26.04.1977
Sameinað þing: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3757 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Frsm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur haft þessa viðamiklu till. til meðferðar um hríð, og svo sem álit hennar á þskj. 493 ber með sér, þá leggur hún til að till. þessi verði samþykkt. Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og Jón G. Sólnes. En n. flytur brtt., enga efnisbreytingu, heldur einvörðungu að breyttu breytanda, þar sem sagði í aðalefni till. að fyrstu niðurstöður könnunarinnar skyldu birtar Alþ. sem nú situr og síðan skyldu endanlegar niðurstöður lagðar fram þegar Alþ. kæmi aftur saman haustið 1977. Við viljum fella þessa mgr. niður, en í stað þess komi ný mgr. sem hljóði svo: „Niðurstöður þessarar könnunar skulu birtar næsta reglulega Alþingi.“ Af sjálfu leiðir þar sem svo mjög langt er liðið á þingtímann.

Atvmn. ætlar sér ekki þá dul að segja fyrir um með hvaða hætti rannsókn þessari skuli hag­að. Hún er greinilega viðamikil, en ég er ekki í nokkrum vafa um að hún er mikilvæg. Það er lagt til að ríkisstj. láti kanna hvaða áhrif fjárhagsleg fyrirgreiðsla Framkvæmdastofnunar ríkisins, sérstaklega Byggðasjóðs, hefur haft á atvinnu- og byggðaþróun í landinu. Sérstaklega verði kannað hvaða áhrif þessi fyrirgreiðsla hef­ur haft á búsetu fólks, tekjuskiptingu eftir lands­hlutum og aðstöðumun fyrirtækja eftir staðsetn­ingu, starfsgreinum o. s. frv.

Það verður auðvitað ekki einfalt mál að rann­saka þetta til hlítar, af því líka að við höfum ekki fordæmi fyrir okkur. Þetta er tiltölulega nýtt. Starfsemi stofnunarinnar er ný og starfsemi Byggðasjóðs í svo ríkum mæli er líka ný, enda þótt hann ætti sér forvera í Atvinnubóta­sjóðnum gamla og Atvinnujöfnunarsjóðnum. En við höfum séð dæmi þess nú einmitt síðustu dagana sem færa okkur heim sanninn um mikil­vægi þess að gera rækilega könnun á þessum áhrifum. Við höfum séð það í viðtali við borgar­stjórann í Reykjavík í Morgunblaðinu á sunnu­daginn var, og við höfum séð það á stjórnmála­leiðaraskrifum Morgunblaðsins, að talið er þar beinlínis að starfsemi og lánastarfsemi, sérstak­lega Byggðasjóðsins, hafi orðið til þess að mis­muna þéttbýlissvæðunum hér við Faxaflóann.

Ég legg áherslu á það, að byggðastefnan og framkvæmd hennar var aldrei ætluð til þess að halla á einn eða neinn, heldur til þess að rétta hlut strjálbýlis miðað við þéttbýli, og dragi til þess, að framkvæmd hennar verði til þess að mismuna eða halla á þéttbýlið, há erum við ekki á réttri leið og þá þurfum við að gá vel að okkur. En það er ekki eitt út af fyrir sig nægjanlegt að rannsaka t. d. starfsemi Byggða­sjóðsins eins eða Framkvæmdastofnunarinnar. Það eru miklu fleiri þættir sem koma þarna við sögu. Það þarf líka að kanna hvort starfsemi þess sjóðs hefur haft beinlínis áhrif á útlána­starfsemi annarra sjóða, og nefni ég þar sér­staklega til sjóði eins og Iðnlánasjóð og Iðn­þróunarsjóð. Það kæmi mér ekki á óvart þótt t. d. Iðnlánasjóðurinn hefði í vaxandi mæli beitt lánsfé sínu inn á það svæði sem lánsfé Byggða­sjóðs hefur ekki náð til, eftir að Byggðasjóður­inn hóf starfsemi sína. Þetta vil ég þó ekki fullyrða. En það kæmi mér ekki á óvart að svo hefði verið. Það þyrfti vitanlega að taka þarna með í reikninginn hvort um breytingu á annarri lánastefnu eða fyrirgreiðslu með öðrum hætti hefur orðið að ræða, hvort starfsemi Byggða­sjóðsins hefur haft þau áhrif, og þá væri það vitanlega til jafnvægis ef svo væri. En þessu þurfum við sem sagt að fylgjast ákaflega vel með og því er þessi till. tímabær.

Ég er í engum vafa um það, að þessari tillögugerð er ekki stefnt til höfuðs byggðastefnunni, heldur er það byggðastefnumönnum, sem við allir viljum vera, hin mesta nauðsyn að gera sér ljóst hver áhrif eru af starfsemi sjóðs sem Byggðasjóðsins. Það er enn fremur, svo að ég nefni það aðeins í þessu sambandi, mikilvægt að gera sér grein fyrir því, hvaða áhrif hefur haft til eflingar byggðar hér á Suðurnesjum, hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu og við Faxaflóann, sú einstefna sem uppi hefur verið í stórvirkjunar­málum, keðjuvirkjanirnar við Þjórsá, og þau áhrif sem það hefur haft, að raforkunni þaðan hefur að meginhluta til verið beint á þetta suð­vesturhorn: til stóriðju í Straumsvík og núna, sem á framkvæmdastigi er, til stóriðju hið næsta okkur, þótt uppi í Hvalfirði sé. Ég legg ekki mikið upp úr því, þótt það fyrirtæki eigi að heita, eins og ég hef áður sagt, sem nemur kortersróðri frá Reykjaneskjördæmi, fyrir hand­an Hvalfjörð.

Væri mjög fróðlegt að geta gert sér grein fyrir þessu, á meðan svo háttar til í öllum öðr­um landsfjórðungum að feiknalegur orkuskortur er, jafnvel til almennra þarfa, að ég ekki tali um til uppbyggingar iðnaði. En þar erum við væntanlega sammála, að uppbygging þeirrar at­vinnugreinar er undirstaðan í framtíðinni, þar sem við getum ekki gert okkur vonir um að auka afrakstur okkar af fiskstofnum t. d. og ekki í stórum stíl af landinu sjálfu.

Ég vil geta þess sem rétt er, að hlutur iðnað­arins hefur í lánaþáttunum sjálfum legið nokk­uð eftir. Þó ber þess að geta, að á s. l. árum hefur ýmislegt verið gert til þess að efla þann þátt með lánafyrirgreiðslu. Ég vil t. d. geta þess, að Framkvæmdasjóður hefur hlutfallslega lang­mest hækkað framlag til Iðnlánasjóðs miðað við aðra sjóði á undanförnum tveimur árum. Fram­lag Framkvæmdasjóðs til Iðnlánasjóðs árið 1975 var 110 millj. kr., 250 millj. kr. 1976 og 1977 450 millj. kr. Eftir sem áður er alveg ljóst að hlutur þessa sjóðs liggur eftir. Þess má líka geta, að hann er án efa einna best rekinn af stofnlána­sjóðum landsins, með mikilli fyrirhyggju og myndarskap, og þeim mun fremur væri ástæða til þess að efla hann miklu meira en gert hefur verið. Iðnþróunarsjóður hefur að vísu komið þarna til skjalanna með mjög verðmæta starf­semi, en miklu betur má ef duga skal í þessum efnum.

Ég nefni þetta aðeins til þess í örfáum orðum að reyna að gera mönnum grein fyrir því, að hér er um viðamikla rannsókn að tefla sem ekki má kasta höndum til, en endurtek það, að okkur er mjög mikilsvert að geta gert okkur grein fyrir því, þegar nýr allöflugur þáttur er hafinn í lánastarfsemi í landinu, — geta gert okkur grein fyrir áhrifum hans hið allra fyrsta og þá breytt til ef sýnist ganga úrskeiðis.

Ég veit að það hefur verið mjög í umr. og kom raunar fram í viðtali við borgarstjóra, hversu hallað hefur mjög á útgerð og fiskvinnslu á Stór-Reykjavíkursvæðinu og Reykjanessvæð­inu. Ég er út af fyrir sig ekki í nokkrum vafa um það, að það eru margir fleiri þættir, sem þar tvinnast saman, heldur en sá, að þetta svæði hafi orðið afskipt varðandi lánveitingar úr Byggðasjóði. Ég legg áherslu á að þáttur Fisk­veiðasjóðsins, aðallánasjóðs fiskvinnslu og fisk­veiða, verði rannsakaður einmitt í þessu sam­bandi. Það verður enginn dómur lagður á áhrif Byggðasjóðs til eða frá á þessu svæði nema það verði grandskoðað, hvernig Fiskveiðasjóðurinn, aðallánasjóðurinn, hefur staðið sig varðandi þennan landshluta. Ég hef grun um að hlutur Fiskveiðasjóðs hafi legið allmjög eftir. Hann á kannske nokkra afsökun í því, að engum vafa er undirorpið að fiskiðnaður t. d. á Suðurnesj­um hefur ekki verið nægjanlega vel skipulagð­ur eða skynsamlega upp byggður. Ég held ég segi ekki of mikið þó að ég taki þetta upp í mig. En ef meta skal áhrif Byggðasjóðs á þennan þátt, þá er alveg nauðsynlegt að grandskoða hvernig t. d. aðallánasjóðurinn hefur staðið sig að þessu leyti.

Ótalmargt fleira kemur þarna til greina. En eins og ég segi, n. átti þess engan kost að leggja á nein ráð um í smáatriðum með hvaða hætti þetta viðamikla verk verður unnið. En sammála varð hún um að mæla með samþykkt till., og ég vil leyfa mér að vænta þess, að niðurstaða og framkvæmd þessa máls verði okkur að þeirri nauðsynlegu leiðbeiningu sem okkur er vitan­lega þörf á í þessum efnum.