27.04.1977
Efri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3773 í B-deild Alþingistíðinda. (2686)

222. mál, Kennaraháskóli Íslands

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Þetta verða aðeins örfá orð af minni hálfu. Ég fagna því, að þetta frv. hefur nú verið lagt fram, og þeim breytingum, sem í því er að finna. Ég minnist þess, að þegar frv., sem varð að lögum um kennaraháskóla, var lagt fram hér á hv. Alþ., þá stóð um það töluverður styrr. Þá átti ég sæti í menntmn. þessarar hv. d. og ég leyfði mér þá til þess að reyna að koma málinu áfram að gera þá till. að lögin yrðu endurskoðuð eftir tvö ár, bar þá till. fram ásamt þáv. þm. Páli Þorsteinssyni. Ég hygg, án þess að ég ætli neitt að fara að hrósa einum eða neinum í þessu sambandi, að e. t. v. hafi þessi brtt. orðið til þess að lögin náðu fram að ganga. Þetta geta þeir nú rifjað upp sem áttu sæti á þingi á þeim tíma, en ég hygg að ég fari ekki með rangt mál í þessu efni. Að vísu skal ég viðurkenna það, að mér finnst þessi tvö ár hafa verið nokkuð lengi að líða. Engu að síður er það ánægjuefni fyrir mig, að farið hefur verið að þeim ráð­leggingum og lagafyrirmælum sem sett voru í lögum um Kennaraháskólann, og ég óska þess að þetta mál nái fram að ganga á næsta þingi, e. t. v. með þeim breytingum sem að bestu manna yfirsýn þarf að gera á því.