27.04.1977
Efri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3793 í B-deild Alþingistíðinda. (2730)

233. mál, ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður vildi láta almenning um að ráða sínum venjum. Ég er honum í raun og veru alveg sammála í þessu efni, a. m. k. svo lengi sem það er unnt, og þess vegna finnst mér alveg ástæðu­laust að það sé verið að hafa áhrif á venjur almennings með því að auglýsa vöruna, hvort sem það eru fallegar stelpur eða bátar sem fylgja með. Það er engin ástæða til þess. Þess vegna er alveg rétt að banna þetta.

Hann hafði áhyggjur af fjmrh. ef það skyldi minnka eitthvað sala á sígarettum. Ég held að hann geti verið alveg rólegur fyrir því. Ef það minnkaði eitthvað sala á sígarettum, ég tala nú ekki um ef það minnkaði eitthvað sala á áfengi líka, þá mundi innan tíðar lífið verða miklu léttara og áhyggjuminna fyrir fjmrh. og ég tala nú ekki um heilbrrh., því að búið er að sanna það að hjá mjög verulegum hluta af því fólki, sem lendir á sjúkrahúsum og lendir í langvar­andi heilsuleysi, stafa örðugleikar þess að ein­hverju leyti af notkun á ávanaefninu tóbaki og vímugjafanum alkóhóli. Og það er nú að koma í ljós betur og betur, að tóbaksreykingar eru miklu skaðlegri en nokkur hafði áður gert sér grein fyrir, og það er þess vegna sem þjóðir eru að rumska og reyna að hafa áhrif á neyslu­venjur.

Það er líklega óvíða sem þetta hefur komið jafnvel fram eins og hér á landi. Fyrir síðustu heimsstyrjöld var það undantekning ef konur í þessu landi reyktu, og þá var það líka undantekning ef konur á Íslandi fengu lungnakrabba. En núna þessi árin er það að ske, að lungna­krabbi er að verða jafntíður hjá konum og körl­um. Ég er ekki að segja að þetta sé vísindaleg sönnun þess, að lungnakrabbinn stafi fyrst og fremst af reykingum. Ég er ekki að halda því fram. Hins vegar er vitað að þetta er ein orsök hans, og þetta virðist hafa komið sérstaklega greinilega fram einmitt hjá okkur. Kannske er það heldur engin tilviljun og kannske er það eitthvað í sambandi við þessar staðreyndir að íslenskar konur lifa 5–6–7 árum lengur en karlarnir, en þær hafa notað áfengi og tóbak í miklu minni mæli en við karlarnir og það er m. a. þess vegna sem þær lifa lengur.

Ég ætlaði nú ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Mér þykir vænt um að það er fram komið. En ég held að það vanti þó þarna það sem kannske gerir gæfumuninn um það, hvort við reykjum mikið eða lítið, og það er það, að tóbak verður að vera dýrt. Ef þarna væri sem sagt tvöföldun á verðinu á hverjum pakka, þá væri ég ánægður með það. Það er ekki nokkur vafi á því, hvort sem er um tóbak eða áfengi að ræða, að hátt verðlag er eitt öflugasta og besta ráðið til þess að minnka neysluna, og það er að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt. En ég held að þetta út af fyrir sig komi að nokkru haldi. Það verður að viðurkenna, að það er rétt að inn munu streyma erlend tímarit með alls konar auglýsingum um tóbak, og einkum munu myndir í sjónvarpi halda áfram að hafa sín áhrif. En því meira sem gert er til þess að reyna að leið­beina ungu fólki eða a. m. k. láta það vera að telja það á að nota tóbak, því betra fyrir þjóð­félagið að mínu viti.