27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3824 í B-deild Alþingistíðinda. (2748)

227. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á árunum 1975–1976 stóðu yfir miklar viðræður milli fjmrn. og samtaka starfsmanna ríkisins um skipan samningsréttarmála. Þeim viðræðum lauk gagnvart Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja með setningu laga nr. 29/1976. Samkv. heim­ild í hinum nýju lögum hefur Bandalag starfs­manna ríkis og bæja sagt upp gildandi kjarasamn­ingum miðað við 1. júlí n. k. Jafnframt hefur Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja verið veitt­ur takmarkaður verkfallsréttur, eins og í lögun­um segir.

Bandalag háskólamanna nýtur enn samningsréttar samkv. 1. nr. 46/1973, en eigi hefur tekist að sætta svo sjónarmið aðila kjarasamninga milli ríkisins og starfsmanna þess að unnt væri að lögfesta eitt kjarasamningakerfi fyrir starfsmenn ríkissjóðs, og virðist nokkuð í land að slíkt verði raunveruleiki. Bandalag háskólamanna og fjmrn. eru þó sammála um að nauðsynlegt sé að gera nú nokkrar breytingar á l. nr. 46/1973, þannig að Bandalag háskólamanna fái heimild til að segja upp gildandi kjarasamningum fyrr en á­kvæði þeirra segja til um.

Í 7. gr. gildandi laga um samninga við Banda­lag háskólamanna segir að aðalkjarasamning skuli gera til eigi skemmri tíma en tveggja ára og koma til framkvæmda 1. júlí næst á eftir gerð hans. Frv. það, sem nú er flutt, gerir ráð fyrir því, að upphaf gildistíma kjarasamnings verði ákveðið í kjarasamningnum sjálfum, en gildis­tími hans verði áfram tvö ár. Önnur atriði frv. fjalla aðallega um breytingu á frestum til upp­sagna og meðferð hjá sáttasemjara.

Gildandi samningur við Bandalag háskólamanna á að öllu óbreyttu að standa til 30. júlí 1978. ákvæðum til bráðabirgða í frv. þessu er lagt til að segja megi upp þeim samningi með þriggja mánaða fyrirvara miðað við 1. nóv. n. k. Ástæða þess, að tímabil núgildandi samnings er þannig nokkuð stytt, er sú, að vænta má nýrra samn­inga við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja nú í sumar, en eðli málsins samkv. verða í mörg­um atriðum að gilda svipaðar reglur í viðskipt­um ríkisins við starfsmenn, óháð því hvaða sam­tökum þeir tilheyra.

Ég leyfi mér, herra forseti, með skírskotun til þess, sem ég hef nú sagt um það frv. sem hér er til umr., að leggja til að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.­og viðskn. Ég vænti þess, þar sem hér er um samkomulagsatriði að ræða milli fjmrn. og Banda­lags háskólamanna, að frv. geti náð fram að ganga á þessu þingi.