27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3834 í B-deild Alþingistíðinda. (2755)

208. mál, byggingarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og sjá má á nál. á þskj. 509, þá áskilja allir nm. sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., þ. e. a. s. þetta er sá fyrirvari sem hver og einn nm. hefur haft um þetta frv. Eins og hv. frsm. félmn. gat um, hefur nokkuð mikil vinna verið lögð í að athuga þetta frv., senda það til umsagnar og breyta því frá því að n., sem frv. samdi í fyrst­unni, gekk frá því. Þó voru það fyrst og fremst formenn n. sem unnu að þessum breytingum.

Eins og kom fram hjá hv. frsm. er orðin full þörf á því að setja ný byggingarlög, þau eru orð­in rúmlega 70 ára gömul að stofni til og sum þeirra raunar enn eldri, eins og kom fram í ræðu hans. En þó er ýmislegt sem mér þykir a. m. k. athugavert við þetta frv. eða vildi hafa á annan veg en hér er, og ég held að verði þessi lög, ef frv. verður að lögum, ekki tekin til endurskoð­unar mjög fljótlega, þá muni það sýna sig að þau ná ekki þeim tilgangi sem ætlast er til.

Eitt er það líka sem hefur ekki verið gengið frá, og það er að byggingarfulltrúarnir í sveit­um eiga að inna af höndum í raun og veru tvenns konar verkefni. Samkv. 11. gr. laganna eiga þeir, eins og stendur í lögunum, að vera leiðbeinendur íbúa dreifbýlisins í sambandi við byggingar, efni, útvega teikningar og annað sem að byggingunum lýtur. Hvernig á að þjóna þess­um þætti, það er alveg eftir að athuga það og koma sér niður á það. Það er að vísu ætlast til að það fyrirkomulag, sem nú er, geti orðið til ársloka 1980. En það er ákaflega hætt við því, að fljótlega eftir að lögin taka gildi muni þetta kerfi verulega riðlast, þeir byggingarfulltrúar, sem nú þjóna dreifbýlinu, muni hætta eða verða þar veruleg breyting á.

Það, sem hefur verið aðallega talið að á vant­aði í sambandi við þessa þjónustu úti í sveitunum, er að það sé ekki nægjanlegt eftirlit og það þurfi þess vegna að fjölga byggingarfulltrúum verulega. Og það hefur verið framkvæmt á þann hátt, að á stærstu svæðunum, þ. e. a. s. Suðurlandi og Norðurlandi eystra, hafa byggingarfulltrúarnir fengið aðstoðarmenn til þess að inna þessi störf af hendi. En samkv. 6. gr. þessa frv. getur hver hreppur eða hvert sveitarfélag, sem hefur yfir 300 íbúa, haft sinn byggingarfulltrúa. Þetta þýðir það, að í mörgum tilvikum mundi þetta verða aukastarf þessara manna, og jafnvel þó að það væru stærri svæði en þetta, þá er hætt við því, enda kemur það fram í aths. við frv., að nm. reikna með því að slík þróun verði í þessum mál­um, að úti um dreifbýlið verði þetta fyrst og fremst menn sem sinna þessum störfum í hjá­verkum sínum. Ég er ákaflega hræddur um það, ef slík þróun yrði, að þá mundi það leiða til þess, að það yrði enn þá minna eftirlit með þess­um byggingum heldur en hefur þó verið, þrátt fyrir það að þessir byggingarfulltrúar eru fáir og þurfa að gegna mjög stórum svæðum. Og þá er verr farið heldur en heima setið ef slík þróun verður.

Það, sem mælir með því að þessir byggingarfulltrúar séu í fullu starfi og svæðin séu svo stór að það sé alveg fullt starf fyrir þá, er líka það, að þá fylgjast þeir betur með öllum nýj­ungum. Það eru fundir, sem þessir menn sækja, t. d. hjá Byggingarstofnun landbúnaðarins, og þannig má segja að þeir læri hver af öðrum og byggi sig betur upp. En ef byggingarfulltrú­arnir verða eins margir og má lesa út úr þessum aths. við frv. að menn reikna með að verði, þá er ég hræddur um að samband á milli þessara manna muni alveg hverfa.

Annað mál er það líka sem eftir er að athuga alveg í þessu sambandi, og það er hvernig Stofnlánadeild landbúnaðarins eða byggingaþjónustan muni þá inna sitt hlutverk af hendi eða hverjir muni taka út þær framkvæmdir sem eru byggðar á hverjum tíma. Nú skilst mér að þeim nm., sem hafa samið þetta frv., að þeir reikni með því að byggingarfulltrúarnir muni gera það á hverjum stað. En ef við athugum hvernig þetta hefur þróast hjá Byggingarsjóði ríkisins, þá fær hann að vísu fokheldisvottorð frá byggingarfulltrúan­um á hverjum stað, en hann treystir þessu ekki. Landsbankinn sendir sína matsmenn í hverja einustu íbúð, hvert einasta hús til þess að meta framkvæmdina og til þess að sannreyna hvort það vottorð, sem hefur borist, sé á rökum reist. Og því miður hefur borið á því í vissum tilvik­um, að það hefur reynst full þörf á að hafa eftir­lit með þessari vottorðagjöf. Þess vegna er alveg eftir að athuga um það, hvernig þessi mál verða leyst af hendi, ekkert síður en leiðbeiningarstarfið.

Það er ýmislegt fleira sem þarf a. m. k. að athuga frekar en gert hefur verið, t. d. 12. gr. Í henni felst að uppdrætti megi ekki gera af mannvirkjum aðrir en arkitektar, byggingarfræðingar, tæknifræðingar og verkfræðingar hver á sínu sviði. Ég er ákaflega hræddur um að þetta verði erfitt í framkvæmd og það verði sérstak­lega erfitt á hinum minni stöðum úti um land. Þetta hefur ekki verið svona. Það er annað líka í þessu frv. sem þarf að endurskoða, og það er að byggingarfulltrúarnir mega ekki gera teikn­ingar fyrir menn á því svæði sem þeir þjóna. Þetta er líka breyting frá því sem er í gildandi lögum.

Ég sé ekki mikinn tilgang með því að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég hef sem sagt fyrir­vara um afgreiðslu frv. Ég hef ekki treyst mér til þess á þeim skamma tíma síðan frv. kom fram í þessari mynd að forma brtt. við það. Það ber þess merki, þetta frv., að það eru fyrst og fremst tæknimenn sem hafa haft áhrif á mótun þess, en hafa ekki haft næga innsýn í hvernig framkvæmdin á þessu er úti um hinar dreifðu byggðir. Það var að vísu einn nm. sem var skipaður af landbrn., mjög góður maður, Bjarni Arason, en það er sýnilegt að hann hefur ekki getað komið sínum sjónarmiðum fram nægilega, eins og frv. er úr garði gert.

Hér kemur sjálfsagt til umr. annað frv. sem ég hef líka fyrirvara um, þ. e. a. s. um skipu­lagslög, og mun ég gera aths. við það síðar.