27.04.1977
Efri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3776 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

222. mál, Kennaraháskóli Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Í raun get ég verið hér mjög stuttorður og vísað til orða síðasta ræðumanns þar sem hann kom inn á margt það sem ég vildi gera aths. við. Ég skal því verða tiltölulega mjög stuttorður. En að gefnu tilefni í sambandi við þessi fræðslumál vil ég nota tækifærið og beina fsp. til hæstv. menntmrh.

Í haust var rætt hér, 18. okt. s. l., um frv. til 1. um fullorðinsfræðslu og því var vísað til menntmn. Ég held að ég segi það alveg rétt, að síðan hefur það sofið Þyrnirósarsvefni þar, a. m. k. hef ég aldrei orðið var við neina með­ferð í málinu á einn eða annan veg, og held ég að ég hafi aldrei misst af fundi. Mér þykir nokkuð undarlegt ef þetta hefur aðeins átt að vera til þess að við gætum lesið yfir frv. og einhverjir aðrir hópar utan Alþ. Og erindi mitt, í viðbót við það sem ég sagði áðan, að taka undir orð síðasta ræðumanns, var að forvitnast um tilgang þess frv., sem er 22. mál hér í hv. d. og Alþ., og einnig hvað er áformað með frv. um Kennaraháskólann og svo einnig frv. til l. um framhaldsskóla. Ber að athuga þessi mál öll í einu samhengi? Og verður það þá gert í sumar? Fá þeir þm., sem eru í menntmn. beggja d., að fylgjast eitthvað með, eða kemur þetta aftur að hausti og liggur þá yfir veturinn í dvala? Ég vænti þess, að það sé ekki markmiðið hjá hæstv. ráðh. Raunar þarf varla að spyrja um það, því að það getur ekki verið markmiðið. En þá vil ég fá að vita hvernig á að standa að vinnu að þessum miklu frv. og þessu mikla máli sem þessi þrjú frv. fjalla um.

Það er, eins og síðasti ræðumaður sagði, afar mikilvægt að fá góða kennara frá fyrsta til síðasta stigs. Þegar frv. um Kennaraháskóla Íslands var hér til meðferðar 1970 og 1971 urðu um það harðar umr. hér á Alþ. og gefið ýmis nöfn og tilgangi með það, og þarf ég ekki að rifja það upp. En nú höfum við séð þrjú frv.-form er fjalla um fullorðinsfræðslu, um Kennarahá­skólann og framhaldsskóla, og einnig er eitt lítið frv. hér í d. um Skálholtsskóla. Síðan höf­um við þessi nýju lög um grunnskólana, svo að við getum nú farið að sjá í heild hvernig fræðslu­kerfið er hugsað. Og hér í d. er einnig frv. á leiðinni, sem vonandi fer fljótlega í gegn, um fjölbrautaskóla. Þrátt fyrir allt þetta koma fram skólamenn sem segja að kerfið hjá okkur í menntamálum sé ruglingur og einn notaði útlenda orðið „kaos“. Ég veit ekki hvort hægt er að taka undir þetta, en hitt vil ég forvitnast um hvert markmiðið sé með framlagningu og kynn­ingu á þessu frv. öllu. Verða settir ákveðnir samræmdir starfshópar í málin, og fáum við menntmn. að fylgjast með, þannig að við þurf­um ekki allan veturinn aftur til að hugleiða þessi mál? Og hvað hefur hæstv. ráðh. hugsað sér til framgangs þessara mikilvægu mála sem hann hefur látið undirbúa í sínu rn. og ég þakka út af fyrir sig fyrir að við skulum fá að kynn­ast hér? Ég tel nauðsynlegt að það verði stað­ið af nokkrum röskleika að vinnu í þessum mál­um, svo að fari ekki um þessi hin síðari mál svo sem um málið um fullorðinsfræðslu, að það lognist út af heilan vetur og sjái varla dagsins ljós þótt sól fari að hækka á lofti.