03.11.1976
Efri deild: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þau brbl., sem hér eru til umr., hafa, eins og hæstv. sjútvrh. gerði grein fyrir, átt langan aðdraganda. En þrátt fyrir skýringar hans í dag og einnig í gær sannfærðist ég ekki um nauðsyn á gildi þeirra, og við í Alþfl. erum á móti þeim eins og þau hefur borið að, og þó einkum 2. gr. l., því að forsenda fyrir nauðsyn brbl. samkv. stjórnarskrá er auðvitað að leysa mjög harðar vinnudeilur í landinu, en því var ekki til að dreifa í þessu tilfelli.

Um það hvernig sjómenn stóðu að sínum málum, hafði ráðh. eitt orð. Hann kallaði það skrípaleik. Það er hans mál. Ég vil miklu fremur taka undir orð síðasta ræðumanns, að ýmis atvík í röðum sjómanna um margra ára bil, og má fara tugi ára aftur í því sambandi, hafa verið þess valdandi að samtakamáttur þeirra er ekki sem skyldi. En að kalla framkomu sjómanna í þessu máli skrípaleik, það má ráðh. einn hafa að sínu orðtaki.

Hann heldur því mjög fram að sú samninganefnd, sem fjallaði um breytingu á sjóðakerfinu, hafi haft, að því er manni skilst, skuldbindandi möguleika á því að koma málum sjómanna þannig fyrir að það lægi beint við að þeir samþykktu allt sem kæmi frá n. Þetta er alger fjarstæða. Hún vann sítt verk og gerði það vel, eins og ráðh. hefur skýrt, og menn deila ekki um það. En auðvitað gat hún bara lagt fram ákveðið samkomulag og gefið ákveðna möguleika að nýjum samningum. Hún hafði ekkert annað vald og hefur ekki fengið það í öllum tilfellum. Sums staðar var það staðfest sem hún gerði, annars staðar ekki. Og ráðh. las upp hversu sjómenn væru daufir í því efni að taka afstöðu til þessara mála og þeirra breytinga sem þeir höfðu þó mjög óskað eftir og að sumu leyti með sterkum mótmælum, að staðfesta vilja sinn í því efni.

En það veit hæstv. ráðh. um mörg ár í þessu efni varðandi sjómannasamninga, að samningar um allt land eru mjög mismunandi. Og ég sé ekki að nokkur ríkisstj. geti fært þá í eitt allsherjarform. Ég sé það ekki. Viðleitni þessa frv. er að gera það skilyrðislaust. Aðstæður á landinu eru svo mismunandi, að það hefur alltaf komið eitthvað í viðbót við sjálfa skiptaprósentuna, einhver sérsjónarmið, rétt eins og á sér stað á vinnusvæði t.d. Stór-Reykjavíkur. Það er dreginn ákveðinn hringur hér á Reykjavíkursvæðinu þar sem menn fá sérstök hlunnindi ef þeir fara út fyrir. Heildartímakaup er það sama, síðan kemur viss hlunnindatala, jafnvel fríar ferðir, frítt fæði og margt fleira. Sama gildir um sjómannasamningana. Margir hafa sagt að þetta væri hvimleitt og erfitt, en óhugsandi er að afnema það með löggjöf.

Aðeins þetta eina atriði er nægilegt til þess að lýsa yfir andstöðu við þessa lagasetningu. Það má deila um það hverjir hafa ráðist mest á sjómenn og fært mest á milli. Mitt mat er það, að enginn hafi gengið lengra í því efni en hæstv. sjútvrh. á sínum tíma, Lúðvík Jósepsson, bæði í fyrri vinstri stjórn og einnig í síðari vinstri stjórn, a.m.k. í tölum talið, í krónutölu talið. En það er ekki alltaf hægt að bera krónurnar beint saman, og það er ekki heldur hægt með einföldu dæmi eins og hæstv. ráðh. las upp. Við verðum að jafna á milli í gengi og reikna það út þannig, og þá vandast málið mjög. En millifærslan fór sífellt vaxandi og var orðin slík að öllum ofbauð. Hún byrjaði hægt í tíð viðreisnar, en jókst hröðum skrefum og varð að milljarða millifærslu, svona mörgum milljörðum í tíð vinstri stjórnar, og svo hélt hún áfram í tíð hæstv. núv. ríkisstj. En mönnum ofbauð allt kerfið og það varð að stokka upp og það varð að brjóta það niður. Um það voru aðilar sammála. En ekki kom til greina að ein ákveðin n. fengi vald til þess að skipuleggja það þannig, að ef menn höfnuðu, eins og hæstv. ráðh. segir, þessu samkomulagi, þá skyldu þeir hafa eitthvert verð sem gilti áður og sjómenn höfðu æ ofan í æ mótmælt, það væri ranglátt og óréttlátt í alla staði og millifært með löggjöf hér á Alþ. í gegnum Olíusjóð og margt, margt fleira.

Nei, það samkomulag og sá grundvöllur, sem þessi starfsnefnd lagði fram, hlaut auðvitað að koma til umr. í víðkomandi sjómannafélagi, annað var óhugsandi, gersamlega óhugsandi. Það þýddi ekkert þá og þýddi ekki nú að segja: Annaðhvort takið þið við þessu eða hafíð bið gamla. — Það var aldrei til umr. slík hugsun, aldrei hjá nokkrum manni. Það er tilbúningur hjá hæstv. ráðh. að segja slíkt skilyrðislaust og gera það skilyrt. Menn höfðu mótmælt þessu sívaxandi millifærslukerfi mjög eindregið. Það var ósanngjarnt, það var alla vega milli starfsgreina, það var milli svæða jafnvel, og náði ekki nokkurri átt að halda því í sívaxandi mæli áfram, svo að það hlaut að koma að því að einhverjir aðilar tækju það verk að sér að gera á því uppskurð og leggja fram nýjar till., sem væru grundvöllur að nýjum samningum. En þó að samkomulag næðist í því efni, eins og raun ber vitni, þá átti það ekki að verða með þeim hætti að annaðhvort segðu menn já eða nei skilyrðislaust og allt vera með sama hætti í uppgjöri um allt land. Það hefur enginn aðili vald til að ákveða slíkt og engin samninganefnd. Það getur vel verið að það hafi komið fram ábending á sínum tíma um að lögin tækju ekki gildi nema allir væru búnir að segja já við því samkomulagi sem þessi starfsnefnd lagði á borðið til þess að fella niður þessa miklu millifærslu. Það getur vel verið að þessi ábending hafi komið fram, ég man ekki eftir henni í ræðu hér á Alþ., og hún gat auðvitað komið fram í röðum sjómanna og útvegsmanna, að setja slíkan fyrirvara, þó tæplega nema hjá útvegsmönnum eða sem ábending til ráðh., eins og hann gat um áðan. En það er auðvitað algert aukaatriði. Það var eins og hæstv. ráðh, fann og sagði réttilega: slík löggjöf var ekki boðleg, og hann tók ekki heldur að sér slíkt hlutverk, það mundi enginn hafa gert, að setja slíka löggjöf eða reyna að koma í gegn lögum með slíkri hótun á bak við.

Að verðið ætti endilega að hækka um 33%, ef þetta yrði tekið til uppskurðar og sett nýtt kerfi, sú tala var aðeins breytileg, vegna þess að einu sinni heyrðist nefnt um 24–25%. Ég man eftir ræðu eins formanns eða forsvarsmanns a.m.k. yfirmanna samtakanna í útvarpi, og ég var svo heppinn að ég tók hana á segulband og á hana, ef hún væri glötuð annars staðar. Hann hélt því hiklaust fram að fiskurinn mundi a.m.k. hækka um 50% ef allt þetta væri fellt niður og jafnvel meira. (Sjútvrh.: Það átti við alla sjóði.) Já, það átti við alla sjóði. Síðan kom blessunarleg verðhækkun á erlendum markaði, þannig að þessar tölur geta hreyfst upp og niður, eins og allir þekkja til sem um þessi mál hafa fjallað. En meginefni þess, að menn eru óánægðir með þessi brbl., er að þau leysa raunverulega ekki þann hnút, sem um er að ræða, enn í dag og eins og hv. 11. landsk, kom inn á mjög vel í sinni ræðu og ég þarf ekki að endurtaka hér, málið er enn óleyst þrátt fyrir þessi lög og þrátt fyrir að þau verði staðfest. Brbl. í því tilfelli og þeirri neyð, sem þau eru réttlætanleg, eiga að hafa það í för með sér að þau leysi það vandamál sem þau eru að fjalla um. En ég tek alveg undir orð 11. landsk. um það, að þau gera það ekki. Þess vegna eru þau gagnslaus og ber að mótmæla þeim og fella.

Hæstv. ráðh. sagði, að lögin ættu að tryggja að staðið væri við það sem undir var ritað. En nefndin, sem fjallaði um uppskipti á þessu sjóðakerfi, hafði ekki það vald að geta sagt öðrum fyrir. Hún lagði til ákveðinn grundvöll, og því miður tókst ekki betur til um staðfestingu á þeim grundvelli en hér hefur verið rakið úr ræðustól og öllum hv. þm. er vel kunnugt um. En það eru sjálfsagt margar ástæður til þess að svo hefur til tekist: áhugaleysi sjómanna þegar frá leið og þeir störfuðu við kannske mismunandi kjör og mismunandi túlkun í þessu máli, sumir sættu sig við fiskverðshækkunina, aðrir ekki, þeir sættu sig ekki við að fá ekki eitthvað meira, einhverja sérþætti fyrir sig á sínu svæði, eins og gengur. Við, sem höfum staðið í slíkum samningum og þekkjum til þessa hugsunarháttar víða um landið, skiljum það mætavel að menn vilja ekki gefa frjálst eftir, — alls ekki — ýmsar sérkröfur sem þeir hafa haft í fjöldamörg ár. Og það gera engin launþegasamtök — ekki nokkur. Það gera ríkisstarfsmenn ekki og það gera engin launþegasamtök. Þess vegna var útilokað að ætla að setja brbl. um þessa samninga sem áttu að þurrka út slíka ákvörðun. Það var gersamlega útilokað. Og það eitt hefði verið nægilegt að mínu mati til þess að sjómenn risu mjög öndverðir gagnvart slíkri lagasetningu.

Sjálfsagt fer svo, eins og hv. 11. landsk. spáði, að þessi sterki þingmeirihl. staðfesti lögin sem slík. En ég sé ekki — og undirstrika það enn einu sinni — að tilgangur þessara laga hafi verið réttlætanlegur, og hann mun ekki leysa þann vanda sem samningsmálin eru í í röðum sjómanna. Þess vegna ber að mótmæla þeim, og ég mótmæli þeim mjög eindregið.