27.04.1977
Efri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3799 í B-deild Alþingistíðinda. (2735)

233. mál, ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil þakka hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir hvað þeir hafa tekið þessu máli vel allir, að undanskildum hv. 2. þm. Norðurl. e., en ég vil aðeins segja við hann örfá orð.

Þetta frv. er ekki nýtt, eins og aðrir ræðumenn hafa bent á. Það er í lögum bann við auglýsing­um á tóbaki og tóbaksvarningi sem hefur verið farið nokkuð fram hjá. Er nú með þessu frv. komið í veg fyrir slíkt, að öðru leyti en því sem hv. síðasti ræðumaður gat um erlend rit sem eru flutt til landsins. Við því verður ekki séð. Hv. þm. spurði hvort það væri ætlunin að banna innflutning á slíkum ritum. Það held ég að engum hafi dottið í hug að gera, og það er auð­vitað agnúi að þessar auglýsingar koma inn í landið. Við erum ekki með þessu frv. að gera annað en breytingu frá því, sem í gildi hefur verið, og jafnframt að framkvæma vilja Alþ. um frekari aðgerðir samkv. þáltill. þeirri sem ég vitnaði til í framsöguræðu minni og var samþ. 26. febr. 1976. Ég taldi í framkvæmd ótækt að hafa þessar n. tvær og það yrði auðvitað að hafa hér eina n., sem færi með framkvæmd þess­ara mála í umboði rn., og jafnframt þessa trygg­ingu á fjármagni til að standa undir þessum kostnaði. Ég tel að til þess að tryggja að þetta framlag verði tekið inn í fjárl. næsta árs sé nauðsyn að þetta frv. nái fram að ganga, og eftir því sem ég hef heyrt á hv. þm., þá ætti það auðveldlega að takast í þessari d., og von­andi fær það svipaðar viðtökur í nefnd.