjördæmi eystra er þetta yfirleitt ekki vanda­mál, en hins vegar vantar þar heygeymslur víða í stórum stíl. Það er enginn vafi á því, að eitt af því, sem er mest aðkallandi fyrir bændur, er að geta bjargað heyjunum, þ. e. a. s. að eiga ekki allt undir sól og regni í því að afla heyjanna. Það er enginn vafi á því, að á þessu svæði er votheysverkunin sennilega besta úrræðið þó að í eins miklu votviðri og var í fyrrasumar sé jafnvel ekki hægt að heyja í vothey og bjarga heyjunum, nema þar sem eru sérstaklega þurr tún eða sendin jörð. En erindi mitt er fyrst og fremst þetta: að undirstrika það, að eins sjálf­sagt mál og þetta er að styðja við það, þá þarf meira til. Það þarf að útvega fjármagn til þess að geta ýtt þessu máli áfram.