27.04.1977
Efri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3777 í B-deild Alþingistíðinda. (2689)

222. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka undirtektir hv. þm. við þetta frv. og jafnframt leitast við að svara þeim fsp. sem til mín hefur verið beint.

Hv. 1. landsk. þm. spurði hvað fyrirhugað væri um meðferð þessara mála framvegis, þriggja sem hann nefndi, framhaldsskólans, Kennaraháskólans og fullorðinsfræðslunnar, og um samhengi þess­ara frv.

Um samhengið vil ég segja það, að ég álít að framhaldsskólinn og fullorðinsfræðslan tengist nokkuð mikið efnislega, en kennaraskólafrv. sé nokkuð sérstaks eðlis og kannske ekki beint þörf á að skoða það í tengslum við hin.

Hann spurði hver væri tilgangurinm með því að leggja fram fullorðinsfræðslufrv. og láta það svo liggja hér eftir í n. Það er vissulega von að hann spyrji, því að það er nú ekki einasta að þetta gerðist í ár, heldur gerðist þetta líka í fyrra og hittiðfyrra. En þegar fór að hilla undir og menn tóku að sjá svipinn á endurskoðuninni á framhaldsskólastiginu þóttust menn eygja þar möguleika að tengja að verulegu marki fullorðinsfræðsluna inn undir skólakerfið og það væri þá hægt að komast hjá að setja stóra yfirbyggingu á fullorðinsfræðsluna út af fyrir sig, eins og raunar mun hafa verið gert í nálægum löndum, sumum a. m. k. Þess vegna þótti rétt að leggja ekki mikið kapp á afgreiðslu þessa frv. í því formi sem það er núna, heldur doka við eftir heildarskoðuninni á framhaldsskólastiginu og sjá hversu þá mætti fella saman. Hins vegar vildi ég ekki láta frv. og málið í heild liggja í bunka rn., heldur vildi ég að það lægi hér fyrir, og þess vegna var frv. flutt. Einnig var hugmyndin að leita lags með að fá afgreiddar eða komið áfram tveimur þáttum frv.: um bréfaskólana og námsflokkana, þó ekki hafi nú heldur orðið úr því.

En um framhald þessarar vinnu, — ég mun gera ítarlega grein fyrir því í Nd. þegar ég tala fyrir framhaldsskólafrv. þar. En ég vil segja það hér í örstuttu máli, að ætlunin með kennarahá­skólafrv. er að leita umsagna um það, ekki svo vítt sem hitt, en nokkurra umsagna um það og skoða þær fyrir haustið. En um framhaldsskóla­frv. er meiningin að senda það mjög mörgum aðilum til skoðunar og biðja um umsagnir þeirra og ábendingar og reyna að vinna úr því öllu eins og mögulegt er, þannig að endurskoðað frv. gæti orðið tilbúið sem fyrst á næsta þingi.

Hv. þm. minntist á hugsanlega tenginga menntmn. við þessa skoðun. Þetta er atriði sem ég hef einnig hugleitt, þó ég hafi ekki ákveðin áform um hvernig slík tengsl yrðu formuð. Ég man eftir því í sambandi við eitthvað af þessum mál­um, sem hér hafa verið fyrr, að ég gerði það eitt sinn að ég bað formenn nefnda um að vera með í athugun á milli þinga. Þetta er náttúrlega óformlegt og er ekki formleg þingvinna, en getur eigi að síður gert stórmikið gagn til þess að flýta fyrir vinnunni í haust. Og þetta mun verða at­hugað.

En út af framgangi frv. á næsta þingi, þá legg ég, eins og ég sagði áðan, mjög mikla áherslu á að kennaraháskólafrv. verði afgreitt á næsta þingi, og ég held að það hljóti að vera hægt. Einnig álít ég að frv. um framhaldsskólana sé mjög nauðsynlegt að afgreiða á næsta þingi og vil, eins og ég sagði áðan, gera allt sem ég get til þess að málið verði undirbúið í sumar, eftir því sem aðstæður leyfa. En hins vegar verður að viðurkenna að þetta er ákaflega yfirgrips­mikill lagabálkur og getur þess vegna farið svo að menn ljúki því ekki á einu þingi þó að allir leggist á eitt um að vinna að málinu. Það kynni svo að fara. Annars er sá munur á forminu á framhaldsskólafrv. annars vegar og grunnskóla­frv. hins vegar, að framhaldsskólafrv. er rammi, það er fáort, en grunnskólafrv. var mjög nákvæmt, og það er náttúrlega enn meiri vinna að vinna upp slík frv. á Alþ. heldur en þau sem marka meginstefnu, svo að ég vil a. m. k. ekki örvænta um framgang þess máls á næsta þingi. Ég tel að væri mjög nauðsynlegt, því að margt kallar að, að koma á breyttri skipan á fram­haldsskólastiginu í samræmi við grunnskólalög­gjöfina, sem búið er að setja, og í samræmi við hugmyndir manna nú í dag um skólamálin.

En svo spurði hv. 7. landsk. þm. um stöðu þeirra sem nú hafa kennt, sumir lengi, án þess að hafa full réttindi, og taldi ekki í frv. vera nægilega skýr ákvæði sem tryggðu þeim mögu­leika til þess að öðlast réttindi, þrátt fyrir þau ákvæði sem hann þó vék að og gefa möguleika til að ganga inn í skólann formlega, þ. e. sem reglulegir nemendur, — fólk sem ekki hefur stúdentspróf. Um þetta vil ég aðeins segja það annars vegar, að þó að við höfum ekki komið þessu máli frá okkur í rn., þá hefur þetta oft verið rætt þar. Það er svo nýjast í þessu máli, að Samband ísl. barnakennara og menntmrn. ætla að reyna að vinna að lausn þess og vinna að henni þannig að unnt verði í áföngum, með mis­munandi löngu námi eftir því hvar hver og einn er á vegi staddur, að afla sér réttinda. Samband ísl. barnakennara hefur nýlega skrifað mennt­mrn. og lagt fram ákveðnar hugmyndir frá sinni hálfu um hvernig þetta megi gerast, og það er auðvitað rn. mjög mikill styrkur í leit að lausn á þessu máli að hafa kennarasamtökin jákvæð. Það er höfuðatriði, því að þarna er um réttinda­mál að ræða.

Svo er hlutverk Æfinga- og tilraunaskólans annars vegar, sem ég lagði reyndar nokkra áherslu á í framsöguorðum mínum áðan, og svo hins vegar æfingarnar, sem ég vil kalla verklega þjálfun, þó ég kannske skilji það ekki alveg eins og hv. þm. Eins og hv. þm. vék að, þá er nú í meiri mæli en áður tíðkað að senda þessa nem­endur til starfa úti í hinum ýmsu skólum, auk þess sem þeir fá æfingu í Æfinga- og tilrauna­skólanum. Þetta er ákaflega mikilvægt, og þetta er í sjálfu sér alveg hliðstætt því sem menn tala um t. d. í sambandi við verknámsdeildir iðnskólanna, meistarakerfið er niður lagt og námið fært inn í skólann. Þá er viðfangsefni að tengja skólastarfið þeim starfsgreinum, sem það þjónar hverju sinni, sem allra best, þannig að menn komi ekki óviðbúnir á vettvang að námi loknu. Þetta er auðvitað hárrétt ábending hjá þm., að á þetta verður að leggja mjög mikla áherslu, og það er líka gert.