27.04.1977
Efri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3781 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

18. mál, skylduskil til safna

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um skylduskil til safna var lagt fyrir hv. Nd. í byrjun þings og raunar hefur það áður legið hér fyrir Alþ. Nú hefur Nd. af­greitt málið, og ég vona að það fái einnig af­greiðslu hér í hv. d. svo að það megi verða að lögum.

Megininntak þessa frv. er í rauninni tvíþætt: Annars vegar er það að draga úr skylduskilum til safna og miða skylduskilin fyrst og fremst við geymslueintök. Hins vegar að setja nokkru fyllri ákvæði um það, hversu fara skuli með skilaskylt efni, heldur en er í gildandi lögum.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að svo stöddu að fara fleiri orðum um þetta frv. Efni þess er vitanlega skýrt í aths. og er auk þess í sjálfu sér nokkuð augljóst. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. menntmn.