27.04.1977
Efri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3769 í B-deild Alþingistíðinda. (2683)

121. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Það hefur verið hafður svipaður háttur á og að undanförnu, að formenn allshn. Ed. og Nd. hafa farið yfir frv. til 1. um veitingu ríkisborgara­réttar og fskj. þau, sem fylgdu frv., þ. e. a. s. umsóknir um ríkisborgararétt ásamt þeim skil­ríkjum sem slíkum umsóknum þurfa að fylgja, svo og nýjar umsóknir sem borist hafa eftir að frv. var lagt fram hér á hv. Alþ. Þetta er gert til þess að flýta fyrir afgreiðslu í n. Eftir þessa sameiginlegu yfirferð formanna beggja n. hefur allshn. Ed. kynnt sér umsóknir og farið yfir brtt. og orðið sammála um að mæla með því að frv. ásamt brtt. á þskj. 522 verði sam­þykkt.

Ég tel rétt að rifja aðeins upp hverjar þær reglur eru sem allshn. beggja d. settu í nál. 17. maí 1955 og síðan hefur verið fylgt í megin­atriðum, en þó hafa þessar reglur verið gerðar nokkru fyllri en þær voru í upphafi. Reglurnar voru þessar, með leyfi hæstv. forseta :

1. Umsækjandi hafi óflekkað mannorð og sé að áliti tveggja valinkunnra manna starfhæfur og vel kynntur þar sem hann hefur dvalist.

2. Útlendingar aðrir en Norðurlandabúar skulu hafa átt hér lögheimili í 10 ár, Norðurlandabúar í 5 ár.

3. Karl eða kona, sem giftast íslenskum ríkisborgara, fái ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu frá giftingu, enda hafi hinn íslenski ríki­borgari haft ríkisborgararétt ekki skemur en 5 ár.

4. Erlendir ríkisborgarar, sem eigi íslenskan ríkisborgara að foreldri, fái ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu ef annað foreldri er Norðurlandabúi, annars eftir 5 ár.

5. Íslendingar sem gerst hafa erlendir ríkisborgarar, fái ríkisborgararétt eftir eins árs búsetu.

6. Íslensk kona, sem misst hefur ríkisfang sitt við giftingu, en hjónabandinu er slitið og hún hefur öðlast heimili hér, fái ríkisborgararétt á fyrsta dvalarári hér, enda lýsi hún yfir að hún ætli að dveljast áfram í landinu. Sama gildir um börn hennar sem hafa ekki náð 16 ára aldri og henni fylgja.

Við teljum, herra forseti, að þær umsóknir, sem mælt er með í frv. og brtt. við frv., upp­fylli þessar kröfur. Rétt er að geta þess, að nokkrar umsóknir voru lagðar til hliðar vegna þess að eitt eða annað vantaði á að þessum skilyrðum sem ég hef áður lýst, væri fullnægt. Vil ég hér með leggja til samkv. framansögðu og samkv. nál. allshn., að ríkisborgararéttur þeirra 18 manna, sem voru í upphaflegu frv., og ríkisborgararéttur 26 manna til viðbótar verði samþykktur.