27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3802 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Þetta frv., sem hér er flutt, er til staðfestingar á brbl. um kaup og kjör sjómanna sem gefin voru út 6. sept. á þessu hausti.

Eins og þdm. er í minni, þá fór fram endurskoðun á hinu svokallaða sjóðakerfi sjávarútvegsins. Til þeirrar endurskoðunar kom vegna beiðni fulltrúa sjómanna og útvegsmanna um að ríkisstj. skipaði n. til þess að láta fara fram ítar­lega athugun á sjóðakerfinu og gera till. um breytingar á því. Ríkisstj. varð við þessari beiðni, og mér var falið að skipa þessa n. Í henni áttu sæti fulltrúar Sjómannasambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna, Fé­lags ísl. botnvörpuskipaeigenda, Alþýðusambands Austfjarða, Alþýðusambands Vestfjarða og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Þessi n. tók fljótlega til starfa undir forustu forstjóra Þjóðhagstofnunarinnar, Jóns Sigurðssonar, sem var eini fulltrúi ríkisvaldsins í n., og hún vann mikið og vandasamt starf. En forsendur þess, að undir það samkomulag væri ritað, voru þær, að ríkisvaldið tæki á sig ákveðn­ar skuldbindingar til lausnar þessu vandamáli og deilumáli sem búið var að vera um alllangt skeið. Ég átti marga fundi með formanni n. og sömuleiðis átti ég fund með n. allri og það oftar en einu sinni til þess að ná samkomulagi um tiltekin deiluatriði sem þar bar á milli. Annars vegar voru kröfur um algert afnám flestra sjóða. Hins vegar voru kröfur um tak­markaðar breytingar. Þó var sérstaklega við­kvæmt mál Stofnfjársjóður fiskiskipa, og gerðu útgerðarmenn þær kröfur að hann yrði óbreytt­ur frá því sem hann var í lögum. En samkomu­lag varð þar um nokkrar breytingar.

Allt þetta leiddi af sér að samkomulag náðist í þessari n. sem undirritað var með yfirlýsingu, þar sem aðilar lýsa því yfir að þeir eru sam­þykkir framlögðum drögum að kjarasamningum aðila og samningarnir verða undirritaðir þegar ákvörðun um fiskverð frá 15. febr. 1976 liggur fyrir í samræmi við forsendur samningsdrag­anna.

Breytingin á sjóðakerfinu gerði kleift að hækka almennt fiskverð mjög verulega, og er talið að dómi Þjóðhagsstofnunarinnar að hækk­un fiskverðsins hafi verið að meðaltali um 33%, þar af 24% vegna þessara kerfisbreytinga á sjóðunum.

N. sendi mér till. sínar um frv. til l. um útflutningsgjald og frv. til l. um Stofnfjársjóð fiskiskipa og lagði á það megináherslu að hér væri um samningsatriði að ræða á milli aðila vinnumarkaðarins sem ekki mætti breyta af ríkisvaldinu efnislega. Þessi frv. voru því lögð fram hér á hv. Alþ. efnislega óbreytt og í fullu samræmi við óskir og samþykktir þessarar n. Alþ. sýndi þessum málum mikinn áhuga og greiddi fyrir að málin næðu fram að ganga á mjög skömmum tíma, og þessi frv. urðu að lögum. Þau voru forsenda fiskverðshækkunar­innar, og forsenda þeirra var að um kaup- og kjarasamninga tæki gildi það samkomulag sem aðilar gerðu með sér.

Mér var á það bent af fleiri en einum, að rétt væri að setja inn í lög um útflutningsgjald og lög um Stofnfjársjóð fiskiskipa að þau tækju ekki gildi fyrr en kjarasamningar væru undir­ritaðir og tækju gildi. Ég vissi alveg hvernig þessi mál stóðu. Ég vissi að sumir aðilar vildu ekki breytingar á sjóðakerfinu. Og ég vissi enn fremur að innan sjómannasamtakanna var mik­ill klofningur um hversu langt skyldi ganga, og jafnframt var ágreiningur um hvaða aðferð ætti að beita í samningsgerðinni. Þar komu til greina tvær leiðir. Önnur leiðin var lækkun skiptaprósentunnar frá gildandi samningum að þessum hluta sem fulltrúar sjómanna í n. höfðu fallist á. Hins vegar voru uppi till. um að taka upp svokallaða aðfangaprósentu, sérstaklega vegna þeirrar miklu breytingar sem afnám sjóðakerfis­ins leiddi af sér, að útgerðin yrði að taka á sig alla olíuverðshækkunina við niðurlagningu olíu­sjóðsins. Það voru einkum fulltrúar Farmanna- ­og fiskimannasambands Íslands sem héldu fram að miklu eðlilegra væri að fara þessa leið. En fulltrúar undirmanna í stéttarfélögum sjó­manna, sem tóku þátt í samningsgerðinni, töldu að það væri betri aðferð að breyta skiptaprósent­unni, það hefði fyrir allmörgum árum áunnist að olíufrádráttur var lagður niður með öllu og hann lagður á útgerðarmennina. Rök hinna voru þau, að þetta háa verð á olíunni hlyti að vera tímabundið og því væri rétt að líta til þess eins og á stæði, en halda sér að öðru leyti við óbreytta skiptaprósentu. Í þessu stappi var stað­ið þó nokkra stund, og það varð svo að lokum ofan á að skiptaprósentuleiðin varð fyrir valinu, því að ekki er hægt að hafa aðra aðferð fyrir yfirmenn og aðra fyrir undirmenn. Þetta skapaði strax allmikla óánægju hjá mönnum.

Ég sagði að mér hefði verið í lófa lagið og sömuleiðis hverjum þm. að setja ákvæði um að lögin tækju ekki gildi fyrr en allt lægi fyrir. En þá væru ekki heldur í dag orðnar neinar breytingar á sjóðakerfinu. Ég treysti á undir­skriftir og drengskap manna að standa við sín­ar undirskriftir. Það leyfði ég mér að gera. Það var alls ekki ætlun nokkurs manns að sjómenn fengju 33% fiskverðshækkun, þar af 24% út á þessa grundvallarbreytingu, en tækju ekkert tillit til þess í sínum kjarasamningum.

Síðan voru þessir samningar lagðir undir atkv. í stéttarfélögunum, og þá gerist það að þeir eru samþykkir í nokkrum félögum, en felldir í öðrum, en það skapaði þvílíka ringulreið í sam­tökum sjómanna að enginn fékk við neitt ráðið. Þessir félagsfundir voru mjög fámennir víðast hvar, ef ekki alls staðar, og í atkvgr. voru samn­ingar ýmist felldir eða samþykktir með örfárra atkv. mun. Allt niður í 5 félagsmenn í einstöku félagi tóku á félagsfundi þátt í afgreiðslu þessa mikilvæga máls.

En í stað þess að halda verkfalli áfram, eins og búið var að tilkynna og verkfall var hafið, þá leystist verkfallið upp án þess að því væri aflýst. Menn, sem greiddu atkv. á móti samn­ingum í sínu stéttarfélagi, fóru jafnvel í aðra verstöð og réðu sig þar á báta, þar sem samn­ingarnir höfðu verið samþykktir. Svona var ringulreiðin orðin á öllum sviðum, því miður.

Tvö sambönd, Alþýðusamband Austurlands og Alþýðusamband Vestfjarða, skrifuðu undir yfirlýsinguna um skuldbindingu að ganga til samninga með fyrirvara um sérsamninga og um sér­kröfur í sínum byggðarlögum. Alþýðusamband Austurlands fylgdi þessum fyrirvara sínum eftir með viðræðum við viðsemjendur sína um sérsamninga og náðist samkomulag þar um sem var undirritað af trúnaðarmönnum beggja. Aft­ur fóru samningar þar undir atkv. og voru felldir. En Alþýðusamband Vesfjarða hafði nokkuð annan hátt á. Það undirritaði þetta skýlausa samkomulag, en fór aldrei, ekki af neinni alvöru, í neinar samningaviðræður við viðsemjendur sína og lét þetta lönd og leið.

Mér finnst rétt að lesa hér upp það samkomu­lag sem þessir aðilar gerðu og undirritað er 8. febr. á s. l. ári, en þar segir:

„Sjómannasamband Íslands, Alþýðusamband Vestfjarða, Alþýðusamband Austurlands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, fyrir hönd sjómanna, og Landssamband ísl. útvegsmanna og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda f. h. útvegsmanna, gera með sér samkomulag um eftir­greind atriði:

1. Þar sem ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún muni beita sér fyrir setningu laga og reglu­gerða í samræmi við till. og ábendingar, tillögu nefndar um sjóði sjávarútvegs og hlutaskipti, lýsa aðilar því yfir, að þeir muni gera þá samn­inga sín á milli, sem nú eru lausir um kjör sjómanna, á grundvelli tillagna og ábendinga sem fram koma í skýrslu n., dags. 19. jan. 1976.

2. Aðilar lýsa því yfir enn fremur, að þeir muni beita sér fyrir því, að heimildir verði veittar til þess að taka þegar upp samninga á þessum grundvelli um breytingar á þeim kjara­samningum aðila, sem ekki hefur verið sagt upp, með sama hætti og væru þeir lausir.

3. Aðilar þessa samkomulags gera ráð fyrir að ríkisstj. láti fara fram sérstaka athugun á kjör­um áhafna og afkomu útgerðar á stærri togurum (þ. e. 500 brúttólestir og yfir) við þessar breyt­ingar. Athugun þessi verði gerð í samráði við samtök sjómanna og útvegsmanna og fulltrúa þeirra byggðarlaga, sem sérstakra hagsmuna eiga að gæta, með það fyrir augum að tryggja atvinnu sjómanna og rekstur sjávarútvegsfyrir­tækja á þessum stöðum, sbr. og bréf sjútvrn. til Félags ísl. botnvöruskipaeigenda, dags. 3. júlí 1975.“

Og undir þetta samkomulag skrifa f. h. Sjómannasambands Íslands Jón Sigurðsson, f. h. Alþýðusambands Austurlands Sigfinnur Karls­son, f. h. Landssambands ísl. útvegsmanna Kristj­án Ragnarsson, f. h. Farmanna- og fiskimanna­sambands Íslands Ingólfur Stefánsson, f. h. Al­þýðusambands Vestfjarða Pétur Sigurðsson og f. h. Félags ísl. botnvöruskipaeigenda Ingimar Einarsson.

Samkv. þessu og því öðru, sem ég hef sagt hér áður um þessi mál, hangir þetta allt saman: kerfisbreytingin á sjóðunum, fiskverðshækkunin og samningar um kaup og kjör sjómanna miðað við þessar breytingar, eins og samninganefndin lagði fyrir. Hitt er aftur rétt, að vitaskuld eru allir samningar háðir því að félagsmenn sam­þykki þá. En þegar samningar eru felldir er um leið verið að fella þessa kerfisbreytingu, og þá má því segja að þeir, sem ekki vilja semja upp á þessi býti, hafi hafnað kerfisbreytingunni, hafi því hafnað að leggja niður sjóðakerfið í þessari mynd og hafnað því að fá þá fiskverðs­hækkun sem leiddi af sjóðakerfisbreytingunni. Hinir, sem sömdu, áttu fullan rétt á því að fá þetta, því að þeir höfðu staðið við þessa samninga. Útvegsmenn og aðrir, sem skrifuðu undir samkomulagið, skrifa undir það á sömu forsendu og fulltrúar sjómanna, að þetta hangi allt saman.

Sáttanefnd ríkisins hélt þrátt fyrir þessa afgreiðslu á samningum áfram sínum störfum, að vísu með mjög löngum hléum. Það má segja að þar hafi átt sér stað löng hlé af þeirri ástæðu einni, að menn teldu rétt að bíða um sinn og sjá hvort eitthvað rættist úr. Hinn 28. júlí er borin fram till. sáttanefndar sem felur í sér nokkra breytingu til hins betra fyrir sjómenn. Sú till. var til lítillar gleði útvegsmönnum. Ég átti margar viðræður við þessa aðila alla. M. a. reyndi ég eins og ég mögulega gat að hafa þau áhrif á útgerðarmenn, að þeir samþykktu þessa sáttatill., og sömuleiðis á forvígismenn sjó­mannasamtakanna, að þeir skýrðu þessa sátta­till. og samningsgerð alla miklu betur fyrir sín­um félagsmönnum en gert var í febr. og síðar á þeim fámenu fundum sem voru haldnir. Ég þori að fullyrða að það hafi verið mikill mis­brestur á því, að leiðtogar sjómanna hafi fylgt þessum málum eftir. Það var ákveðið að hafa almenna atkvgr. í félögum þeirra, og hún fór fram á þann veg að það tóku 274 þátt í atkvgr. og miðlunartill. sáttanefndar var felld með 140:122 atkv., 7 seðlar voru auðir og 5 ógildir.

Til marks um þátttöku í atkvgr., sem stóð í heilan mánuð, þykir mér rétt að upplýsa hvernig þátttakan var í hinum einstöku félögum. Sjómannafélag Reykjavíkur, þar greiddu 18 atkv., í Aftureldingu á Hellissandi 12, Jökli í Ólafs­vík 9, Stjörnunni í Grundarfirði 25, Verkalýðs­félagi Stykkishólms 26, Fram á Sauðárkróki 17, Ársæli á Hofsósi 4, Vöku á Siglufirði 11, Sjó­mannafélagi Eyjafjarðar 46, Jökli, Hornafirði, 13, í Verkalýðs- og sjómannafélagi Miðneshrepps 6, Gerðahrepps 5, Keflavíkur 19, í Vélstjórafélagi Suðurnesja 36 og í Sjómannafélagi Hafnarfjarðar 21. Þetta er dapurleg útkoma í atkvgr. við þriðju gerð til sátta í þessari deilu í jafnfjölmennum samtölum og sjómannasamtökin eru.

Það má segja að í aðildarsamtökum Far­manna- og fiskimannasambands Íslands hafi atkvgr. þó verið nokkru betri sótt, en þar fór fram landsatkvgr. um alla samninga í einu lagi og voru atkv. talin 16. mars. Þar voru samn­ingarnir felldir með 198:135 atkv., svo að þrátt fyrir þessi úrslit voru auðvitað skoðanir þeirra, sem þátt tóku í atkvgr., mjög skiptar um samn­ingana.

Vinnuveitendur samþykktu sáttatillöguna frá 28. júlí.

Þessi brbl., sem út voru gefin 6. sept, kveða á um það, að samningar þeir, sem samninga­nefndir sjómanna og útgerðarmanna undirrituðu 29. febr., 1. og 27. mars, 14. maí og 28. júlí á s. l. ári, en það var sáttatillaga sáttanefndar­innar, og eru prentaðir sem fskj. með þessu frv., skuli gilda um kaup og kjör sjómanna um land allt eftir því sem við á fyrir hvert félag, sem aðild átti að þeim samningum, og fyrir það tímabil, sem samningarnir kveða á um. Fyrir þau félög sjómanna, sem ekki áttu neina aðild að samningum þessum, skulu þeir einnig ákveða kaup og kjör eftir því sem við getur átt og með þeim hætti sem tíðkast hefur. Með því orðalagi er því náð, að þar sem hlut­fallið var annað á skiptaprósentu, þar sem það var hlutfallslega hærra en á þeim stöðum þar sem samningarnir voru samþykktir, ætti það skiptahlutfall að haldast. Sáttatillagan frá 28. júlí á einnig að gilda, eftir því sem við á, fyrir þau félög sjómanna sem ekki áttu aðild að honum.

Í 2. gr. þessara brbl. segir að verkbönn og verkföll, þ. á m. samúðarverkföll, eða aðrar aðgerðir í því skyni að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða eru óheimil, sbr. 17. gr. 1. nr. 88 frá 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Þó er samningsaðilum, sbr. 1. gr. frv., heimilt að koma sér saman um breyt­ingar á þar greindum samningum, en eigi má knýja þær breytingar fram með vinnustöðvun.

Það hefur áður komið fram, að ekkert verk­fall hafi verið og því ástæðulaust að banna verkföll og verkbönn. En því er til að svara, að verkföllum var ekki aflýst. Verkföllin guf­uðu upp vegna þess að félögin réðu ekki við meðlimi sína. Þess vegna var hægt að fara í verkfall hvenær sem var.

En það, sem máli skiptir, og það, sem er kjarni þessa máls frá byrjun og til þessa dags, er, að staðið sé við það sem um var samið og allt hékk saman og allir treystu að mundi ganga fram. Það var ekki verið að knýja þessa samn­inga fram á nokkrum dögum eða vikum. Það var búið að vera í 7 mánuði að basla með þetta fram og til baka með þessum líka glæsilega árangri, eins og síðasta atkvgr. ber vott um. Það er ekki verið að binda hér hendur samn­ingsaðila eða launþega langt fram í tímann. Það var verið að binda samningana við stærri gerðir togara til áramóta, en þá runnu þeir samningar út samkv. ákvæðum þeirra. Síðan það gerðist, að þeir samningar runnu út, hafa engir samningar verið gerðir við stóru togarana, og eftir því sem ég best veit hafa verkalýðsleiðtogar ekki lagt fram neinar kröfur, svo að brbl. gilda í reynd gagn­vart þeim þó að senn séu 4 mánuðir liðnir frá því að þeir féllu úr gildi, vegna þess að ekkert hefur verið gert til þess að ná nýjum samn­ingum. Það sýnir því ekki að hér hafi verið lagðar harðar kvaðir á þessi félög sjómanna. Aðrir samningar renna út 15. maí.

Það er ekki hægt að lifa í sambúð á milli sjómanna og útgerðarmanna með þeim hætti sem hafði skapast. Og það er raunasaga út af fyrir sig hvernig sumir menn hafa tekið þessu, tekið því með miklu upphlaupi og brambolti, en létu sér fátt um finnast þegar verið var að leita sátta og láta fara fram atkvgr. með þeim hætti sem ég hef þegar lýst. Þá var enginn áhugi á því að hvetja sjómenn eða meðlimi sjómanna­félaganna til þess að neyta atkvæðisréttar síns og sýna það svart á hvítu hver var vilji félags­manna almennt. Þá var enginn hvattur til neins og menn héldu að sér höndum í þessum efnum. En þegar á að skera á og ganga eftir því að haldið sé við það samkomulag sem gert var og ég lýsti hér í upphafi máls míns, þá var genginn berserksgangur að mótmæla þessu frv.

Með þessu frv. er ekkert verið að koma inn á kjaramál sjómanna að öðru leyti en því, að það er verið að lögfesta að þeir, sem njóta hækkaðs fiskverðs vegna kerfisbreytingarinnar, verði all­ir að taka þátt í því sama. Annað væri mismun­un, að ætla að láta þá, sem hefðu samið, taka það á sig, en hina, sem neita að semja, vilja ekki einu sinni ræða samninga af neinni alvöru, láta þá fá 24% fiskverðshækkun, sem leiddi af sjóðakerfisbreytingunni, og taka ekki tillit til neins sem var að gerast í kringum þá. Þeir hefðu þá átt að segja strax: Við viljum þetta ekki. Þá var það ákveðið að sjóðakerfisbreytingin ætti sér ekki stað.

Ég get ekki látið hjá líða, þegar ég fylgi þessu máli úr hlaði, að nefna þær breytingar sem orðið hafa á fiskverði, á skiptaverði, á árunum 1974–1976. Samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofn­unar var vísitala skiptaverðmætis botnfiskafla 51% hærri í ársbyrjun 1976 en tveimur árum fyrr, humarafla 43% hærri, hörpudiskafla 113% hærri, en hins vegar lækkaði vísitala skipta­verðmætis rækjuafla um 4% og loðnuafla um 16% á þessu tímabili. Ef gert er ráð fyrir því, að veitt hafi verið hlutfallslega jafnmikið af einstökum fisktegundum á tímabilinu frá 1. jan. til 15. febr. 1976 og á sama tíma á árinu 1975, hefur vísitala skiptaverðmætis alls afla verið að meðaltali 45% hærri í ársbyrjun 1976 en tveimur árum fyrr. Almennt fiskverð var óbreytt frá janúarbyrjun til ágústloka 1974, en hefur síðan hækkað nokkuð 1. jan., 1. júlí og 1. okt. ár hvert og svo síðast 1. jan. á þessu ári.

Við sjóðakerfisbreytinguna 16. febr. 1976 hækkaði fiskverð verulega. Ef gert er ráð fyrir sömu samsetningu botnfiskafla 1976 og var 1975, þá hefur skiptaverðmæti þess afla hækkað um 33% við sjóðakerfisbreytinguna, humarverð hækkað um 67%, rækjuverð um 38% og verð á hörpudiski um 35%. Eftir sjóðakerfisbreyt­inguna hefur almennt fiskverð hækkað tví­vegis, 1. júlí og 1. okt. Auk þess hækkaði verð karfa um 46% 8. júlí s. l. Samtals hefur al­mennt fiskverð hækkað um 63% frá því fyrir sjóðakerfisbreytingu miðað við sömu aflasam­setningu og 1975 og um 146% frá ársbyrjun 1974. Humarverð hefur hækkað um 87% frá því fyrir sjóðakerfisbreytinguna og um 167% frá ársbyrjun 1974. Rækjuverð hefur hækkað um 90% frá 15. febr. s. l., en ekki nema um 82% frá ársbyrjun 1974. Verð á hörpudiski hefur hækkað um 19% frá því fyrir sjóðakerfisbreyt­ingu, það hefur lækkað seinni hluta ársins 1976, en um 154% frá ársbyrjun 1974. Miðað við að hlutfallsleg skipting verðmætis milli fisktegunda hafi verið sú sama á árinu 1976 og var 1975, hefur skiptaverðmæti alls afla hækkað að meðal­tali um 32% við sjóðakerfisbreytinguna, um 61% frá því sem var fyrir hana og um 133% frá ársbyrjun 1974.

Um síðustu áramót er talið að hið almenna fiskverð hafi að jafnaði hækkað um liðlega 8%. Miðað við ársmeðaltal 1976 hefur loðnan hækkað um 38%, en milli vetrarvertíðar 1976 og 1977 nam hækkunin 75–80%. Miðað við ársmeðaltal 1976 hefur rækjan hækkað um 40%, en hækkun frá verði í des. s. l. er um 12%.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég hef skýrt aðdragandann og ég undirstrika það, að þessi brbl. voru ekki sett til þess að blanda sér almennt í kjaradeilu á milli sjómanna og útvegsmanna, heldur fyrst og fremst til þess að samræmis væri gætt í þeim samningum sem fóru fram á þessu tímabili og voru forsenda þess að þessi kerfisbreyting gæti átt sér stað, að fiskverð hækkaði og sam­komulag næðist um kaup og kjör.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að frv. verði vísað til hv. sjútvn.