02.11.1976
Sameinað þing: 14. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

39. mál, virkjun Skaftár og Hverfisfljóts

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 39 hef ég leyft mér að flytja svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að sem fyrst verði rannsakaðir möguleikar til virkjunar á vatnasvæði Skaftár og Hverfisfljóts.“

Till. þessi var flutt á síðasta þingi, en varð þá ekki útrædd. En það er skoðun flm. að þau rök, sem mæltu með flutningi till. þá, séu enn í fullu gildi eða jafnvel enn þá sterkari.

Eins og fram kom í framsögu um þessa till. þá, hafa verið gerðar lauslegar athuganir á virkjunarmöguleikum á þessu vatnasvæði og Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens gert drög að virkjunaráætlun. En til þess að ljúka frekari rannsóknum þarf að gera á þessu svæði miklu meiri kortlagningu en þegar hefur verið gerð og ýmsar aðrar athuganir, m.a. um áhrif á umhverfi sem hugsanleg virkjun þarna hefði. Á s.l. sumri var þó gerð nokkur skoðun á þessu svæði og hún styrkti þá, sem athuguðu málið, í þeirri trú að þarna væri um einhverja hagkvæmustu virkjunaraðstöðu að ræða sem völ er á á landinu. í fyrri áætlun eða drögum að áætlun var gert ráð fyrir að þarna mætti reisa 350–400 mw. virkjun. Við þessa athugun á s.l. sumri töldu þeir sennilegt að þarna mætti jafnvel bæta einhverju við.

Hér er vitanlega um svo stóra framkvæmd að ræða, að það er vart hugsanlegt að þetta verði gert í einum áfanga. En sérfræðingar telja að það sé möguleiki að skipta þessu verki í einhverja áfanga sem yrðu okkur viðráðanlegir. En það er vitanlega mjög mikils virði fyrir okkur að vita hvaða möguleika við höfum í þessum efnum til þess að geta tekið þá bestu kosti sem völ er á hverju sinni þegar þörf krefur og ákvörðun þarf að taka um framhaldandi virkjanir. Ég vil því vænta þess að Alþ. sjái sér fært að afgreiða þessa till. nú. Ég legg til að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn. til meðferðar.