27.04.1977
Efri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3800 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. var upprunalega flutt til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út í sumar til leiðréttingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, en það eru tvær fyrstu gr. frv. Þar urðu mistök við lokaafgreiðslu málsins hér á Alþ. sem ekki var fært annað en að leiðrétta með brbl., en þau tóku gildi 1. júlí á s. l. ári.

Þá er enn fremur frá sjútvrn. vegna framkvæmdar laganna um fiskveiðilandhelgi Íslands gerð till. um að breyta nokkuð í sambandi við stjórnun veiðanna. Það er í 9. gr. frv. og er á þá leið, að þegar Hafrannsóknastofnunin eða eftir­litsmenn hafa lokað ákveðnum svæðum, þá höfðu þeir heimild til þess að loka í þrjá sólarhringa, en það hefur komið í ljós við þessar aðgerðir, að nauðsynlegt er að lengja þann tíma sem þessi heimild nær yfir, og féllst rn. á að það væri allt að sjö sólarhringum. Enn fremur eru frekari og fyllri ákvæði um hvernig skal tilkynna skyndi­lokanir eftir að þær hafa verið ákveðnar, en þær skal tilkynna Landhelgisgæslunni og einnig skal sjútvrn. tilkynnt um slíkar skyndilokanir og forsendur þeirra. Rn. á síðan að ákveða í sam­ráði við Hafrannsóknarstofnunina eftir sjö sól­arhringa, hvort og þá hvaða ráðstafanir eru nauðsynlegar til verndunar ungfisks og friðaðra tegunda á viðkomandi svæði.

Aðrar greinar frv. fjalla um ákveðnar veiðiheimildir, og þær eru þannig til komnar, að á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna voru þessar samþykktir gerðar og auk þess ein samþykkt til viðbótar og þess óskað við sjútvrn. að það flytti þessar brtt. við lög um fiskveiðiland­helgi Íslands. Þessar till. fengu mjög ítarlega skoðun í sjútvrn. og var leitað umsagnar um þær hjá Hafrannsóknastofnun og Fiskifélagi Íslands og fleiri aðilum. Varð að ráði eftir þessa athug­un að sjútvrn. óskaði eftir því við sjútvn. Nd. að hún flytti þessar till. við þetta frv. ásamt þeirri brtt. sem ég gerði að umræðuefni áðan varðandi stjórnun veiðanna og er komin eingöngu frá sjútvrn. Þó var ein till., sem kom frá hagsmuna­samtökum útvegsins, sem rn. treysti sér ekki til að taka upp og var mótfallið að taka upp, en það var varðandi tiltekna aukningu á botnvörpuveið­um nokkurra skipa fyrir Norðurlandi sem hefði valdið enn meiri gagnrýni en sumar af þessum till. og mjög hæpið, þar sem hér var um að ræða ákvæði fyrir aðeins örfá skip og það á svæðum sem eru jafntakmörkuð fyrir botnvörpu­veiðum gagnvart þeim skipum, sem fyrir eru, eins og Norðurland mestallt er.

Ástæður fyrir því, að sjútvrn. tekur upp þess­ar till. sem hér liggja fyrir og eru nú komnar inn í frv. frá Nd., eru þessar: Í fyrsta lagi er till. varðandi Breiðafjörðinn sem var mikið ágreinings­efni á lokastigum þessa máls hér á hv. Alþ. í báðum d., og var á engan hátt hægt að segja að hafi verið fullkomlega réttlát afgreiðsla á því máli. En málið var komið í algjöra sjálfheldu og hefur verið afar fast sótt á af snæfellingum að fá hér breytingu. Að vísu má segja að sjútvrh. hafi heimild til þess að þrengja togveiðar stærri togara og þar af leiðandi geti hann komið til móts við óskir snæfellinga í þessum efnum, en þó ekki nema að takmörkuðu leyti. Ég fyrir mitt leyti tel miklu betra og þægilegra fyrir sjútvrn. að öllu leyti að Alþ. staðfesti þessa breytingu í stað þess að gera með reglugerð þrengri kost stærri togveiðiskipa. Og ég tel ákaflega mikils virði að samkomulag náðist um þetta atriði á aðal­fundi L.Í.Ú. og við þá sjómenn og skipstjórnar­menn sem margir hafa rætt við mig síðar, bæði um þetta mál og önnur þau sem hér liggja fyrir. Ég held að það sé óhætt að segja, að það séu engar stórdeilur eða neinn alvarlegur ágreiningur uppi um þessar till. að undanskilinni till. um svæðið frá Hvítingum að Hvalnesi. Þar var mikil óánægja hjá nokkrum þm. í Nd., einkum þm. Austurlands. Hins vegar er hart á þessa breyt­ingu sótt af ýmsum öðrum, sérstaklega frá Vestmannaeyjum og jafnframt að hluta til frá Horna­firði, svo að ég láti koma hér fram þessa andstöðu, en þessar till. náðu fram að ganga, eins og þær liggja fyrir í þessu frv.

Þetta mál er nú búið að vera alllengi fyrir Nd. Ég hefði kosið að það hefði verið komið miklu fyrr til þessarar hv. d., en við það hef ég ekki ráðið. En málið liggur ákaflega ljóst fyrir og ég vænti þess að hv. sjútvn. taki þetta frv. fyrir sem allra fyrst og afgreiði það. Ég legg sérstaka áherslu á hina sjálfsögðu leiðréttingu, sem auð­vitað er enginn ágreiningur um, og svo aftur breytingu varðandi stjórnun veiðanna. Enn frem­ur er ég fyrir mitt leyti sem þm. stuðningsmaður þess og meðmæltur því að þessar aðrar brtt. verði samþ. óbreyttar. Ég held að málinu verði stefnt í töluverða tvísýnu ef verða gerðar á því breytingar í þessari d., þannig að það gæti svo farið að það dagaði þá uppi. En það væri mjög slæmt að mínum dómi vegna þessara ákvæða sem ég hef nefnt.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.