27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3809 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Áður en ég kem að því að ræða það mál, sem hér er nú til umr., vil ég víkja aðeins örfáum orðum að fullyrðingu sem hæstv. sjútvrh. viðhafði hér fyrr í vetur í útvarpsumr. frá Alþ. og varðar mig og það mál sem hér er til umr. En í þessum umr. fullyrti hæstv. sjútvrh., að ég hefði margoft kom­ið að máli við sig og óskað eftir því að hann eða ríkisstj. gripi inn í þær deilur sem þá voru uppi meðal sjómannasamtakanna annars vegar og hins vegar útvegsmanna.

Það lýsir í sjálfu sér smekkvísi hæstv. ráðh. í málflutningi, að þetta gerir hann eftir að ég hafði talað í fyrri umferð umr., vitandi það að vonlaust var fyrir mig að svara þessum áburði hans. En auðvitað er það mál hvers og eins hv. þm. hvernig hann hagar sínum málflutningi og hvernig viðkomandi þm. er samansettur í því tilfelli að kunna almenna mannasiði og tala út frá því sjónarmiði. Þó svo að það hefði gerst, að ég hefði hvatt eða beðið hæstv. sjútvrh. í einka­viðtölum að fara þessa leið, sem hann sjálfur ákvarðaði að fara, þá sýnir það einnig smekk­vísi hæstv. ráðh. að vitna til slíks einkaviðtals í almennum umr. á Alþ. En þegar litið er til þess, að þessi fullyrðing hæstv. ráðh. er gersam­lega staðlausir stafir og uppdiktuð sem eigið hug­arfóstur hans, þá verður það enn óskiljanlegra, að hæstv. ráðh. skuli grípa til málflutnings af þessu tagi, og sýnir í raun og veru ekkert annað og frekar en hans veika og í raun og veru vonlausa málstað í því máli sem hæstv. ráðh. hefur að verja.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum. Ég vildi í upphafi þessara umr. koma þessu að og lýsa hæstv. ráðh. ósannindamann að þessum áburði á mig og lýsa því yfir, að það eru stað­lausir stafir sem einungis hafa fæðst í hug hæstv. ráðh. Ég læt bæði hv. alþm. og aðra þá, sem þekkja hæstv. ráðh. í viðskiptum og af umgengni undanfarandi ára og kannske áratuga sumra, ekki síst vestfirðinga, um að meta það, þó að ég hefði farið fram á slíkt, að hann beitti sjómenn almennt, sjómannastéttina og ekki síst vestfirska sjómenn þeim vinnubrögðum og að­ferðum sem hann viðhafði í þessu máli, hvort hann hefði gert það þó svo ég hefði vinsam­legast beðið hann um það, hvort hann hefði farið að þessum ráðum mínum.

Ég held að það sé ljóst, að þarna hefur það gerst, eins og svo oft og allt of oft áður, að saman hafa farið ótrúlega erfiðir skapsmunir hæstv. ráðh. og einnig hitt, að hann hefur með ólíkindum vondan málstað að verja, ekki síst gagnvart eigin kjósendum úr röðum sjómanna á Vestfjörðum. Og það er það sem hefur fengið hann til þess að grípa til slíkra hluta eins og hér um ræðir í þeirri nauðvörn sem hann hafði uppi og hefur uppi enn til að verja þetta af­kvæmi sitt og hæstv. ríkisstj. En nóg um það.

Það frv., sem hér er nú til umr., er 15. mál hv. Ed. Það er nú að koma fyrir hér í síðari d. um það bil viku og tæplega þó áður en fyrirhug­að er og mun raunar ákveðið vera að Alþ. verði sent heim. Þetta mál er því búið að vera til meðferðar í Ed. allt frá byrjun þings í haust og þar til nú, að aðeins nokkrir dagar eru eftir af þinghaldinu. Ekki veit ég gjörla hver ástæðan fyrir þessu er, en ég er að ímynda mér að ástæð­an sé sú, að sumir hv. stjórnarþm. hafa ekki verið ginnkeyptir fyrir því að þurfa að standa frammi fyrir því að taka afstöðu til þessara brbl. hæstv. sjútvrh., líklega allra síst hv. stuðn­ingsmenn ríkisstj. úr Vestfjarðakjördæmi. Þá hefur ekki fýst að þurfa að taka afstöðu til þess máls sem hér liggur nú fyrir. Ég hygg að hæstv. ráðh. eigi ekki þátt í því að þetta mál hefur svo lengi legið fyrir þinginu og kannske óskir sumra hverra hv. stjórnarþm. um, að það dagaði uppi, rættust ekki. Ég hygg, hins vegar miklu fremur, að hæstv. ráðh. hafi viljað og vilji binda þessa hv. stjórnarþm. í netið með sér og þurfa ekki einn sem 1. þm. Vestf. að standa ábyrgur gagnvart vestfirskum sjómönnum og sjómannastéttinni í heild gagnvart þessari löggjöf sem hann fyrst og fremst ber höfuðábyrgð á. Ég hygg því að hann hafi gert sitt til þess að fá því framgengt, að málið kæmi hér til umr. í seinni d. og það fengi afgreiðslu í þinginu áður en það verður sent heim. Og ég vona sannarlega að sú verði reyndin, að menn fái að taka afstöðu til þessa máls hér.

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum hv. þm., að mjög mikil og megn óánægja varð á sínum tíma og er enn með þessi brbl. M. a. kom fram fyrr í vetur á Alþ. í umr. að 12500 einstaklingar höfðu undirritað mótmæli ­— harðorð mótmæli — gegn þessari lagasetningu. Og það fer ekki fram hjá neinum sem um þessi mál hugsar að þessi lög eru aðför að frjálsum samn­ingsrétti, ekki bara sjómanna, heldur og aðför að frjálsum samningsrétti verkalýðshreyfingar­innar í heild. Það þarf því engan að undra þó að bæði einstaklingar og samtök sjómanna svo og annarra launþega mótmæli kröftuglega þegar slíkt gerræði, sem ég vil kalla þessi lög, er sett á, hvort sem væri stétt sjómanna eða einhvern annan hóp launþega. Þá er ástæða til fyrir alla, sem á annað borð vilja í heiðri hafa frjálsan samningsrétt, að mótmæla slíkum vinnubrögð­um.

Þessi lög, sem hér um ræðir, dæmdu sjómenn til þess að þiggja lægri laun en þeir höfðu vilj­að sætta sig við í gegnum frjálsa samninga. Þeir voru búnir oftar en einu sinni að fella samkomu­lag sem gert hafði verið, sem ynni þó það sama og brbl. gerðu ráð fyrir.

Það verður ekki um þetta mál rætt öðruvísi en hugað sé aðeins og um það hugsað, hverjar kringumstæður voru í þjóðfélaginu, þegar þessi brbl. voru gefin út, og hvernig ástatt var að því er varðar þann hluta vinnumarkaðarins sem þessi lög taka til. Þegar þessi brbl. voru gefin út, þá var hvergi vinnustöðvun á bátaflotanum, hvergi nokkurs staðar var vinnustöðvun á fiski­skipaflotanum og hvergi nokkurs staðar var vitað til að vinnustöðvun væri yfirvofandi á fiskiskipa­flotanum, þannig að hversu réttsýnir sem menn vildu vera í garð hæstv. sjútvrh. og ríkisstj. í þeim efnum að finna upp málsvörn þeim til handa varðandi útgáfu þessara brbl., þá er engu slíku til að dreifa. Oftast, ef ekki alltaf, hefur það verið svo við útgáfu brbl., að þeim hefur verið beitt til þess að leysa yfirstandandi vinnu­deilur, sem staðið hafa, eða koma í veg fyrir að yfirvofandi vinnudeilar eða verkföll kæmu til framkvæmda með einhverjum hætti. Þetta var ekki um að ræða í þessu tilfelli, við útgáfu þessara brbl., enda var það svo með verkun þessara laga, að þau verkuðu öfugt við öll brbl. sem gefin hafa verið út. Þessi brbl. verkuðu á þann veg, að þau urðu til þess að stöðva þann flota eða a. m. k. hluta þess flota sem var í gangi allt þangað til brbl, voru gefin út, og það gerðist í kjördæmi hæstv. sjútvrh. sjálfs. Þar urðu brbl., beinlínis til þess að flotinn stöðv­aðist. Og þó að þessi lagasetning verði ekki litin öðrum augum en þeim að hún sé hnefa­högg í andlit sjómanna í heild, þá varð þessi brbl.-setning ekki hvað síst neyðarleg í garð vestfirskra sjómanna. Þar var ekki því til að dreifa, sem hæstv. ráðh. hefur haft uppi sem tylliástæðu fyrir þessari lagasetningu, að ekki væru þar samningar í fullu gildi. Samningar milli annars vegar sjómannasamtakanna á Vest­fjörðum og hins vegar útvegsmannasamtakanna voru í fullu gildi. Þeim hafði ekki verið sagt upp. Því er öðruvísi farið í öðrum landshlutum, a. m. k. sumum hverjum. Þar hafði samningum verið sagt upp og samkomulag hafði verið undir­ritað á sumum stöðum oftar en einu sinni, en það samkomulag yfirleitt fellt í sjómannafélögunum. Engu slíku var til að dreifa að því er Vestfirði varðar.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan og hefur raunar sagt áður og talað í þungum tón til líklega forsvarsmanns eða forseta Alþýðusambands Vestfjarða varðandi þetta mál og talið að hann hafi rofið drengskaparheit varðandi undirskrift á samkomulagi sem gert var á sínum tíma, — hann sagði áðan að A. S. V. hafi farið í þessu máli á annan hátt að heldur en t. d. Alþýðusamband Austurlands hafði gert, Alþýðusamband Vest­fjarða hafði aldrei farið í viðræður í sambandi við þetta mál, a. m. k. ekki í alvöru, sagði hæstv. ráðh. En hvað með hinn aðilann? Nú er það ljóst, að þegar í gildi voru samningar milli sjómannasamtakanna á Vestfjörðum og útvegs­manna, þá urðu báðir aðilar að verða um það sammála að taka upp nýtt samkomulag, ef um það næðist samstaða að breyta frá því sem var. Ég spyr hæstv. ráðh.: Var ekki sú hin sama skylda á þeim forsvarsmönnum útvegsmanna, sem undirskrifuðu þetta samkomulag, að beita sér fyrir því, að gildandi samningar á Vestfjörðum að því er varðaði sjómenn yrðu teknir upp þannig að hægt væri að breyta þeim, væri vilji fyrir hendi, til samræmis við það sem hér var verið um að tala og í sumum tilfellum var búið að gera? Eða ætlar hæstv. ráðh. að fría forsvars­menn útvegsmanna í þessum efnum á sama tíma og hann ásakar hinn aðilann, sem er forsvars­maður sjómannasamtakanna? Ef um sök er að ræða í þessu efni, sem ég tel ekki vera, þá hlýtur sú sök að vera bæði hjá fulltrúa sjómanna og þeim fulltrúum eða fulltrúa útvegsmanna sem stóðu að þessu samkomulagi á sínum tíma. Ég veit ekki betur — og það verður þá leiðrétt ef það er rangt — heldur en Alþýðusamband Vestfjarða hafi óskað eftir viðræðum við Útvegs­mannafélag Vestfjarða um þessi mál. En útvegs­menn á Vestfjörðum hafa ekki verið til viðræðu um breytingar á einu eða neinu frá því sem þetta samkomulag gerði ráð fyrir. Og sé þetta rétt, sem ég veit ekki betur en að sé, þá er það rangt hjá hæstv. ráðh. að það hafi ekki verið leitað eftir því að samningar, sem í gildi voru á Vest­fjörðum, yrðu teknir upp og það mál skoðað, hvort hægt væri að fá fram breytingar eins og gert var ráð fyrir.

Í þeirri yfirlýsingu að samkomulagi, sem hæstv. ráðh. las hér upp úr áðan, segir að aðilar lýsi því enn fremur yfir, að þeir muni beita sér fyrir því að heimildir verði veittar til þess að taka þegar upp samninga á þessum grundvelli, — ­beita sér fyrir því. Og ég veit ekki betur, eins og ég sagði áðan, en forsvarsmenn Alþýðusam­bands Vestfjarða hafi gert til þess tilraun, að við þessari beiðni yrði orðið, og væri farið fram á það og leitað eftir því, hvort grundvöll­ur væri fyrir því hjá báðum aðilum að taka þessa samninga upp.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að það væri í raun og veru raunasaga hvernig sumir menn hefðu tekið þessum brbl. með ýmiss konar upphlaupi og brambolti, eins og hæstv. ráðh. orðaði það. Ekki veit ég við hverja hæstv. ráðh. á þarna, hvort hann á við eða orðar svo mótmæli sjó­manna sem einstaklinga og hinna ýmsu félaga innan sjómannasamtakanna sem heildar, hvort hann orðar það eða kallar það upphlaup og bram­bolt þessara aðila gegn þessum brbl. Það er auðvitað hans mál hvaða orð hann velur yfir þau kröftugu mótmæli sem yfir hann og aðra þá, sem að þessari löggjöf stóðu, hafa gengið vegna þessara brbl. En ég hygg þó að hvaða nöfnum sem hæstv. ráðh. vill nefna þetta, þá eigi hann eftir að komast að því, að það var ekkert tímabundið upphlaup eða tímabundið brambolt sem hér hefur verið um að ræða. Hann á ábyggilega eftir að finna fyrir því, þegar hann þarf að ganga undir sinn dóm sem þm. og ráðh., að hér hefur verið full alvara af hálfu sjómannasamtakanna sem heildar og af hálfu einstakra sjómanna, a. m. k. á Vestfjarðasvæðinu. Ég hygg að hæstv. ráðh. eigi eftir að kynnnast því, að það var full meining manna með því að mótmæla kröftuglega þessum árásum hans og hæstv. ríkisstj. á samningsréttinn og á samtök sjómanna sem heildar. Með þessum brbl. var afnumið það forskot sem vestfirskir sjómenn höfðu áunnið sér á undanförnum árum í betri kjörum með frjálsum samningum við sína við­semjendur. Ég hygg að það muni vera leitun á og vandfundið hliðstætt dæmi um beitingu ráð­herravalds gegn sínum umbjóðendum, sambærilegt við það sem hæstv. sjútvrh. gerði í þessu máli.

Með þessari brbl.-setningu eru vestfirskir sjómenn dæmdir til þess að búa við verri kjör en þeir höfðu gildandi samninga um, þ. e. a. s. standist þessi lagasetning fyrir dómstólum. En einmitt mál út af því er til meðferðar hjá dómstólum, — mál sem upp hefur verið tekið af hálfu Alþýðusambands Vestfjarða, og með því verður látið á það reyna hvort í raun og veru standist að ógilda með þessum hætti gildandi kjarasamninga og hvort slíkt getur gilt marga mánuði aftur í tímann, eins og þessi brbl. gera ráð fyrir að verði. En hvað sem þessu líður, þá hrundu vestfirskir sjómenn þessu tilræði hæstv. ráðh. og ríkisstj. með því að leggja til atlögu við ákvæði þessara laga, og þeim varð vissulega nokkuð ágengt í þeim efnum. Þeir hafa í raun og veru hnekkt þessum lögum. Þeir fengu því framgengt að þeir réðu sig á betri kjörum en þessi brbl. gera ráð fyrir. Það gerðist því í kjördæmi hæstv. sjútvrh. sjálfs, að sjómenn beittu samtakamætti sínum með þeim hætti að hnekkja að þessu leytinu til þessari löggjöf hæstv. ráðh.

Eins og ég sagði í upphafi, þá eru allar líkur á því nú að Alþ. fái að taka afstöðu til þessarar lagasmíðar áður en lögin ganga úr gildi. Það er aðeins rúmur hálfur mánuður þangað til þessi brbl. eiga að ganga úr gildi. En um þessar mundir búa sjómannasamtökin í heild sig undir að hnekkja þessari aðför að sjómannastéttinni. Nú eru í undirbúningi kröfur og barátta af hálfu sjómannasamtakanna fyrir því að hnekkja þessu, og ég tel engan vafa á því, að samtakamáttur sjómanna er með þeim hætti að þessu verður hnekkt og það verður ekki staðið upp frá samningaborði í hönd farandi samningum milli sjó­manna og útvegsmanna án þess að þessu tilræði hæstv. sjútvrh. verði rækilega hnekkt. Ég er viss um það, að þessi vinnubrögð af hálfu hæstv. ríkisstj. verða til þess að stæla sjómenn, gera þá samstæðari um kaup sitt og kjör, og ég a. m. k. vona að þeir kunni betri skil eftir en áður í vali sínu á þeim fulltrúum sem þeir veita umboð til þess að fara með sín málefni hér á hv. Alþ. Ég efast a. m. k. ekkert um það, að vestfirskir sjómenn hugsa sig um áður en þeir endurnýja umboð þeim til handa hér á Alþ. sem hafa á þennan hátt snúist gegn sjómannastéttinni og þá fyrst og fremst gegn vestfirskum sjómönnum.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð, ekki a. m. k. að sinni. Ég lýsti strax í haust, þegar þetta mál kom hér til umr., að vísu utan dagskrár þá, andstöðu minni gegn þessum lögum. Ég tel að þau séu svo óréttlát og svo mikil ósvífni gegn frjálsum samningsrétti í landinu, að þeim verði aldrei nógsamlega kröft­uglega mótmælt, og ég ítreka því andstöðu mína gegn þessu frv.