27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3827 í B-deild Alþingistíðinda. (2752)

165. mál, póst- og símamál

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra for­seti. Á þskj. 324 er frv. til 1, um stjórn og starf­rækslu póst- og símamála. Þetta frv. var lagt fram í hv. Ed. og gerði ég í framsöguræðu fyrir frv. þar ítarlega grein fyrir málinu, en mun að þessu sinni stytta mál mitt.

Löggjöf um Póst og síma er síðan 1935. Hún er því komin á fimmta tug, og þótti rétt, þegar voru liðin um 40 ár frá því að þessi lög voru sett, að farið væri að endurskoða þau. Í tíð fyrrv. ríkisstj. var af þáv. samgrh., Hannibal Valdimarssyni, og þáv. fjmrh. ákveðið að setja n. sem í störfuðu Jón Skúlason póst- og síma­málastjóri, sem var formaður hennar, Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri í samgrn., og Hörður Sigurgestsson rekstrarhagfræðingur, sem þá var starfsmaður hjá hagsýslustofnuninni og var tilnefndur af fjmrn., en síðan tók Jón E. Böðvarsson deildarstjóri í hagsýslunni við starfi Harðar þegar hann fór úr þjónustu fjmrn.

Þessi n. vann að þessu máli og hefur það tekið alllangan tíma svo sem vonlegt var. Hún kvaddi sér til ráðuneytis fulltrúa frá norsku póstmálastjórninni og norsku símamálastjórninni og þessu til viðbótar var að ráði þeirra norsku starfs­manna pósts og síma kvatt til ráðuneytis ráðgefandi norskt félag sem hafði starfað að endurskoðun norsku póststjórnarinnar og norsku síma­málastjórnarinnar og skipulagt mál þessara stefnana. Þetta félag hafði einnig unnið að endurskipulagningu sænsku símastofnunarinnar og vinnur nú að skipulagningu dönsku póst- og símastofnunarinnar.

Auk þessara fulltrúa, sem ég hef nú þegar greint, voru svo hinir fremstu menn í tækni­- og fjármálasviði Pósts og síma kvaddir til í sam­bandi við þetta verk meðan n. vann að þessum störfum.

Till. n., sem hún hefur skilað í allmiklu riti sem mun hafa verið útbýtt hér á hv. Alþ., eru í aðalatriðum þessar:

1. Að leitast er við að aðskilja annars vegar þær deildir, sem hafa þau meginverkefni að annast yfirstjórn, áætlanagerð og aðra stefnu­mörkun, og hins vegar þær deildir stofnunar­innar, sem annast daglegan rekstur í einstök­um umdæmum, stöðvum og öðrum starfseining­um. Leggja þarf meiri áherslu á að hverju stefnt skuli með rekstri stofnunarinnar og hvernig markmiðum hennar skuli náð. Aukna áherslu verður að leggja á heildaryfirsýn og horfa lengra fram í tímann og létta ákvarðanatöku daglegs rekstrar af þeim sem fást við yfirstjórn stofn­unarinnar.

Annað atriði er valddreifing. Flytja ber meira af rekstrarstjórnun, þ. e. ákvarðanatöku, almenna skipulagningu og framkvæmd, eftirlit með tækniþekkingu og aðra þekkingu í umdæmi þar sem hinn eiginlegi rekstur fer fram. Með því verði stytt boðleið milli vandamálanna og þeirra sem geta tekið ákvörðun við lausn þeirra. Gera ber rekstrareiningar, sem dreifðar verði um landið, sjálfstæðar um sinn rekstur innan ramma rekstraráætlunar og almennra rekstrarfyrirmæla.

Í þriðja lagi aukin formleg stefnumörkun og rekstraryfirlit. Með stefnumörkun er átt við skipulega setningu markmiða fyrir stofnunina í heild og undirmarkmið fyrir einstakar starfseiningar og áætlanir í samræmi við þessi mark­mið, sem geri grein fyrir hvernig menn hyggjast ná markmiðunum. Liður í þessu verði kerfis­bundið rekstrareftirlit með virku stjórnunarbók­haldi og samanburði við áætlanir.

Aukin kynning og fræðslustarfsemi er einn af þeim liðum sem eru í till. n. Og að síðustu að leggja ber áherslu á sameiningu og samræm­ingu póstverkefna og símaverkefna innan sömu stjórnunareiningar eftir því sem nokkur kostur er.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir og ég skal nú stikla á stóru um, er í meginatriðum að till. n. sem vann þessa endurskoðun og samdi frv. Auk þeirrar stjórnunargreiningar, sem ég hef hér drepið á, tel ég að valddreifingin sé geysilega mikið atriði, því með hinum nýju umdæmum úti um landsbyggðina er valdið fært þangað og ákvarðanatakan til framkvæmda um hin einstöku verkefni.

Auk þessa, sem ég hef nú nefnt, var í samráði við samgrn. gerð breyting á frv. í hv. Ed., þar sem m. a. var ákveðið að við gjaldskrárgerð skuli stefnt að því að notendur innan sama svæðis skuli greiða sama gjald. Þessu er ekki nú til að dreifa. Hins vegar má reikna með að það taki einhvern tíma að koma þessu í framkvæmd og þótti rétt, svo að ekki væru fjármál stofnunar­innar í neina hættu sett, að ákveða með reglu­gerð hve langan tíma tæki að koma þessu í fram­kvæmd. Enn fremur var ákveðin heimild handa ráðh. til þess að ákveða eftir þar tilgerðum regl­um að samtöl utan af landsbyggðinni til stjórn­sýslustofnana í Reykjavík hefðu sama gjald, hvaðan sem talað væri. Þetta er m. a. fram kom­ið vegna þess, að oft tekur alllangan tíma að ná þeim aðila í símann, sem tala á við, þegar hringt er úr beinum síma, og þess vegna getur það orð­ið verulegur kostnaður áður en símtalið sjálft hefst. Það verður að sjálfsögðu nokkurt vanda­verk að koma þessu fyrir, en það mál verður athugað því að heimild er fyrir hendi um það.

Það var þannig að þessu máli unnið í hv. Ed., að samgn. beggja d. unnu að málinu. Samgn.­-mönnum þessarar hv. d. er málið því kunnugt og flýtir það fyrir afgreiðslunni hér. Ég vil tím­ans vegna ekki eyða fleiri orðum að þessu merka máli, en tel að brýna nauðsyn beri til að fá frv. afgreitt nú til þess að koma til fullra fram­kvæmda þeim skipulagsbreytingum sem unnið er að, enda er m. a. einn þátturinn í þeim að koma við sparnaði í rekstri stofnunarinnar. Mun hafa fækkað vegna þeirra reglugerða, sem hafa verið settar með hliðsjón af þessu lagafrv. og samkv. heimild í gildandi lögum, um tvo eða þrjá tugi manna við þessa stofnun.

Ég vil leyfa mér að lokum að þakka nm. þeirra störf og nm. beggja deilda fyrir þá vinnu sem þeir hafa lagt í þetta frv. Ég vona að það taki skamman tíma hjá hv. samgn. að afgreiða það til d. aftur og d. að afgreiða þetta frv. sem lög.

Ég legg því til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgn.