26.04.1977
Sameinað þing: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3764 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég geri mér það meira til gamans en af þörf að svara hv. síðasta ræðumanni.

Ég sé ekki að þessi till. mín gefi nokkra ástæðu til almennra umr. um ágæti Framkvæmda­stofnunar þeirrar sem hann stjórnar sjálfur né heldur ágæti ríkisstj. í heild. Við skulum láta þá könnun, sem till. ber með sér að fram á að fara, verði hún samþ., leiði í ljós hvað er gott og hvað er ekki gott í störfum bæði Fram­kvæmdastofnunar og kannske annarra sem tengjast henni. Það var ástæðulaust að telja upp landhelgismálið, byggðamál, stórframkvæmdir í orkumálum, raforkumálin og hita­veitur, að full atvinna er í landinu, sem er kannske haldið uppi með stórum erlendum lán­um sem við sumir hverjir hér í hv. Alþ. efumst um að sé rétt pólitík. Allt þetta hefur ekkert inn í umr. um þetta mál að gera á þessu stigi.

En það er alveg rétt, sem hv. síðasti ræðu­maður segir, það hefur tekist að stöðva þá fólksflutninga eða þá þróun í landinu að fólk flytjist í eins ríkum mæli og það áður gerði inn á Reykjavíkursvæðið, og það er ágætt. Það kemur ekkert fram í minni till. sem stefnir að því að opna allar flóðgáttir, þannig að fólkið hafi ekki annað að fara en til Reykjavíkur, nema síður sé. Ég er alveg á því, að það á að halda byggðastefnunni áfram og það á að gera mönn­um kleift að vinna í heimabyggðum að fram­leiðslu þjóðarverðmæta. Þetta erum við allir sammála um. En við höfum bent á það, og ég vitnaði í ágæta grein eða í samtal við borgarstjórann í Reykjavík sem birtist í Morgunblaðinu um síðustu helgi, svo ég endurtaki það, hvað er að ske hér á Reykjavíkursvæðinu. Reykja­vík er eina höfnin sem fær engan stuðning frá hinu opinbera, og hún er að drabbast niður, hún er í niðurníðslu. Ég skora á hv. síðasta ræðumann að fá sér göngutúr, af því að hann er búsettur nálægt Reykjavík, einhvern sunnu­dagsmorgun þegar veðrið er gott og skoða í hvernig ástandi opinber mannvirki eru hér, vegna þess að öllum gjaldskrám hefur verið haldið niðri og ekkert hefur komið á móti frá opnin­berum aðilum. Reykjavík hefur ekki aðgang að neinum byggðasjóði og getur ekki breytt töxt­um til að bera uppi rekstur og viðhald á við­komandi mannvirkjum. Þannig er ástatt um mörg fyrirtæki, atvinnufyrirtæki og opinber fyr­irtæki Reykjavíkurborgar. Útgerðin er líka á fallanda fæti. Það kom fram í greininni sem ég vitnaði í áðan, samtali við borgarstjórann í Reykjavík. Það er annað að byggja upp úti á landi og hitt að láta allt drabbast niður í Reykja­vík og nágrenni. Og ég held að velgengni landsbyggðarinnar megi alls ekki byggjast á því, að Reykjavík fái ekki einhverja aðstoð.

Ég ætla ekki að fara að metast um það, hvort meðaltekjur eru hærri hér í Reykjavík eða úti á landi. Ég vona að þær séu hærri úti á landi, ég vona að það sé rétt, því fólk hefur það al­mennt ágætt bæði hér í Reykjavík og annars staðar og það á að vera þannig. Það er ekkert í minni till. sem á að stuðla að því að tekjur þeirra, sem búa utan Reykjavíkur, lækki niður fyrir það sem fólk í Reykjavík hefur. Það er engin ástæða fyrir hv. þm. að tala svona, því ég gef ekkert tilefni til þess. Ég vona bara að það haldi áfram að vera svo, að þegar fólki vegnar vel í Reykjavík, þá vegni fólki kannske enn þá betur tekjulega séð úti á landi. Enginn í Reykjavík amast við því. En ég vil undirstrika það, að ég skal standa að því með hv. síðasta ræðumanni, að það verði haldið áfram að fjárfesta í arðbærum fyrirtækjum úti á landsbyggðinni sem eru atvinnuskapandi og auka þjóð­arverðmæti.

Byggðastefnan er ágæt og á rétt á sér. En ég vil bara að hún nái yfir allt landið. Ég vil að það sé viðurkennt og sérstaklega hér á hv. Alþ., að Reykjavík tilheyrir landinu öllu. Þetta er ekki fríríki sem á að vera utan við þjóðar­búskapinn. Það er líka rétt, að það getur verið að það sé um of fjárfest í byggingum með lán­um úr Byggingarsjóði ríkisins, ef hann lánar hingað inn á Reykjavíkurmarkaðinn 70–80% af heildarútlánum. Það getur vel verið að Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður starfi eitthvað öðru­vísi en þeir eiga að gera. Það er ágætt að þessi könnun nái yfir þá. Ég held að það verði að fara svolítið eftir þörfum vinnumarkaðarins á hverj­um stað, hvernig og hve mikið fjárfest er hverju sinni. Þarfir vinnumarkaðarins í Reykjavík kalla á meiri skilning hins opinbera, úr því að á annað borð er tekinn hluti af fjárlögum og dreift til að jafna byggðaaðstöðu í landinu.

Ég endurtek: velmegun annars staðar má ekki verða á kostnað Reykjavíkur og nágrennis. En ég verð að segja það, að ég er farinn að halda að þessi till. mín sé miklu betri en ég hélt, vegna þess, sem mér er óskiljanlegt, að þeir hv. þm., sem eru starfsmenn, sem eru kommiss­arar okkar, eins og kallað er í daglegu máli, finna hvöt hjá sér til að standa upp og fara í varnarstöðu þegar minnst er á Framkvæmda­stofnunina eða Byggðasjóð. Það er mér alveg óskiljanlegt og mikið umhugsunarefni. Ég endur­tek það, að ég vona að þessi till. verði samþ. og niðurstaða af þessari könnun fáist sem allra fyrst. Ég ætlaði ekki að skipta mér af skipan þeirrar nefndar, sem til verður kölluð að framkvæma könnunina, en finn mig knúinn til þess, vegna þeirrar varnarstöðu sem framkvæmdastjórar stofnunarinnar taka hér á Alþ., að undir­strika það að þeir verði ekki látnir rannsaka þetta, að stofnunin sjálf verði ekki látin rann­saka eða kanna það sem till. fer fram á, heldur verði hlutlaus n. kosin til þess og hún skili árangri hingað sem allra fyrst.