27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3840 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Það var sitt hvað sem ég vildi sagt hafa þegar ég kvaddi mér hljóðs í fyrradag. Nú verður minna úr slíku, enda er ég nýkominn í salinn og hef ekki fylgst með því, sem gerst hefur á þessum fundi.

Aðeins vildi ég gera ofurlitla aths. varðandi nafnið, hvort við eigum að kalla fossinn Kljá­foss eða Kláffoss. Ég vitnaði í Andrés í Síðu­múla í þessu sambandi. Hann hefur mest af sinni ævi búið í næsta nágrenni við þennan stað og heldur því fram, að fossinn hafi alltaf verið nefndur Kláffoss. En hv. þm. Friðjón Þórðarson vitnaði svo í annan mætan mann, Þorstein Þor­steinsson sýslumann, sem var frá Arnbjargarlæk. Það er ekki ýkjalangt frá þessum stað í Hvítá svo að nokkurt mark er takandi líka á því sem Þorsteinn hefur sagt.

En það er held ég ekki alveg rétt sem hv. þm. sagði varðandi Sturlungu í þessu sambandi, að fossinn væri nefndur með nafni í Sturlungu. Ég hygg að svo sé ekki. Það segir hins vegar ein­hvers staðar að „þeir héldu til brúar“. Þar mun vera átt við þennan stað. En jafnvel þó að talað væri um Kljáfoss í Sturlungu, þá tel ég þá heimild ekki örugga, síður en svo. Það kastast ýmislegt til í handritum þeim hinum fornu. Og mörg eru handritin. Hins vegar legg ég í þessu sambandi miklu meira upp úr því sem stendur í bókum Þorsteins heitins Jósefssonar. Hann var líka úr næsta nágrenni við þennan stað, frá Signýjarstöðum. Og ef hann nefnir fossinn Kljá­foss, þá sýnist mér að það teljist æðimikil rök í málinu, meiri rök en það sem kynni að vera sagt í Sturlungu. Ástæðan til þess er einfaldlega sú, að Þorsteinn Jósefsson hefur að öllum lík­indum sjálfur lesið prófarkir að sinni bók, en það gegnir öðru máli um höfund Sturlungu.