27.04.1977
Efri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3786 í B-deild Alþingistíðinda. (2711)

226. mál, Innkaupastofnun ríkisins

Flm. (Albert Guðmundsson):

Forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til 1. á þskj. 471 um breyt. á 1. nr. 72 frá 5. júní 1947, um innkaupastofnun ríkisins, svo hljóðandi:

„2. gr. laganna hljóði svo:

Stjórn innkaupastofnunarinnar skipa 5 menn, kosnir hlutbundinni kosningu á Alþ. til fjögurra ára í senn, ásamt jafnmörgum til vara. Stjórnin hefur yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar og tekur lokaákvarðanir um öll innkaup og framkvæmdir. Fjmrh. skipar formann stjórnar til eins kjörtímabils í senn.

Forstöðumaður stofnunarinnar skal skipaður af fjmrh. að fengnum till. stjórnar.

Að öðru leyti skal starfsemi stofnunarinnar ákveðin með reglugerð er fjmrh. setur.“

2. gr.: „Lög þessi öðlast nú þegar gildi.“

Og ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa grg.:

„Það er kunnara en frá þurfi að segja, að starfsemi innkaupastofnunar ríkisins hefur sætt nokkurri opinberri gagnrýni á liðnum árum. Skoðanir hafa verið skiptar um sum þeirra atriða sem gagnrýnd hafa verið, en um önnur hefur ekki þurft að deila. Með 1. nr. 63 frá 1970 eru umsvif innkaupastofnunarinnar aukin verulega frá því sem eldri lög kváðu á um og margar veigamiklar ákvarðanir eru þar teknar um inn­kaup og framkvæmdir er snerta hagsmuni alþjóðar. Veltur því á miklu að starfsemi stofnunarinnar og ákvarðanir, er hún tekur, séu í fullu samræmi við vilja þings og þjóðar. Mun láta nærri að vörusala stofnunarinnar og verksamningar, er hún gerði á síðasta ári, nemi nálægt 4 milljörðum kr. samtals.

Með frv. þessu er því lagt til að Alþ. kjósi sjálft stjórn stofnunarinnar og tryggi með því að stefnu þess sé fylgt í öllum meiri háttar mál­um er stofnunin á ákvörðunarvald í og að þess sé jafnan gætt að starfseminni sé gert að fylgja viðteknum viðskiptavenjum.“

Ég vil leyfa mér að gera það að till. minni, að þessu frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. með von um að hún geri breytingu um fjölda stjórn­armanna úr fimm, eins og segir í till., í sjö af skiljanlegum ástæðum. Ég sé ekki ástæðu til þess að tala lengra mál fyrir þessari till., hún skýrir sig sjálf.