26.04.1977
Sameinað þing: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3760 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Albert Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að hefja eða taka þátt í almennum umr. um þá till. sem ég leyfði mér að flytja hér á þskj. 75 um athugun á áhrifum af starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins og auknum lánveitingum Byggðasjóðs á atvinnu- og byggðaþróun í landinu, og undir­strikað í till. að til samanburðar skal höfð í huga þróun sömu mála í Reykjavík og ná­grannabyggð hennar þau 5 ár sem liðin eru frá því að lög um Framkvæmdastofnun ríkisins tóku gildi. Frsm. hv. atvmn. hafði langa og merki­lega framsögu með tiltölulega sjálfsagðri breyt­ingu á þessari till. minni sem ég mun geyma að ræða efnislega þangað til liggja fyrir niðurstöður af könnun, sem ég vona að fari fram.

Ég vil þakka hv. atvmn. fyrir jákvæðar undirtektir við till. mína. Satt að segja hefði ég auð­vitað verið ánægðari ef vinnuhraðinn í n. hefði verið meiri og till. hefði komið fyrr fram, þann­ig að lengri og betri tími hefði unnist til þess bæði að skipa n. og vinna það veigamikla verk sem till. felur í sér að þurfi að gera. En ég tel að sjálfsögðu þá brtt., sem n. flytur, óhjákvæmi­lega vegna þess tíma sem liðinn er frá flutningi þáltill.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri, þrátt fyrir fjarveru hv. þm. Ingólfs Jónssonar, til að þakka honum fyrir undirtektir hans við 1. umr. um þessa till., en hann lagði þá til, að vísu eftir langt mál, að till. yrði samþ.

Ég vitna, eins og hv. frsm. atvmn., í hið fróð­lega viðtal sem birtist í Morgunblaðinu um síð­ustu helgi við borgarstjórann í Reykjavík, en eins og frsm. n. gat um komu þar fram ákveðnar áhyggjur út af þróun atvinnumála hér á höfuðborgarsvæðinu hjá borgarstjóra. Taldi hann í þeirri grein að rekja mætti margan vand­ann, sem nú fyrirfinnst í Reykjavík og nágrenni, til vöntunar á sams konar fyrirgreiðslu á höfuð­borgarsvæðinu eins og Byggðasjóður veitir til staða utan þessa svæðis. Ekki þætti mér ólík­legt að fljótlega gæti komið fram till. á hv. Alþ. um stofnun Byggðasjóðs eða aðrar sambærilegar ráðstafanir yrðu gerðar fyrir höfuðborgarsvæðið. Það er mjög langt frá því, að það sé í mínum huga að vinna á einhvern hátt gegn byggða­stefnu eða þeirri þróun sem þarf til þess að skapa atvinnumöguleika um landið allt og við­halda þeim. En vonandi verður þessi till. mín samþ. með þeim breyt., sem hv. atvmn. leggur til, og send ríkisstj. sem fyrst, svo tryggt verði að niðurstaða þessarar könnunar verði þing­heimi kunn á þeim tíma sem brtt. atvmn. gerir ráð fyrir og ég sem flm. get mjög vel sætt mig við. En það er, eins og segir í brtt. atvmn., að niðurstöður þessarar könnunar skuli birtar næsta reglulega Alþingi.